José Luis Cobos Serrano var kjörinn forseti ICN á þingi Alþjóðaráðsins í Helsinki í Finnlandi. Hann tekur við af Pamelu Cipriano sem gengdi embættinu frá 2021.
Cobos Serrano er frá Spáni og er með doktorsgráðu í hjúkrunarfræði. Hann hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á þremur sjúkrahúsum í Madríd og hefur setið í stjórn ICN frá 2021.
Í viðtali á vef ICN segir Cobos Serrano að hann finni fyrir ábyrgðinni sem fylgir þessu hlutverki. „Ég vil vera leiðtogi en ég veit að þetta embætti er ekki verk einnar manneskju, þetta er teymisvinna og ég hlakka til að vinna með stjórninni. Kollegar mínir í stjórn ICN eru raddir hjúkrunar frá öllum heimsálfum og þau hafa svo margt fram að færa. Markmið mitt er að allir hjúkrunarfræðingar finni fyrir stuðningi, þannig að við getum í sameiningu eflt og þróað hjúkrunarfræði í heiminum.”

Sineva Ribero, formaður Vårdförbundet í Svíþjóð, var kjörin fyrsti varaforseti ICN, sem fulltrúi Norður- og Austur-Evrópu. Annar varaforseti er Megumi Yamaura-Teshima frá Japan sem fulltrúi Asíu og sá þriðji er Perpetual Ofori-Ampofo frá Ghana sem fulltrúi Afríku.
Sineva segir í viðtali á vef ICN að hún muni einbeita sér að því að gera ICN og öll aðildarfélögin að öflugum talsmönnum hjúkrunarfræðinga um allan heim. „Það skiptir máli að hjúkrunarfræðingar hafi áhrif og að rödd þeirra heyrist. Til að svo megi verða þurfum við að vinna skipulega og markvisst að því að ná okkar markmiðum.“
Sinveva er okkur hjá Fíh einnig að góðu kunn en hún er varaformaður Nordic Nurses Federation (NNF) sem eru samtök hjúkrunarfélaga á Norðurlöndunum.