Ásta Hannesdóttir er elsti núlifandi hjúkrunarfræðingur á Íslandi en hún varð 101 árs þann 7. maí síðastliðinn. Ásta býr ein í huggulegri íbúð á Garðatorgi þar sem blómin hennar fá að njóta sín innan um falleg listaverk og lífsglaða húsfreyju. Ásta var gift Karli Guðmundssyni verkfræðingi sem lést árið 2014 og eignuðust þau hjónin eina dóttur, Hólmfríði árið 1963, auk þess átti Karl eina dóttur fyrir. Ásta segist vera rík kona, hún á nokkur barnabörn og enn fleiri barnabarnabörn og er dugleg að hitta afkomendur sína.
Ritstýran heyrði í Ástu og fékk að kíkja til hennar í kaffispjall um námsárin og störf hennar sem hjúkrunarfræðingur fyrr á tímum en Ásta hóf hjúkrunarnám sama ár og Ísland fékk sjálfstæði árið 1944 og upplifði því sögulega tíma. Berklafaraldurinn reið yfir heimsbyggðina og ekki var búið að finna upp lyf við fjölmörgum sjúkdómum sem í dag eru til lyf við. Tæknin sem og tíðarandinn hefur breyst mikið síðan Ásta útskrifaðist úr hjúkrun og hélt út í heim.

Fyrst verðum við að spyrja hver galdurinn sé, hvernig kona fari að því að lifa í meira en heila öld og bera aldurinn svona vel. „Ætli það sé ekki bara að vera kát og glöð, ekki get ég þakkað genunum fyrir langlífið en ég hef haft það gott í gegnum tíðina, lifað góðu lífi og ekki fengið neina alvarlega sjúkdóma. Ég hef verið heppin hvað það varðar en ég er svolítill klaufi og hef stundum verið að detta og brjóta mig en það er bara af því það getur verið svo mikill asi á mér,“ segir hún og hlær innilega. Ásta er einstaklega ern og hress og það var áhugavert að spjalla við hana og fá að heyra um það sem hún upplifði sem hjúkrunarfræðingur. Við tyllum okkur niður í gamalt og sjarmerandi sófasett í betri stofunni og Ásta kemur með fulla skál af konfektmolum og kaffi áður en við hefjum viðtalið og spyrjum hana hvers vegna hún vildi verða hjúkrunarfræðingur? „Ég ólst upp í litlu þorpi norður í landi, á Hvammstanga. Þar var læknishús og lítill spítali var áfastur við húsið þangað sem ég mætti í bólusetningar og slíkt. Svo þegar kom að því að ég fór að huga að því hvað mig langaði að gera í framtíðinni varð mér hugsað til litla spítalans og ég ákvað að tala við hjúkrunarfræðing sem starfaði þar því mig langaði svo að prófa að vinna við hjúkrun. Ég fékk þá vinnu á Hvíta bandinu við að sinna sjúklingum og mér líkaði svo vel að ég ákvað á sækja um nám í hjúkrunarfræði strax um haustið,“ útskýrir hún brosandi en á þessum árum var Kristín Thoroddsen skólastjóri Hjúkrunarskólans.
Á skólabekk í sex vikur
Það var lýðveldisárið 1944 sem Ásta byrjaði í náminu og þá var kennt á Landspítalanum. „Það voru sex nemar teknir inn að hausti og svo aðrir sex að vori. Við byrjuðum á því að fara á sex vikna námskeið, Sigríður Bachmann var kennarinn okkar og hún kenndi okkur á tæki og tól, svo áttum við að læra að baða og fengum dúkkur til að æfa okkur á. Sigríður kenndi okkur að sjálfsögðu einnig að búa vel um rúm og fleira, það farið yfir þetta helsta. Eftir þessar sex vikur á skólabekk var okkur svo réttur fatabunki sem í var kjóll, svunta og blæja og svo áttum við bara að mæta strax næsta morgun inn á deild og byrja að vinna sem nemar,“ útskýrir hún og hlær enda tímarnir breyttir og nemar í hjúkrun sitja talsvert lengur en sex vikur á skólabekk. „Ég bjó á heimavist á námsárunum og ég og ein önnur vorum í risherbergi á Landspítalanum. Okkur var sagt að hafa ekki áhyggjur því við yrðum vaktar fyrsta morguninn því við áttum að mæta snemma og byrja að vinna. Nema hvað það gleymdist að vekja okkur og við vöknuðum skelfingu lostnar allt of seint og þutum niður á deildirnar en við áttum að vera hvor á sinni deildinni en þá voru alltaf kvennadeild og karladeild. Ég mæti voðalega skömmustuleg, allt of seint á fyrstu vaktina og deildarstjórinn rétti mér þegjandi stóran trébakka með fjórum matarskömmtum sem ég átti að fara með til sjúklinga. Hún var ekki ánægð með mig og þessi fyrsti morgun situr í minningunni. Eins man ég vel eftir því þegar ég missti eitt sinn þunga trébakkann með öllum matarskömmtunum á í gólfið,“ segir hún og hlær og bætir við að það hafi ekki mikil kennsla átt sér stað heldur áttu þær sem voru nemar aðallega að fylgjast með hjúkrunarkonunum að störfum og læra af þeim. „Við mættum snemma til vinnu, stundum átti ég að mæta á vakt klukkan 6, ég upplifði að allt þyrfti að líta svo vel út áður en læknarnir mættu á stofugang sem var eftir morgunmat. Við vorum því oft sveittar að klára morgunverkin áður en þeir kæmu, við vorum að snyrta sjúklingana og þurftum að passa að hafa allt snyrtilegt á stofunum,“ útskýrir hún og fær sér mola.

Þótti spennandi að fara út á land að vinna
Ásta segir að fyrsta námsárið hafi farið í að flakka á milli deilda, þær hafi fylgt hjúkrunarfræðingum eftir og svo fengið tíma með læknum af þessum deildum og námsbækur sem voru á dönsku sem þær áttu að lesa. „Eftir þetta fyrsta ár vorum við allar sendar út á land og þá var ég ásamt annarri send til Ísafjarðar. Ég var þá orðin 21 árs og mér þótti voðalega spennandi að fá að fara á út á land að vinna. Þá var nýr hjúkrunarforstjóri, kona yfir sjúkrahúsinu sem var nýkomin frá Englandi þar sem hún hafði starfað öll stríðsárin og hún var ekki mikið að spá í að kenna okkur nemunum. Við vorum bara látnar vinna á hjúkrunardeild þarna eina önn og lærðum voða lítið, það gerðist tvisvar að við vorum kallaðar inn á skurðdeild þar sem við fengum að fylgjast með og læra. Það var þegar maður kom inn eftir alvarlegt sjóslys og svo þegar kona kom inn til að fæða, mér fannst það svo spennandi því ég hafði aldrei séð fæðingu þrátt fyrir að eiga fimm yngri systkini,“ segir hún brosandi og bætir við að hún hafi ekki lært mikið þetta hálfa ár sem hún var nemi á Ísafirði: „Það hefði verið hægt að gera betur og kenna okkur meira. Eftir Ísafjörð vorum við sendar á Vífilsstaði sem var berklaspítali, þar vorum við í umönnun sjúklinga og það kom fyrir að ég var eini hjúkrunarfræðingurinn á kvöldvakt. Yfirlæknirinn Helgi Ingvarsson bjó þá í læknisbústaðnum á Vífilsstöðum og hann sagði mér að hringja í sig eins og skot ef ég þyrfti á honum að halda. Svo gerðist það að sjúklingur var farinn að kasta upp blóði og ég hringdi og hann kom hlaupandi á náttfötunum, Helgi var rosalega góður læknir og bar mikla umhyggju fyrir sjúklingunum sem hann sinnti dag og nótt.“
Þegar Ásta var nemi á Vífilsstöðum voru ekki komin lyf við berklum sem virkuðu, þau komu seinna og þá varð bylting í baráttunni. Hún segir að á þessum tíma hafi mikil áhersla verið lögð á að hafa hreint og gott loft hjá berklasjúkum og gluggar hafi því iðulega verið opnir upp á gátt á Vífilstöðum og sjúklingarnir lágu líka mikið úti undir berum himni. „Fólkið var bara dúðað og sett út í ferska loftið, það var það eina sem hægt var að gera á þessum tíma,“ útskýrir hún þegar hún rifjar upp berklafaraldurinn sem þarna geisaði.
