- Leiðtoginn:
Hildur Elísabet Pétursdóttir
- Fæðingardagur:
4. ágúst 1971
- Stjörnumerki:
Ljón
- Menntun:
Hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1997. Diplómanám í hjúkrun hjarta- og lungnasjúklinga frá H.Í., 2008. Meistaragráða í hjúkrunarstjórnun frá H.Í., 2011 þar sem lokaverkefnið fjallaði um samþætta heilbrigðisog félagsþjónustu fyrir aldraða. Í vor kláraði ég svo diplómanám í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
- Fjölskylduhagir:
Gift Svavari Þór Guðmundssyni sem er framhaldsskólakennari hér á Ísafirði. Við Svavar eigum þrjá syni, þá Tómas Helga, Pétur Erni og Guðmund Arnar sem eru fæddir 1994, 2000 og 2002. Við eigum svo þrjú tengdabörn og eitt dásamlegt barnabarn, hann Benedikt litla.
Hvers vegna valdir þú að læra hjúkrunarfræði; var einhver lífreynsla eða fyrirmynd sem átti þátt í því vali?
Þegar ég var 16 ára langaði mig að breyta til með sumarvinnu, ég hafði unnið í frystihúsi og verslun eftir að ég var orðin of gömul til að vera í vist með börn. Ég ákvað að sækja um á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík sem var hjúkrunarheimili bæjarins, fékk vinnu þar og þá var ekki aftur snúið. Þarna hafði ég fundið mína hillu í lífinu og var harðákveðin upp frá því að læra hjúkrun. Mamma hefur oft talað um það í gegnum tíðina að hún skildi aldrei hvernig ég gat hugsað mér þetta starf og í nærfjölskyldunni var engin heilbrigðisstarfsmaður. Á Skýlinu kynntist ég mörgum góðum konum sem ólu mig upp í þessu fagi og sú sem var mér dýrmætust og mín mesta fyrirmynd í upphafi ferilsins var Anna heitin Björgmundsdóttir sjúkraliði. Hún kenndi mér margt og ég hef oft hugsað til hennar í gegnum tíðina.

Hvert lá leiðin eftir útskrift?
Eftir að ég vann fyrst á hjúkrunarheimilinu vann ég aldrei við neitt annað á sumrin, ég var á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík og svo á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Þegar líða fór á hjúkrunarfræðinámið fór hjartadeildin að heilla mig og síðustu tvö námsárin starfaði ég á hjartadeildinni á Borgarspítalanum með námi og á sumrin. Mér fannst alveg rosalega gaman að starfa þar en heimahagarnir toguðu í okkur.
Ég eignaðist elsta son okkar þegar ég var í B.S.-náminu og seinkaði útskrift um ár bæði vegna hans og einnig vegna þess að maðurinn minn var að læra í Frakklandi og við fórum þangað í nokkra mánuði. Ég er að vestan og maðurinn minn er frá Akureyri en við kynntumst í Menntaskólanum á Akureyri ung að árum. Heimahagarnir toguðu, eins og ég segi, mikið í okkur, við ætluðum að flytja norður en ákváðum að taka fyrst tvö ár á Ísafirði og hér erum við enn, fyrir utan eitt ár þegar eiginmaðurinn fór í framhaldsnám og við fluttum til Manchester með alla fjölskylduna. Þar vann ég á einkareknu hjúkrunarheimili sem var mjög áhugaverð og lærdómsrík upplifun.
Ég hóf störf á bráðadeildinni á Ísafirði haustið 1997 sem almennur hjúkrunarfræðingur og var aðstoðardeildarstjóri 2009–2016, fyrir utan árið sem ég bjó í Manchester. Ég tók svo við sem deildarstjóri á hjúkrunarheimilunum Bergi og Eyri árið 2016 og gegndi því starfi þar til ég tók við sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVest 1. janúar 2020.
Hvað er það mikilvægasta sem hefur áunnist á þessum árum síðan þú varðst framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða?
Óneitanlega kemur COVID-tíminn strax upp í hugann. Ég var ekki búin að vera lengi í starfi þegar faraldurinn dundi á okkur og fórum við ekki varhluta af því þar sem Berg var fyrsta hjúkrunarheimilið þar sem hópsýkingu kom upp. Starfsfólkið á allri stofnuninni gerði kraftaverk, samvinnan og eljusemin var engu lík. Við unnum eins og einn maður og það sem mér finnst standa eftir og einkenna stofnunina eftir þennan tíma er einstök samvinna starfsfólks, samvinna á milli deilda og milli starfsstöðva. Eftir þessa lífsreynslu skynja ég svo miklu meiri samkennd, deildarstjórar eru í mjög miklu samtali sín á milli og hjálpast mikið að, til dæmis varðandi mönnun. Starfsfólk er meðvitað um ástand á öðrum deildum og öðrum starfsstöðvum og eru boðnir og búnir að aðstoða og stökkva á milli. Liðsheildin og starfsandinn innan stofnunarinnar er einstakur. Í svona samfélögum eins og eru á Vestfjörðum er Heilbrigðisstofnunin einn af hornsteinunum og í raun forsenda byggðar að mörgu leyti, vil ég meina. Starfsfólkið gerir sér grein fyrir þessu og leggur sig fram af heilindum og umhyggju fyrir stofnuninni og samfélaginu. Það er ómetanlegt að starfa í slíku umhverfi og ég er full þakklætis fyrir þann mikla mannauð sem við búum að.
Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að hafa?
Í meistaranáminu mínu sat ég kúrs hjá Sigrúnu Gunnarsdóttur um þjónandi forystu. Ég fann margt í þeirri hugmyndafræði sem ég tengdi við mína sýn um leiðtoga. Mér finnst eitt af mínum stóru hlutverkum vera að styðja við stjórnendurna mína, hvetja starfsfólk til að eflast og þroskast í starfi og veita því stuðning í starfi. Leiðtogi þarf að hafa skýra sýn og það er mikilvægt að hópurinn hafi sameiginlega sýn og markmið og starfsumhverfið sé þannig að allir hafi verkfæri og tækifæri til að ná markmiðunum.
Heilindi og traust eru lykilatriði í fari leiðtoga sem þarf að vera góður hlustandi og hann þarf að geta miðlað upplýsingum skýrt.
Góður leiðtogi getur tekið gagnrýni og er viljugur að endurskoða mat sitt, læra af mistökum og aðlaga sig að breyttum aðstæðum.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í þínu starfi?
Mín helsta áskorun í starfi sem framkvæmdastjóri hjúkrunar er mönnun. Á svona lítilli stofnun getur mönnun verið mjög brothætt og hver starfsmaður skiptir mjög miklu máli. Þegar tveir hjúkrunarfræðingar sem starfa á sömu deild fara til dæmis í fæðingarorlof á sama tíma getur skapast mikil krísa. Á litlum sérhæfðum deildum eins og skurð-, svæfinga- eða fæðingardeild þarf að skipuleggja mönnun vel fram í tímann. Við höfum farið þá leið síðustu árin að aðstoða hjúkrunarfræðinga sem vilja fara í framhaldsnám með því að gera við þá samning. Þessi samningur felur í sér aðstoð meðan á námi stendur og skuldbindingu við stofnunina eftir að námi líkur. Þetta hefur gengið vel og við erum til að mynda að verða vel mönnuð af ljósmæðrum eftir að þetta var tekið upp.
Í starfi framkvæmdastjóra er maður oft í krísustjórnun dagsdaglega og forgangsröðun er daglegt brauð. Ég held að margir stjórnendur í íslenska heilbrigðiskerfinu tengi vel við að vera með mörg verkefni varðandi stefnumótun og breytingar í burðarliðnum og séu búnir að taka frá tíma í þá vinnu en svo fer dagurinn í að leysa brýn verkefni. Mér finnst margir dagar fara í það að reyna að halda skipinu á floti í stað þess að draga upp siglingarleið til einhverra ára.

Bjargráð í starfi?
