Fara á efnissvæði
Frétt

Klukkan tifar

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh, í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna.

Í dag, 8. mars, er Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Dagurinn í dag er tilefni fyrir konur til að horfa um farinn veg og halda upp á afrek kvenna á öllum sviðum en hann er ekki síst tilefni fyrir alla til að huga að jafnréttismálum. Fáar stéttir vita jafn vel og hjúkrunarfræðingar í hvaða ógöngur kerfisbundið vanmat á kvennastörfum leiðir til.

Á yfirborðinu virðast flestir vera sammála um að á Íslandi á 21. öldinni eigi að ríkja jafnrétti en þegar farið er í atriðin eins og barnauppeldi, heimilisstörf og ábyrgð á veikum ættingjum þá kemur í ljós önnur dekkri mynd. Mynd sem afhjúpast að fullu þegar umræðan fer út í virði kvennastarfa á borð við hjúkrunarfræði þar sem 96% hjúkrunarfræðinga eru konur.

Það var uppörvandi að lesa grein forsætisráðherra í Morgunblaðinu í morgun. Þar kemur hún inn á skýrslu sem aðgerðarhópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins skilaði af sér í janúar, skýrsla sem allir sem tjá sig um launamál ættu að lesa. Í skýrslunni eru tillögur sem snúa að því að meta virði ólíkra starfa með markvissum hætti til að hægt verði að eyða kynbundnum launamun. Ég vona svo sannarlega að þessi vinna haldi áfram á réttri braut.

Það er sorgleg staðreynd að árið 2021 mældist óleiðréttur launamunur hér á landi 10%. Miðað við þetta, þá þýðir það fyrir konu sem er með 700.000 krónur í mánaðarlaun þá glatar hún 80.000 krónum á mánuði, 960.000 krónum á ári eða rúmlega 47 milljónum króna á starfsævi. Hér eru undanskilin áhrifin af lífeyrisgreiðslum og efnahagslegri stöðu kvenna á efri árum.

Þessi staða er ekki bara ósanngjörn heldur er vanmat á hefðbundnum kvennastörfum að leiða samfélagið í ógöngur. Klukkan tifar og á meðan hún gerir það er álag á heilbrigðisstofnunum að aukast, skorturinn á hjúkrunarfræðingum eykst og er þá öryggi skjólstæðinga tvímælalaust stefnt í hættu. Ísland má ekki fljóta áfram sofandi að feigðarósi.

Hádegisfundur í dag

Konum hefur tekist með ötulli baráttu að ná fram viðamiklum umbótum á samfélaginu, því er ég fullviss um að baráttan, bæði í samfélaginu og inni á heimilum, muni skila árangri fyrir samfélagið í heild.

Í tilefni dagsins býður Fíh ásamt ASÍ, BHM, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands og Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja á hádegisfund sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica og í streymi undir yfirskriftinni Hver ber ábyrgð? Af umönnunarbili, fæðingarorlofi og tekjutapi. Upptaka af fundinum verður svo aðgengileg að fundinum loknum.

Það verða mörg fróðleg erindi á fundinum. Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf, mun ræða um þróun fæðingarorlofs, reynsluna af því og framtíðarsýn. Maya Staub, sérfræðingur hjá Vörðu, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, mun ræða um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs barnafjölskyldna á Íslandi. Þá mun Halldóra Guðmundsdóttir, leikskólastjóri og varaformaður Félags stjórnenda leikskóla, einnig vera með erindi.

Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna!