Fara á efnissvæði
Frétt

Margrét hlaut hvatningarstyrk

Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur stóð eins og klettur í covid faraldrinum. Þar kom lausnarmiðuð hugsun hennar skýrt fram við sköpun verkferla og stýringu á blöndun og gjöf bóluefnis. Hún meðal þeirra sem hlaut hvatningarstyrk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í ár.

Margrét er hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins síðustu ár. Þar hefur hún verið mikill leiðtogi og frumkvöðull. Margrét þekkir ekki vandamál – bara lausnir og kom það berlega í ljós þegar hún stóð eins og klettur í covid faraldrinum. Þar kom lausnarmiðuð hugsun hennar skýrt fram við sköpun verkferla og stýringu á blöndun og gjöf bóluefnis. Margrét tók við sem fagstjóri hjúkrunar í nýstofnaðri Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar og skarar þar fram úr í nýsköpun varðandi nýtingu gervigreindar og forritunar. Hún hefur verið leiðandi í þróun Veru sem er spjallmenni, í því miði að draga úr álagi á heilsugæslustöðvar og beina réttum spurningum, tímanlega til hjúkrunafræðinga og annarra fagmanna með hag og öryggi skólstæðinga að leiðarljósi.

Fimm hjúkrunarfræðingar, þar á meðal Margrét, hlutu hvatningarstyrk á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2023 sem haldinn var í Hörpu.

Frá afhendingu hvatningarstyrkja Fíh í Hörpu.

Markmið hvatningarstyrkja er að styðja við hjúkrunarfræðinga sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr á sínu sviði. Viðurkenningin byggir á gildum Fíh, ábyrgð, áræðni, árangur og horft skal til þátta sem lúta að klínískri færni, stjórnun, kennslu, rannsóknum og nýsköpun í hjúkrun.

Styrknum er ætlað að styðja hjúkrunarfræðinga til að afla sér frekari þekkingar og/eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar sín verkefni sem tengjast hjúkrun og þeir eru í forsvari fyrir eða leiða. Þessir hvatningarstyrkir eru veittir einstaklingum en ekki fyrir verkefni eða rannsóknir sem eru fjármagnaðar að fullu eða hluta annarstaðar.