Mín helsta gæfa í starfi er einstakt samstarfsfólk. Starfsandinn á HVest er ómetanlegur og ég finn svo vel að ég er ekki ein, hér erum við teymi og okkur þykir vænt um stofnunina og stefnum í sömu átt. Ég á afar gott samstarf við aðra í framkvæmdastjórn, millistjórnendur sem og almennt starfsfólk. Hér innanhúss býr mikil þekking og reynsla og hika ég ekki við að fá ráð og hugmyndir frá öðrum. Ég legg mikla áherslu á að skapa traust og góð tengsl við starfsfólkið mitt, ég reyni að vera jákvæð og lausnamiðuð og standa með mínu fólki.
Ertu meðvitað að vinna í því að efla leiðtogahæfileika þína til þess að verða betri yfirmaður?
Já, ég reyni það. Ég reyni að þroska mig sem manneskju og þá eiginleika sem hvetja, styðja og leiða aðra áfram. Ég hef verið dugleg að afla mér meiri þekkingar meðal annars til að verða betri leiðtogi. Ég er gagnrýnin á sjálfa mig og finnst mikilvægt að reyna að vera sífellt að bæta mig. Ég met mikils að fólk komi hreint fram við mig, sé heiðarlegt og láti vita ef því mislíkar eitthvað. Ég reyni að vera sýnileg á stofnuninni, vera góð fyrirmynd og legg mig fram um að þekkja flest starfsfólk með nafni og vil að það finni að það skipti máli.
Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast á næstu tíu árum?
Ég held að það séu spennandi tímar fram undan í hjúkrun og heilbrigðiskerfinu öllu. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur að horfa með opnum huga á framfarir hvað varðar stafrænar lausnir, gervigreind og fjarheilbrigðislausnir en auðvitað alltaf með gæði og öryggi starfsmanna og skjólstæðinga í fyrirrúmi. Hjá okkur hér á landsbyggðinni finnum við að fjarheilbrigðislausnir verða æ stærri hluti af okkar starfi og því er mikilvægt fyrir okkur að vera með opinn huga og hugmyndarík í því samhengi.
Í vaxandi mönnunarvanda tel ég einnig að við munum horfa í átt að „Task shifting“ eða tilfærslu verkefna milli heilbrigðisstétta og ná þannig hámarksgetu út úr hverri stétt.
Hvernig leysum við, eða minnkum, mönnunarvandann að þínu mati?
Stafrænar lausnir, gervigreindin og tilfærsla verkefna milli heilbrigðisstétta er ein leiðin til að minnka mönnunarvandann en ég held líka að það sé mikilvægt að skapa spennandi og fjölskylduvænt starfsumhverfi, jafnvægi milli vinnu og einkalífs og tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga til að þróast og vaxa í starfi. Svo má ekki gleyma því að laun hjúkrunarfræðinga verða að vera samkeppnishæf við laun annarra háskólastétta. Hjúkrun er gríðarlega skemmtilegt og gefandi starf og við þurfum að vera dugleg að halda því á lofti við hvert tækifæri.
Draumastarfið þitt ef þú ættir að skipta um starfsvettvang?
Ég hef aldrei séð eftir því að hafa farið í hjúkrun, tækifærin eru endalaus og mér leiðist aldrei í vinnunni. Ég fékk tækifæri til að spreyta mig sem forstjóri HVest í sex mánuði árið 2023-2024 þegar ég var settur forstjóri tímabundið sem var ómetanleg reynsla. En ég fann þá mjög glöggt að ég gat ekki farið svona langt frá hjúkruninni, mig langaði ekki að sækja um það starf á þeim tímapunkti. Ég á erfitt með að sjá mig gera eitthvað annað en eflaust væri það þá eitthvað tengt útiveru, fjöllum og náttúrunni, það væri spennandi að geta unnið við hjúkrun á veturna og verið skálavörður á fjöllum á sumrin.
Hvernig gengur þér að samræma vinnu og einkalíf?
