Fara á efnissvæði
Frétt

Kjarasamningur við SFV undirritaður

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skrifaði undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) 6. júní 2023. Atkvæðagreiðsla hefst fimmtudaginn 8. júní.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skrifaði undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) 6. júní 2023. Samningurinn tryggir launahækkanir og kjarabætur fyrir þá tæplega fjögur hundruð hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá SFV.

Um er að ræða skammtímasamning til 12 mánaða sem gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. Samningurinn felur í sér ákveðnar breytingar á vaktaálagi og vaktahvata auk verkáætlunar um þau atriði sem verða tekin til sérstakrar skoðunar á samningstímanum svo sem vinnutíma í dagvinnu og vaktavinnu, starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og fleira.

Samningurinn verður kynntur hjúkrunarfræðingum sem starfa hjá SFV á tveimur fundum á Teams, miðvikudaginn 7. júní kl. 12:30 og fimmtudaginn kl. 16:15. Allir hjúkrunarfræðingar sem starfa undir samningnum og eru á kjörskrá fá sendan tölvupóst með boði á fundina. Samningurinn og kynningarefni verður aðgengilegt á Mínum síðum.

Rafræn atkvæðagreiðsla fer fram á Mínum síðum og hefst fimmtudaginn 8. júní kl. 17 og stendur til kl.12 miðvikudaginn 14. júní.