Fara á efnissvæði
Viðtal

Hjúkrunarfræðingur á Tenerife: Svanbjörg Andrea er ekkert á leiðinni heim

Viðtal við Svanbjörgu Andreu Halldórsdóttur, hjúkrunarfræðing sem starfar bæði á Íslandi og á Tenerife, í Tímariti hjúkrunarfræðinga

Svanbjörg Andrea Halldórsdóttir, eða Svana Andrea eins og hún er kölluð, er hjúkrunarfræðingur sem starfar bæði á Íslandi, í fjarvinnu á upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar, og á Spáni, nánar tiltekið á Tenerife. Okkur lék forvitni á að vita hvernig lífið væri að leika við hana þarna úti og hvað hefði drifið hana alla leið til Tenerife.

Hver er Svana Andrea?

Ég er fædd í Keflavík og bjó á Suðurnesjunum til 6 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan austur á land þar sem ég ólst upp í sveit. Ég er næstelst þriggja systra, fór frekar snemma að heiman og hef svolítið farið mínar eigin leiðir sem hafa ekki endilega alltaf verið venjulegar eða auðveldar. Ég hef mikinn áhuga á fólki og sögu þess, af hverju það hagar sér á einhvern ákveðin hátt, hverjar séu ástæður fyrir því hvernig fólk lifir lífinu. Mér finnst við mega vera betri hvert við annað, vera ekki gagnrýnin og dómhörð og það skiptir mig máli að sýna fólki skilning og góðvild. Manngæska er eitthvað sem við mannfólkið megum temja okkur betur.

Helstu áhugamál og fjölskylduhagir?

Mér finnst gaman að hlaupa utan vegar og að vera uppi á fjallstindi finnst mér frábært. Ég hleyp aðallega ein og það má segja að það sé minn tími. Ég hreinsa hugann, fæ hjartað til að hamast og það er eitt af því besta sem ég geri. Ég varð móðir ung, eða þegar ég var 19 ára. Ég er einhleyp og er ein hérna úti en ég á fjögur börn sem eru í dag á aldrinum 18 til 30 ára en þegar yngsta barnið mitt var tæplega tveggja ára fannst mér að ég þyrfti að klára eitthvert nám og verða eitthvað.

Af hverju varð hjúkrun fyrir valinu?

Ég var að vinna á leikskóla á þessum tíma og ætlaði að fara í leikskólakennaranám en svo áttaði ég mig á því að það var ekki alveg fyrir mig að vinna á leikskóla og vera með fjögur börn á heimilinu. Úr varð að ég ákvað að segja upp á leikskólanum, hóf störf á Hrafnistu og fór í sjúkraliðanám í kvöldskóla. Ég fann fljótt að þetta átti betur við mig. Þegar ég var búin að vinna sem sjúkraliði í tvö ár fór ég í hjúkrunarfræði og fyrir tæpu ári síðan útskrifaðist ég svo með 90 ECTS-einingar í fjölskyldumeðferðarfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Ég hef unnið mikið með eldra fólki og finnst það mjög skemmtilegt, einnig hef ég unnið á sjúkrahúsinu Vogi, bæði sem sjúkraliði og sem hjúkrunarfræðingur, tekið sumarafleysingu á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, við heilsugæsluna og á Landspítala.

Hversu lengi ertu búin að starfa á Tenerife og hvað varð til þess að þú ákvaðst að flytja þangað?

Ég flutti til Tenerife í byrjun nóvember 2022. Helsta ástæðan er að eftir því sem ég verð eldri finnst mér myrkrið yfir vetrartímann á Íslandi erfiðara. Ég er búin að gera ýmislegt til að gera veturinn auðveldari og léttari, sem hefur að einhverju leyti virkað, en samt ekki nóg fyrir mig. Mig hefur líka langað að prófa að búa annars staðar en á Íslandi og á þessum tímapunkti opnaðist einhver gluggi í lífinu og ég tók stökkið. Ég er samt búin að stefna að þessu síðan í janúar árið 2020. Þá var ég með foreldrum mínum hér á Tenerife, á hóteli þar sem var töluvert af eldri Íslendingum, og þá kom þessi hugmynd upp í huga mér, hvort ekki væri þörf fyrir hjúkrunaraðstoð. En nokkrum vikum seinna skall heimsfaraldur á sem lokaði á allt og aðstæður breyttust snögglega. Á þessum tveimur árum varð yngsta barnið mitt nálægt því að verða fullorðið og ég fór í fjölskyldumeðferðarnámið og tók meðal annars námskeið sem hafði þau áhrif á mig að ég breytti lífi mínu.

Áslaug Björnsdóttir og Rúna Einarsdóttir útskrifuðst á sama tíma og Svana Andrea úr hjúkrunarfræði, þær heimsóttu vinkonu sína nýverið í sólina á Tenerife.