Sérstök upplifun að starfa á geðsjúkrahúsi í Hróarskeldu
Strax eftir útskrift leitaði hugur Ástu út fyrir landsteinana, hana þyrsti í ævintýri. „Mér fannst mest spennandi að komast til útlanda að vinna því ég hafði aldrei farið neitt, hafði ekki einu sinni stigið upp í flugvél og úr varð að ég og ein önnur fórum saman til Danmerkur. Þar fórum við að vinna á geðveikrahæli í Hróarskeldu sem var rosaleg upplifun því ég hafði aldrei unnið á geðdeild. Geðsjúkrahúsið var stórt, þetta voru margar byggingar og við vorum báðar á deild sem var eingöngu fyrir konur og var í stóru húsi, karlarnir voru svo í öðru húsi. Þetta var í mars og það var ágætlega hlýtt úti og sjúklingarnir voru allir settir út á morgnana og voru hafðir úti í garði allan daginn. Þetta voru mjög veikar konur og ekkert sem beið þeirra nema vistin þarna. Margar þeirra voru bundnar á höndum og aðrar voru með poka svo þær myndu ekki klóra og slíkt því þær þóttu ofbeldisfullar,“ útskýrir hún hugsi og aðspurð hvort það hafi sett mark sitt á hana að hafa starfað á stórum geðspítala í öðru landi svona nýútskrifuð segir hún svo vera: „Þetta var skrýtin upplifun, til dæmis máttu ekki vera nein glerílát og matardiskarnir voru úr þunnu áli og þeir flugu oft um allan garðinn og stundum með matnum á ef fólki líkaði ekki maturinn eða eitthvað annað. Það var lítið um samskipti við sjúklingana því þeir töluðu sama og ekkert og það kom því ekki að sök að ég talaði ekki reiprennandi dönsku. Það var ágætur lærdómur að fá að kynnast þessum veruleika en það var lítið hægt að gera fyrir sjúklingana nema bara gefa þeim að borða og koma þeim í háttinn og slíkt.

