Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Helga Bragadóttir

Helga Bragadóttir, deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands, er gestur Rapportsins.

Helga Bragadóttir er hjúkrunarfræðingur, PhD, FAAN, prófessor, forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrunarstjórnun og er nýtekin við sem deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands.

„Það að veita góða hjúkrun, þjálfa nemendur og að skapa þekkingu hangir allt saman. Við viljum fá nýjustu þekkingu, vita hvað virkar og hvað ekki, kenna nemendum það og beita því í klíníkinni. Eitt verður aldrei slitið frá hvert öðru, þetta eru allt bitar í sama púslinu,“ segir hún.

Nefnir hún meðal annars doktorsverkefnið sitt, tækni í heilbrigðisþjónustu. „Það er eitt af því sem Covid kenndi okkur, ég hefði viljað fara í þetta strax um aldamótin en svona er þetta, jarðvegurinn þarf að vera frjór og umhverfið tilbúið.“

Helga lauk BS námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1986, hún starfaði á Borgarspítalanum, Landspítala og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hún kláraði meistaraprófi í barnahjúkrun og hjúkrunarstjórnun, síðar fór hún til Bandaríkjanna í doktorsnám.

Hvetur karlmenn til að fara í hjúkrun

„Einhverra hluta vegna höfum við allt of fáa karlmenn í hjúkrun á Íslandi. Ég hvet þá sérstaklega til að láta það ekki trufla sig þó að einhverjir séu með asnalegar athugasemdir um að fara í hjúkrun. Þeir karlmenn sem hafa farið í hjúkrun og klárað, ég held að ég geti fullyrt að þeim vegnar mjög vel, kunna vel við það og hafa staðið sig vel, þeir eru frábærir þeir karlmenn sem ég þekki í hjúkrun,“ segir hún.

„Ég kalla til okkar hinna sem erum ekki karlmenn, hjúkrunarfræðinga og ekki, og líta aðeins í eigin barm og íhuga hvort við erum að viðhalda einhverri menningu sem að er fjandsamleg því að karlmenn komi í hjúkrun. Ég er að velta þessu fyrir mér, hvort það geti verið að við hugsum, tölum eða hegðum okkur á ákveðinn hátt sem að skapar menningu sem að kemur í veg fyrir að karlmenn treysti sér til að koma í hjúkrun. Ég held að við þurfum eitthvað að líta í eigin barm, hugsa þetta og skoða.“

Á þetta við um alla. „Það þýðir ekki að vera að kvarta, koma fram í fjölmiðlum eða skrifa á Facebook og kvarta yfir því að hafa ekki fengið almennilega þjónustu eða að það hafi ekki verið mannað af hjúkrunarfræðingum og svo kannski í næsta jólaboði þegar að tvítugur frændi segir að hann vilji fara í hjúkrun að gera lítið úr honum eða gera grín að honum. Þetta fer ekki saman.“

Hjúkrunarfræðingar sinna stjórnun

Helga er formaður vísindanefndar ráðstefnu European Nurse Directors Association, ENDA, sem fram fer á Selfossi í þessari viku. Margir erlendir fyrirlesarar mæta með erindi. Þó að þetta sé stjórnendaráðstefna þá hvetur Helga alla hjúkrunarfræðinga sem geta til þess að mæta.

„Stjórnun er þess eðlis að þegar hjúkrunarfræðingar eru að sinna sínu klíníska starfi þá eru þeir raunverulega að sinna stjórnun. Þeir eru að stjórna einhvers konar verkefni eða leiða,“ segir Helga. „Efni ráðstefnunnar og það sem fram er fært þarna lítur ekkert bara að einhverjum stjórnunarstörfum, þegar við skilgreinum stjórnun þröngt, að vera einhver stjóri, það er ekki þannig. Stjórnunarfræðin í dag eru meira leiðtogafræði, það er gerð krafa um leiðtoga og forystu. Þegar ég var í mínu námi í Bandaríkjunum um aldamótin, þá sá maður hvergi leiðtogafærni í fræðunum en í dag þá sér maður það miklu meira. Allir eru leiðtogar, það getur verið í einhverju verkefni eða bara í lífi sínu.“