Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Heiladren

Sölvi Sveinsson, Sjöfn Kjartansdóttir og Þóra Gunnlaugsdóttir, meistaranemar í gjörgæsluhjúkrun við Háskóla Íslands, sjá um Rapportið að þessu sinni.

Sölvi Sveinsson, Sjöfn Kjartansdóttir og Þóra Gunnlaugsdóttir, meistaranemar í gjörgæsluhjúkrun við Háskóla Íslands, sjá um Rapportið að þessu sinni. Umræðuefnið er heiladren og er þátturinn hluti af verkefni þeirra þriggja í náminu.

„Flesta daga situr heilinn okkar inn í höfuðkúpunni og flýtur þar í makindum í mænuvökvanum sem umlykur hann. Heilinn fær næringu og súrefni í gegnum blóðrásina,“ segir Sjöfn. „Þessi þrjú atriði fylla upp í höfuðkúpuna mjög vel þannig að það er eiginlega ekkert svigrúm fyrir nokkuð annað þarna inni. Höfuðkúpan er hörð og gefur ekkert eftir, ef einhver viðbót eða aukning verður innan í höfuðkúpunni þá eykst þrýstingurinn. Aukinn þrýstingur þýðir hætta á heilaskaða.“

Þá er gripið til þess að nota heiladren, lítil slanga sem er lögð inn í höfuðkúpuna. „Heiladrenið er með innankúpuþrýstingsmæli,“ segir Sjöfn. Markmiðið með meðferðinni er að halda þrýstingnum innan marka.

Þóra segir helst þrjár orsakir vera að baki auknum innankúpuþrýstingi. „Í fyrsta lagi getur orðið einhvers konar fyrirferð í heilanum sjálfum, til dæmis æxli, bjúgur eða sýking. Í öðru lagi getur það verið blæðing, það er oftast talað um fjórar tegundir af heilablæðingum,“ segir Þóra. „Í þriðja lagi getur mænuvökvinn aukist vegna truflana í kerfinu, kannski vegna sýkingar. Þetta eru allt atriði sem við sjáum oft á gjörgæslunni í Fossvogi.“

Þátturinn er 32 mínútur.