Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Hannah Rós Jónasdóttir

Hannah Rós Jónasdóttir er gestur Rapportsins að þessu sinni.

Hannah Rós Jónasdóttir er hjúkrunarfræðinemi við Háskóla Íslands og er að byrja á fjórða ári núna í haust. Í sumar og fyrrasumar starfaði hún á krabbameinsdeild, þeirri sömu og hún var sjúklingur á í langan tíma.

Árið 2018 var Hannah Rós lífeindafræðinemi þegar hún var greind með eitilfrumukrabbamein. „Þau voru ekki viss um að ég myndi ná mér,“ segir hún. Eftir að hún byrjaði á krabbameinslyfjum tóku við þrír mánuðir af baráttu.

Hannah Rós hafði alltaf vitað að hún vildi starfa innan heilbrigðisgeirans. „Ég hafði alltaf áhuga á að vinna á spítalanum, ég hef alltaf horft á spítalann sem fallegan stað sem ég vildi vera á, sem er svolítið fyndið því svo var ég sjúklingur.“ Það styrkti þá sýn hennar. „Mér fannst þetta svo flott og vel gert og fallegt að mig langaði enn meira að vinna þarna þegar ég var sjúklingur.“

Henni fannst æðislegt að fara að vinna á deildinni þar sem hún lá inni. „Hjúkrunarfræðingarnir þar þekktu mig, þeim fannst rosalega gaman að sjá mig aftur, það var mjög mikið knúsað,“ segir hún. „Mér líður eins og ég sé heima hjá mér á deildinni. Sumir hafa spurt mig hvort ég fái óþægilega tilfinningu eða eitthvað við að vera þarna, þetta er meira eins og koma inn í húsið þar sem maður ólst upp. Það var nostalgía í byrjun, nú er ég orðin vön því að vinna þarna. Það er alltaf gaman að koma inn í gamla herbergið mitt að sinna sjúklingum.“