Samstarf háskóla er sjóður á vegum stjórnvalda sem ætlað er að styðja við aukið samstarf íslenskra háskóla á öllum sviðum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti niðurstöður úthlutunarinnar í gær. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr Samstarfi háskóla en alls koma 1,6 milljarðar króna í hlut aðstandenda 35 verkefna.
Ásta Thoroddsen, prófessor emerita, og Brynja Örlygsdóttir, prófessor í heilsugæsluhjúkrun við Háskóla Íslands, standa að verkefninu ásamt fleirum hjá Rannsóknar- og þróunarsetri um ICNP á Íslandi.
Verkefnið byggir á því að innleiða fagmálið ICNP (International Classification for Nursing Practice), sem er staðlað, þýtt, kóðað, alþjóðlegt orðfæri (hugtök) í hjúkrunarfræði, til kennslu á landsvísu. Ný hermisetur við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri skapa mikla möguleika til að tengja fræðilega og klíníska kennslu með ICNP hugbúnaði. Innleiðingin krefst faglegrar samantektar/framsetningar á gagnreyndri þekkingu í hjúkrun með aðstoð gervigreindar og þróun hugbúnaðar til notkunar í kennslu, rannsóknum og klíník. Er þessi styrkur er stórkostlegt skref fyrir skráningu hjúkrunar á Íslandi.
Í gær var einnig veittur styrkur upp á rúmar 31 milljón krónur í verkefnið Þ róun kennslu, náms og val á nemendum í hjúkrun. Það er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands þar sem verður unnið að því að bæta nýtingu námsplássa í hjúkrunarfræði og minnka brottfall úr starfi að námi loknu. Greint verður hvað spáir fyrir um styrk og áhuga í námi og starfi. Áhrifaríkar aðferðir við val á nemendum inn í hjúkrunarfræði verða greindar og möguleikar á samræmdri inntöku skólanna skoðaðir. Kjörval á nemendum, samnýting námskeiða og sameiginleg samkeppnispróf tryggja betri gæði náms, er fjárhagslega hagkvæmt og eykur jafnræði nemenda sem og ánægju í námi.
Gert er ráð fyrir að aftur verði auglýst eftir umsóknum um styrki í Samstarf háskóla árið 2024.