Iðunn Dísa Jóhannesdóttir er hjúkrunarfræðingur og starfar á Heilsugæslu Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Iðunn er klínískur fagmaður fram í fingurgóma. Í störfum sínum nýtur Iðunn ómældrar virðingar samstarfsfólks og skjólstæðinga fyrir einstaka fagmennsku og nærveru. Hún er traustur bakhjarl nema og hjúkrunarfræðinga sem eru nýir í starfi. Hún er drífandi og framkvæmdarsöm og smitar aðra með vinnugleði sinni. Hún hefur barist fyrir bættum aðbúnaði samstarfsfólks og skjólstæðinga. Iðunn, sem er borinn og barnfæddur Vetmannaeyingur, fór og sótti sér hjúkrunarfræðimenntun og reynslu sem hún sneri með tilbaka í heimabyggð og auðgar og tryggir öryggi þannig í samfélagi sínu, sem oft og tíðum er einangrað í dreifbýlinu.
Fimm hjúkrunarfræðingar, þar á meðal Iðunn, hlutu hvatningarstyrk á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2023 sem haldinn var í Hörpu.
Markmið hvatningarstyrkja er að styðja við hjúkrunarfræðinga sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr á sínu sviði. Viðurkenningin byggir á gildum Fíh, ábyrgð, áræðni, árangur og horft skal til þátta sem lúta að klínískri færni, stjórnun, kennslu, rannsóknum og nýsköpun í hjúkrun.
Styrknum er ætlað að styðja hjúkrunarfræðinga til að afla sér frekari þekkingar og/eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar sín verkefni sem tengjast hjúkrun og þeir eru í forsvari fyrir eða leiða. Þessir hvatningarstyrkir eru veittir einstaklingum en ekki fyrir verkefni eða rannsóknir sem eru fjármagnaðar að fullu eða hluta annarstaðar.