Hvaða námskeið var það sem hafði svona mikil áhrif á þig?

Þetta námskeið var á vegum Fyrsta skrefsins og er meðferðarnálgun sem byggir á meðvirkni og áfallameðferð Piu Mellody. Eftir að hafa lært þessa meðferð og fundið hvaða áhrif hún getur haft þá heillaðist ég af henni. Mér finnst mér flestir vegir færir, og ef einhver fyrirstaða er, þá hef ég kjark og þor til að leysa það. Ég hafði mikinn áhuga á að hægja aðeins á því mér finnst ég hafa verið eins og hamstur í hjóli alla tíð má segja og ekki sjá fyrir endann á því. Mér finnst mikill munur á því að hafa nóg að gera en að reyna að fylla upp í einhvern tómleika eða einhverjar kröfur sem samfélagið gerir.

Hvers vegna varð Tenerife fyrir valinu og hvaða þjónustu veitir þú?

Mér hefur alltaf fundist gott að koma til Tenerife og þegar ég var búin að koma hingað nokkrum sinnum fannst mér þetta vera eins og mitt annað heimili. Svo er það birtan, hitinn og það að flest hér er rólegra. Það er ekki sami hraðinn og heima. Ég bendi fólki á hvert það getur leitað þegar það þarf á læknisþjónustu að halda, hvernig kerfið virkar hérna, t.d. varðandi tryggingar og fleira. Svo býð ég upp á hjúkrunarþjónustu eins og sárameðferð, innlit vegna veikinda, ráðleggingar, stuðning þar sem fólk er inni á sjúkrahúsi, fylgd til læknis og jafnvel í apótek. Ég met hvert tilfelli fyrir sig og veiti viðeigandi þjónustu. Ég er að stofna fyrirtæki utan um þessa þjónustu sem ég er að veita hér á Tenerife.

Svana Andrea með foreldrum sínum, Sigríði Bragadóttur og Halldóri Georgssyni.

Hvernig er frábrugðið að hjúkra á Tenerife og Íslandi?

Aðstæður eru mjög ólíkar, fólk er hér í fríi og það finnur oft fyrir miklu óöryggi. Það kann ekki á kerfið og veit ekki hvert það á að leita ef eitthvað kemur upp. Ef fólk fer ekki á almenningssjúkrahús hérna þá þarf það að borga fyrir þjónustuna og þótt að það sé dýrt að vera veikur á Íslandi þá er kerfið á Íslandi þannig að þegar fólk verður veikt þarf það ekki að borga háar upphæðir fyrr en í langvinnum veikindum. Það fer meiri tími í það hér að leiðbeina fólki um kerfið en að hjúkra því.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart?

Ég vissi, eins og flestir, að Íslendingar eru hrifnir af Tenerife en það hefur komið mér á óvart hversu margir Íslendingar búa hér alfarið eða að hluta til. Það er alveg sama hvert farið er um suðurhluta eyjunnar það eru Íslendingar út um allt. Það sem hefur komið mér skemmtilega á óvart er hversu þakklát fólk er þegar það fær aðstoð og stuðning. Ég hef í starfi mínu sem heilbrigðisstarfsmaður margsinnis fundið fyrir þakklæti en hér getur fólk verið svo vanmáttugt og þakkar manni innilega með tárin í augunum.

Hvað sérðu fyrir að framtíðin bjóði upp á?

Mig langar að vera hérna eitthvað áfram og sjá hvert þetta leiðir mig. Ég hef ekki auglýst mig að ráði, vil láta þetta þróast hægt og rólega. Hér gerist allt hægar og það tekur tíma að koma sér fyrir í nýju landi og byrja á einhverju nýju sem ekki hefur verið boðið upp á áður. Ég hef ákveðið að endurmeta stöðuna þegar ég hef verið hér í ár og gefa þessu þá mögulega annað ár til viðbótar. Eftir tvö ár ætti að vera komin góð mynd af því hvað hægt er að bjóða upp á hér. Hægt og rólega hefur eftirspurn eftir hjúkrunarþjónustunni verið að aukast og ég sé fyrir mér að ég þurfi að fá aðra manneskju með mér í þetta. Það væri líka gaman að opna hérna aðstöðu í samvinnu við fleiri heilbrigðisstarfsmenn. Ég sé mikla möguleika og margt sem hægt er að gera, það eru spennandi tímar fram undan að mínu mati.

Ertu komin til að vera á Tenerife?

Eins og staðan er í dag langar mig ekki að flytja aftur til Íslands. Mér finnst yndislegt að koma heim og sakna margs. Ísland er frábært og þótt ég sé aðeins búin að búa hér í fjóra mánuði þá kann ég strax að meta margt á Íslandi sem mér þótti svo sjálfsagt þar áður. Mér líður vel hérna í hitanum og sé ekki fyrir mér að flytja heim í bráð.

Hér má lesa nýjasta tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga.