Samningurinn byggir í megindráttum á fyrri samningi Fíh við SA en felur jafnframt í sér breytingar sem styrkja réttindi hjúkrunarfræðinga á almennum vinnumarkaði.
Réttur til fjarveru vegna veikinda barns nær nú einnig til barna á aldrinum þrettán til sextán ára í alvarlegum tilfellum sem leiða til sjúkrahúsinnlagnar.
Einnig var gerð breyting á ákvæðinum um laun, þannig að hjúkrunarfræðingur sem ekki fær að lágmarki þær launahækkanir sem kjarasamningur kveður á um á almennum vinnumarkaði á rétt á rökstuddu viðtali við vinnuveitanda. Viðtalið skal fara fram innan mánaðar.
Þá voru gerðar breytingar á reglum er varða orlofsréttindi. Hjúkrunarfræðingur sem hefur unnið í fimm ár í sömu starfsgrein á rétt á 25 virkum dögum í orlof. Hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað í fimm ár hjá sama atvinnurekanda á rétt á 27 virkum dögum í orlof. Ef viðkomandi hefur unnið í tíu ár hjá sama atvinnurekanda, hækkar rétturinn í 30 daga. Þá gildir einnig að hjúkrunarfræðingur sem hefur öðlast 30 daga orlofsrétt hjá fyrri atvinnurekanda öðlast þann rétt á ný eftir þriggja ára starf hjá nýjum atvinnurekanda, það byggir á þvi að rétturinn hafi verið staðfestur af fyrri atvinnurekanda
Frá 1. maí 2026 taka gildi frekari breytingar. Þá mun hjúkrunarfræðingur, sem hefur starfað í sex mánuði hjá sama fyrirtæki, eiga rétt á 25 dögum í orlof. Að loknum fimm árum í sömu starfsgrein hækkar rétturinn í 26 daga. Ef viðkomandi hefur annaðhvort starfað í fjögur ár hjá sama fyrirtæki eða tíu ár í sömu starfsgrein, á hann rétt á 28 dögum. Eftir sex ára starf hjá sama fyrirtæki hækkar orlofsrétturinn í 30 daga. Réttur sem hefur áunnist hjá fyrri atvinnurekanda endurnýjast eftir tveggja ára starf hjá nýjum atvinnurekanda, það byggir á þvi að rétturinn hafi verið staðfestur af fyrri atvinnurekanda.





