Fara á efnissvæði
Frétt

Lítum út fyrir landsteinana

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh, að lokinni ráðstefnu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga í Montreal.

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Nú eru fjölmargir hjúkrunarfræðingar komnir í sumarfrí – sem betur fer, enda sumarið í hámarki. Þetta er tíminn til að kúpla sig alfarið úr vinnu og njóta veðurblíðunnar með ykkar nánustu.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að taka þátt í fjögurra daga ráðstefnu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) í Montreal nú í byrjun júlímánaðar. Þessi ráðstefna var í kjölfar heimsfundar hjúkrunarfélaga og er ein sú stærsta í heiminum sinnar tegundar. Í dag eru um 28 milljónir hjúkrunarfræðinga dreifðir um allan hnöttinn. Þetta er fyrsta ráðstefna ICN eftir Covid-19 heimsfaraldurinn og var því mikið rætt um hvað við lærðum af faraldrinum ásamt því hvað hægt er að gera til að bæta starfsaðstæður, bæta kjör, nýta þekkingu og færni hjúkrunarfræðinga til fulls og tryggja að rödd hjúkrunarfræðinga heyrist í efsta lagi stjórnsýslunnar og á hana sé hlustað.

Hér á landi er ýmislegt í kortunum þó það gangi alltaf hægar en maður myndi óska. Á næsta ári fáum við niðurstöður verkefnahóps heilbrigðisráðherra um mönnunarviðmið á legudeildum Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala, það er góð byrjun. Kjara- og réttindasvið Fíh á nú í samtali við einstaka stofnanir um endurskoðun stofnanasamninga, einnig eru í gangi samtöl við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga um endurskoðun starfa í starfsmati. Í haust verður haldin kjararáðstefna, líkt og í fyrra munu allir trúnaðarmenn hjúkrunarfræðinga koma saman og leggja drög að kröfugerð fyrir kjarasamninga sem losna á næsta ári.

Heilbrigði þjóðar í huga

Vandamálin sem við hjúkrunarfræðingar á Íslandi stöndum frammi fyrir eiga sér yfirleitt hliðstæður í öðrum löndum og því hollt að líta út fyrir landsteinana. Það sem af er þessu ári hafa þrjú ríki í Bandaríkjunum komið á mönnunarviðmiðum, eru nú alls sextán ríki komin með mönnunarviðmið í ýmsum útfærslum. Það eru þó ekki allir sáttir og hafa komið fram raddir sem segja að mönnunarviðmið sé ekki lausn sem horfa skuli til, það er alveg fyrirséð að slíkar raddir dúkki upp á Íslandi og því verðum við að vera tilbúin að benda á rannsóknir, þá sérstaklega frá Lindu Aiken, sem sýna fram á að um leið og hjúkrunarfræðingar vita að þeir verði á fullmannaðri vakt þá leita þeir síður í önnur störf.

Á ráðstefnunni fékk ég að sjá og heyra í stjórnmálamanni sem náði þessu, ef svo má að orði komast. Þeger kemur að heilbrigðismálum virðist Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, vita hvað skiptir máli. Trudeau endurvakti embætti yfirhjúkrunarfræðings (e. Chief nursing officer) í efsta lagi stjórnsýslunnar og telur hann nauðsynlegt að rödd hjúkrunarfræðinga heyrist þar. Þeir verði að koma að borðinu við ákvarðanatökur er varða heilbrigðisþjónustu, þannig að ákvarðanir séu teknar í þágu skjólstæðinga og til að bæta heilbrigðiskerfið. Sagði hann að skipun Dr. Leigh Chapman í embættið hefði skipt sköpum þegar komi að áætlanagerð til framtíðar um veitta heilbrigðisþjónustu og hvernig nýta megi þekkingu hjúkrunarfræðinga betur á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Hér hefur forsætisráðherra þessa stóra lands hlustað á margendurtekin tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), með heilbrigði sinnar þjóðar í huga.

Sjáumst á Hjúkrun 2023

Vegna sumarleyfa starfsfólks lokar skrifstofa félagsins föstudaginn 14. júlí en opnar aftur þriðjudaginn 8. ágúst. Það verður margt um að vera á vettvangi félagsins í haust, þar ber helst að nefna vísindaráðstefnuna Hjúkrun 2023 sem félagið heldur í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hjúkrun 2023 verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica dagana 28. og 29. september. Búið er að tilkynna um þrjá spennandi aðalfyrirlesara og er dagskráin við það að líta dagsins ljós.

Ég hlakka mjög til að hitta ykkur á Hjúkrun 2023 í haust og vona að þið njótið sumarsins sem allra best.