Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN) fordæmir mannréttindabrot í garð innflytjenda og hvetur ríkisstjórnir heimsins til að hlúa að heilsu þeirra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun ICN á fundi ráðsins sem haldinn var á undan ráðstefnu ICN í Montreal í Kanada. Fulltrúar Íslands eru nú staddir á ráðstefnunni sem fer fram dagana 1. til 5. júlí.
Ályktunin var lögð fram af félögum hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum, þar á meðal Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, og var hún samþykkt einróma.
Í ályktuninni segir að málefni innflytjenda hafi verið í brennidepli síðustu mánuði, á það einnig við um búferlaflutninga hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks. Ástæður að baki búferlaflutningum eru margvíslegar; skortur á mat, skortur á húsnæði, stríðsástand og ýmis konar mismunun hefur neytt fólk til að flytjast á milli landa. Sum lönd í heiminum neita innflytjendum um vernd og að verja þeirra grundvallarmannréttindi. Nýlega hefur komið í ljós að sums staðar er innflytjendum neitað um mat, sú staða krefst þess að brugðist verði við með hraði.
Í júní síðastliðnum samþykkti Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) Rabat-yfirlýsinguna sem kveður á um að „flóttafólk, hælisleitendur, fólk án ríkisfangs og aðrir sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín eigi rétt á heilbrigðisþjónustu ásamt öðrum grundvallarþörfum“.
Í ályktun Norðurlandaþjóðanna, sem gefin er út af ICN, eru öll slík mannréttindabrot fordæmd og eru önnur alþjóðasamtök heilbrigðisstarfsfólk hvött til að gera slíkt hið sama.