Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Hjördís Kristinsdóttir

Hjördís Kristinsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun og sendifulltrúi Rauða krossins, er gestur Rapportsins.

Hjördís Kristinsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun og sendifulltrúi Rauða krossins, hefur starfað lengi á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi og hefur þrisvar farið í verkefni á vegum neyðarteymis alþjóðaráðs Rauða krossins.

Árið 2015 fór Hjördís til Nepal þar sem milljónir höfðu misst heimili sitt eftir stóran jarðskjálfta.

„Það er ekkert frábært að horfa upp á aðstæður fólksins en ef þú gleymir þér í því þá hefurðu ekkert mikið að gera þarna. Þú hefur líka tækifæri til að sjá allt fólkið byggja upp allt sitt. Öll hús voru hrunin og fólk er bara að byggja upp húsin sín með höndunum, það eru engar gröfur eða neitt þess vegna. Svo er líka mikilvægt að plægja akurinn því annars fær fjölskyldan ekkert að borða eftir þrjá mánuði,“ segir hún. „Það er svo magnað að sjá seigluna og gleðina sem fólk sýndi samt sem áður, þakklætið.“

Tveimur árum síðar fór Hjördís til Cox Bazar í Bangladess þar sem hún starfaði í flóttamannabúðum Róhingja sem höfðu flúið Mjanmar. Í fyrra fór hún til Haítí í kjölfar jarðskjálfta.

Hjördís segir mikilvægt fyrir fólk að finna sér fyrirmyndir, fleiri en eina. „Hvort sem það er innan þinnar deildar eða utan deildar, þú þarft að finna þér fyrirmyndir til að halda mótivasioninni gangandi. Ég er mjög heppin að hafa fundið mínar.“