Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Kristín Svava Tómasdóttir

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Kristín Svava Tómasdóttir, höfundur bókarinnar Farsótt - Hundrað ár í Þingholtsstræti 25.

Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur og ljóðskáld, er höfundur bókarinnar Farsótt - Hundrað ár í Þingholtsstræti 25.

Húsið á horni Þingholtsstrætis og Spítalastígs var byggt árið 1884 sem fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga. Síðar var það gert að farsóttaspítala og geðsjúkrahúsi og seinast að gistiskýli fyrir heimilislausa. Bókin er saga heilbrigðis, sjúkdóma og velferðarkerfis en ekki síst saga af fólki. Við spurðum Kristínu Svövu út í viðfangsefni bókarinnar og hlutverk hjúkrunarfræðinga í árdaga heilbrigðiskerfisins á Íslandi.

Reykjavík var aðeins smábær þegar sjúkrahúsið opnar, síðustu tveir áratugir 19. aldar voru miklir gerjunartímar. „Það er hafinn straumur af fólki úr sveitunum í þéttbýlið, það er að losna um gamla sveitarsamfélagið, vistarbandið, nútímasamfélagið er að fæðast ekki síst í Reykjavík,“ segir Kristín Svava. Á sama tíma aukast umsvif ríkisvaldsins og stéttir heilbrigðisstarfsmanna verða til. „Framan af eru engar menntaðar hjúkrunarkonur á Íslandi og framan af engir spítalar, þeir koma ekki til sögunnar fyrr en á seinni helming nítjándu aldar. Meirihlutinn af þeim konum sem eru ráðnar sem spítalaráðskonur á Sjúkrahús Reykjavíkur voru ljósmæður, eina heilbrigðismenntaða kvennastéttin.“

Voru þá ráðnar inn vinnukonur sem sinntu sjúklingum. „Það er alveg undir lok þessa sjúkrahúss að það kemur fyrsti vísir hjúkrunarfræðistéttar á Íslandi, upphafið er yfirleitt tengt við Holdsveikraspítalann í Laugarnesi sem var stofnaður 1898,“ segir hún. Íslensk stjórnvöld voru treg að koma að borðinu og voru það danskir Oddfellowar sem gáfu peninga í spítalann með því skilyrði að það væru bara faglærðir hjúkrunarfræðingar sem ynnu þar. „Þó að þessi þróun sé helst tengd Holdsveikraspítalanum þá komst ég það því að þræðir voru milli. Önnur þeirra sem fór út til Danmerkur að læra hjúkrunarfræði hafði áður verið vinnukona á Sjúkrahúsinu í Reykavík og væntanlega þar kynnst hjúkrun.“

Árið 1902 opnar svo Landakot og Franski spítalinn við Lindargötu, þá lokaði Sjúkrahúsið í Reykjavík við Þingholtsstræti. Húsinu var breytt í íbúðarhús að hluta en áfram notað undir kennslu fyrir lækna og ljósmæður. Árið 1920 var húsinu svo breytt í Farsóttarhús. Margt starfsfólk átti heima í húsinu, þar á meðal María Maack hjúkrunarkona sem þar í yfir 50 ár. „María var stór karakter. Það er mikið starf að reka spítala áratugum saman, svo var hún líka í endalausri félagastarfsemi, hún var í pólitík og varð landsþekkt fyrir óbyggðaferðir sínar,“ segir Kristín Svava.