Fara á efnissvæði
Frétt

Hjúkrunarfræði í háskóla í 50 ár

Hálf öld er liðin frá því nám í hjúkrunarfræði hófst á háskólastigi á Íslandi. Í október 1973 hófst nám á námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands hélt upp á tímamótin með hátíðardagskrá í aðalbyggingu háskólans föstudaginn 29. september.

Helga Bragadóttir, deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar, og Jón Atli Benediktsson rektor héldu erindi þar sem farið var yfir þær gríðarlegu breytingar sem hafa átt sér stað í hjúkrunarfræði á þessum tíma. Sóley Bender, prófessor emerita, var í hópnum sem hóf nám árið 1973 og fór hún yfir tilurð námsbrautarinnar. Þá hélt Anna Stefánsdóttir, heiðursdoktor í hjúkrunarfræði, erindi um tilgang hjúkrunar í háskóla og framtíðina.

Veittur var styrkur úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur við Háskóla Íslands af þessu tilefni.

Þrír doktorsnemar við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, þær Edythe Laquindanum Mangindin, Guðbjörg Pálsdóttir og Hrönn Birgisdóttir, hlutu styrk.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga óskar starfsfólki Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar, sem og öllum hjúkrunarfræðingum, til hamingju með þessi tímamót.

Nemendur sem hófu nám í hjúkrunarfræði haustið 1973 ásamt kennaranum þeirra, Mörgu Thome.
Sigríður Sía Jónsdóttir, fulltrúi Háskólans á Akureyri, afhenti Helgu Bragadóttur deildarforseta tré í tilefni dagsins.
Jón Atli Benediktsson rektor, doktorsnemarnir Guðbjörg Pálsdóttir, Hrönn Birgisdóttir og Edythe Laquindanum Mangindin, ásamt Jóhönnu Bernharðsdóttur, formaður stjórnar Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur.
Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, mætti með blóm í tilefni dagsins.
Það gerði Magnús Ragnar Guðmundsson líka fyrir hönd Læknadeildar HÍ.
Sóley Bender, prófessor emerita og nemandi í hjúkrunarfræði haustið 1973.
Anna Stefánsdóttir heiðursdoktor.
Móttaka fór svo fram í anddyri Aðalbyggingarinnar.