Fara á efnissvæði
Frétt

Helsinki yfirlýsingin 

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) gefur út yfirlýsingu í kjölfar þings ráðsins sem haldið var í Helsinki.

Yfirlýsingin sem kallast Helsinki-yfirlýsingin (Helsinki Communiqué) var yfirfarin og samþykkt á þingi ICN í Helsinki í Finnlandi í júní. Á þinginu komu saman fulltrúar þeirra 140 hjúkrunarfélaga sem eiga aðild að ICN, þar á meðal Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Í Helsinki yfirlýsingunni eru skilgreindar helstu áskoranir sem hjúkrunarfræðingar glíma við á heimsvísu sem og settar fram stefnumarkandi lausnir. Þar kemur fram að fjárfesting í hjúkrun er skynsamleg fjárfesting til framtíðar. Með því að fjárfesta í hjúkrun er hægt að bæta heilsufar, efla hagkerfi og styrkja samfélög. Hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í að umbreyta heilbrigðiskerfum og takast á við hnattrænar áskoranir.

Á þinginu ræddu leiðtogar hjúkrunarfélagana brýn málefni sem snerta hjúkrunarstarfið, þar á meðal alvarlegan skort á hjúkrunarfræðingum, ófullnægjandi starfsumhverfi og launakjör, árásir á heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir á átakasvæðum, ásamt öryggi og velferð hjúkrunarfræðinga. Þá var bent á ójafna dreifingu vinnuafls og ráðningar hjúkrunarfræðinga til efnaðra landa frá viðkvæmustu löndum heims, en það er í trássi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarunnnar WHO um siðferðilegar ráðningar milli landa.