Starfaði á berklaspítala í Noregi og skurðstofu í Svíþjóð
Eftir fimm mánuði á stóra geðsjúkrahúsinu í Hróarskeldu fóru þær Kristín Þorsteinsdóttir, sem útskrifaðist á sama tíma og Ásta og fór með henni til Danmerkur, að vinna á endurhæfingardeild í útjaðri Kaupmannahafnar þar sem þær kynntust endurhæfingarhjúkrun í nokkra mánuði. „Eftir ár í Danmörku ákváðum við að fara næst til Noregs því okkur langaði ekki heim strax. Við hófum störf á berklaspítala í Bergen og þar var skortur á ýmsu eftir stríðsárin því Noregur fór illa út úr þeim tíma. Þarna kynntumst við annarri hjúkrunarkonu frá Íslandi og við fórum svo þrjár saman til Svíþjóðar eftir eitt ár í Bergen. Þá fór ég að vinna á skurðstofu við að undirbúa sjúklinga fyrir aðgerðir og annað slíkt en ég hafði aldrei unnið á þannig deild áður og þótti það góður lærdómur,“ segir hún þegar hún rifjar upp fyrstu árin í starfi sem voru í þremur löndum og ár í hverju landi en hvar þótti henni best að búa, í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð? „Ég kunni best við mig í Danmörku,“ svarar hún án umhugsunar og segir svo að eftir þrjú ár fjarri heimahögunum hafi þær vinkonurnar ákveðið að tímabært væri að flytja aftur til Íslands. „Og þá sigldum við heim með Gullfossi því við höfðum aldrei áður ferðast með skipi og urðum að prófa það. Um borð kynntumst við tveimur íslenskum hjúkrunarkonum, önnur var forstöðukona á Vífilsstöðum og hin á Kleppi og þær vildu endilega fá okkur í vinnu. Mig langaði meira að fara á Vífilsstaði en þar var ekkert húspláss laust en það var laust lítið hús fyrir okkur á Kleppi svo það varð úr að við ákváðum að fara þangað í smá tíma og vorum þar í svona fimm mánuði. Þá var okkur boðið að koma að vinna hjá Heilsuverndarstöðinni sem okkur þótti spennandi, ég fór að vinna á berklavarnardeildinni en þá var starfsemin í litlu húsi við hliðina á Alþingishúsinu." Á þessum tíma var verið að byggja Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg. Ásta segir að það hefi verið mikið að gera á deildinni sem hún starfaði. „Flesta daga var móttaka fyrir fólk sem var í eftirliti eftir að hafa verið veikt eða var að koma í skimun því sumir voru einkennalausir og þá var mikilvægt að skima. Á þessum tíma voru sem betur fer komin lyf við berklum en við vorum mikið að skima fyrir sjúkdómnum, til dæmis skólabörn, þá fórum við inn í bekki og settum plástur á börnin og ef það komu litlar bólur undan plástrinum voru það líklega berklar og þá var fylgst vel með þeim börnum, þau gegnumlýst og gefin lyf.“

Fór í framhaldsnám í heilsugæsluhjúkrun
Eftir að hafa starfað í um eitt ár á berklavarnardeildinni langaði Ástu að fara í meira nám. „Það var hægt að fara til Árósa í eins árs framhaldsnám í heilsugæsluhjúkrun sem ég gerði. Ég snéri svo aftur til starfa á Heilsuverndarstöðinni en starfsemin fluttist í nýtt húsnæði við Barónsstíg sem hafði verið sjö ár í byggingu. Húsið var vígt árið 1957 en fyrsta deildin tók til starfa 1953. Ég var þar þangað til ég gifti mig og eignaðist dóttur okkar árið 1963. Þá hætti ég að vinna í nokkur ár, við byggðum okkur hús á Bakkaflöt og þegar Hólmfríður okkar var orðin sjö ára langaði mig að fara að vinna aftur. Vífilsstaðaspítali var í göngufæri við heimilið okkar, ég fékk vinnu þar og það var því örstutt að fara í vinnuna sem var þægilegt,“ útskýrir Ásta brosandi, hún segist hafa verið ánægð á Vífilsstöðum og aðspurð hvað standi upp úr svarar hún einlæg: „Mér þótti bara svo gaman að vinna við hjúkrun og hefði ekki viljað starfa við neitt annað. Ég kynntist mörgu góðu fólki og við sex sem vorum saman í náminu vorum alla tíð góðar vinkonur,“ segir hún brosandi, sátt við ævistarfið og lífið. Við klárum síðustu konfektmolana úr skálinni og förum svo út í góða veðrið þar sem Ásta sýnir mér sumarblómin sín. Hún hlúir augljóslega vel að blómunum því þau dafna vel í litla garðinum hennar. Ég fæ að taka nokkrar myndir af Ástu sem einstaklega sjarmerandi og yndisleg kona og við kveðjumst með faðmlagi. Þetta er eitt af þessum viðtölum sem eiga eftir að sitja í minningunni, einstök saga og hlý nærvera Ástu.