Fara á efnissvæði
Frétt

ICN fagnar 125 ára afmæli

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga, ICN, fagnar á þessu ári 125 ára afmæli ráðsins. Til stendur að vera með viðburði yfir allt árið, þar af einn stóran í haust sem auglýstur verður bráðlega.

Til að hefja afmælisárið hefur ICN gefið út tvær yfirlýsingar, Yfirlýsing um jafnræði kynja í heilbrigðisþjónustu og Yfirlýsing um jafnræði kynja í hjúkrun og mannauði. Fyrri yfirlýsingin snýr að almennu kynjamisrétti sem er skaðlegt heilsu og samfélögum í heild. Síðari yfirlýsingin snýr að kynjamisrétti sem er höfuðástæða þess að samfélög víða um heim virða ekki störf hjúkrunarfræðinga og fjárfesta ekki nóg í þeirra störfum.

Pamela Cipriano, forseti ICN, segir í tilkynningu að ein höfuðástæða fyrir stofnun ráðsins árið 1899 hafi verið til að valdefla hjúkrunarfræðinga auk þess að bæta stöðu kvenna um allan heim. Þessi göfugu markmið eiga enn fullt erindi í dag, 125 árum síðar.

„Þrátt fyrir að margt hafi áunnist og staða kvenna hefur batnað mikið þá eru þessi mál enn efst á baugi í okkar starfi. Í dag eru meira en 130 samtök og félög hjúkrunarfræðinga um allan heim meðlimir að ICN sem vinna að því að styrkja stöðu hjúkrunarfræðinga,“ segir hún. „Ójöfnuður í heiminum er að aukast þegar litið er til heilsu, fjárhagsstöðu, fátæktar og tækifæra, kynjamisrétti er yfirleitt kjarninn að vandanum.“

Cipriano segir að yfirlýsingarnar tvær leggi áherslu á mikilvægt hlutverk hjúkrunarfræðinga í að tryggja að heilbrigðisþjónusta sé veitt af fólki af öllum kynjum.

„Nú þegar við fögnum 125 ára afmæli ICN þá liggur það fyrir að við þurfum frekara átak til að ná fullu kynjajafnrétti. Hjúkrunarfræðingar eru þar í forystuhlutverki.“