Mér finnst afar mikilvægt að finna þetta jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og auðvitað koma tímar þar sem það hallar á einkalífið þegar krefjandi mál eru í vinnunni. En alla jafna gengur þetta vel. Ég er mikil félagsvera, elska að vera innan um vini og fjölskyldu, syngja í kórum, hreyfa mig í góðum félagsskap og fleira. Þetta nærir mig og gerir það að verkum að það er auðveldara að takast á við krefjandi verkefni í vinnunni ef þau koma upp.
Þarft þú sem yfirmaður að eyða miklum tíma á skrifstofunni eða hefur þú tíma líka til að sinna skjólstæðingum?
Ég er alveg einstaklega heppin því þegar ég sótti um starf framkvæmdastjóra hjúkrunar hér á HVest kom fram í starfslýsingu að klíník fælist í starfinu. Mér finnst það ómetanlegt að fá að bregða mér í hjúkkugallann einu sinni í viku og starfa á hjúkrunarheimilunum þar sem ég var deildarstjóri áður. Mér finnst mjög mikilvægt að halda mér við faglega og fá tækifæri til að næra klíníska „hjúkkuhjartað“. Viðfangsefni framkvæmdastjóra hjúkrunar eru fjölbreytt, skemmtileg og áhugaverð en einn dag í viku fæ ég að fara aftur í rótina og finna dýnamíkina sem leiddi mig í þetta starf.
Var COVID-tímabilið dýrmætur lærdómur eða lífsreynsla sem þurfti að vinna úr þegar faraldurinn var gengin yfir og lífið varð aftur „eðlilegt“?
Þegar ég lít til baka og hugsa um þetta tímabil sé ég hvað þetta var dýrmætur lærdómur; lífsreynsla sem mun fylgja mér út lífið. Á ákveðnum tímapunkti þegar 90% af starfsfólki og heimilisfólki á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lá smitað, það var aftakaveður og óvissan mikil, því við vissum ekki hvað myndi gerast næst, fannst mér ég vera stödd í fjórða þætti af sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð. Áhyggjurnar voru miklar og það var lítið sofið. Í dag þegar ég lít yfir farinn veg er ég gríðarlega þakklát fyrir að ekki fór verr og horfi sátt yfir þennan erfiða en lærdómsríka tíma.

Áhugamál utan vinnutíma, hvernig hlúir þú að þér og þínum?
Ég á mörg áhugamál og er dugleg að sinna þeim. Mér finnst dásamlegt að hreyfa mig úti í náttúrunni, skíða, hlaupa, hjóla eða ganga upp um fjöll og firnindi. Það gefur mér orku, kraft og andlega næringu. Ég er líka mikil handavinnumanneskja og svo syng ég með tveimur kórum sem mér finnst mjög gaman. Þetta er svo auðvitað allt best í góðra vina hópi eða með fjölskyldunni. Ég verð líka að nefna nýjasta og skemmtilegasta áhugamálið því ég varð amma í fyrsta sinn núna í sumar og það er náttúrlega toppurinn á tilverunni.
Að lokum, þar sem þetta er jólablað, hvað er það besta við aðventuna og jólin?
Börnin eru annaðhvort farin að heiman eða eru í burtu í skóla yfir vetrartímann og aðventan því oft notuð sem undirbúningur fyrir að fá alla heim, baka skinkuhorn, mömmukökur, lagkökur og svo geri ég árlega sörur með vinkonu minni sem er yndislegt. Við hjónin syngjum bæði í kórum og aðventan er annasamur tími, það eru tónleikar og aðventukvöld en það er einmitt það sem gerir þennan tíma svo hátíðlegan.
Ég elska að jólaskreyta heimilið í hólf og gólf og á í ástar-/haturssambandi við risastóra jólatréð sem við fjölskyldan förum og veljum á hverju ári hérna í skóginum. Þuríður vinkona mín hlær að mér á hverju ári þegar ég segi að þetta hljóti nú að vera minna en í fyrra en alltaf skal það ná upp í loft í stofunni þar sem lofthæðin er um þrír og hálfur metri.
Toppurinn á jólunum er svo þegar allir skila sér heim í hús fyrir jólin, þá líður mér best, umvafin öllu fólkinu mínu.





