Fara á efnissvæði
Frétt

Mér fannst ég verða aftur ég sjálf - Reynsla kvenna af notkun hormónauppbótar meðferðar á breytingaskeiði

Ritrýnd grein, eigindleg fyrirbærafræðileg rannsókn. Birt í 2. tbl Tímarits hjúkrunarfræðinga 2024. doi: 10.33112/th.100.2.1

Höfundar

Íris Dröfn Björnsdóttir. Hjúkrunarfræðingur, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Sigfríður Inga Karlsdóttir. Prófessor við Háskólann á Akureyri.

Sólrún Ólína Sigurðardóttir. Hjúkrunarfræðingur, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Inngangur

Náttúruleg tíðahvörf eru skilgreind sem varanleg stöðvun tíða eftir 12 mánaða tíðateppu án annarra meinafræðilegra eða lífeðlisfræðilegra orsaka (La Rosa o.fl., 2019). Talað er um þrjú stig breytingaskeiðs: Breytingaskeið, tíðahvörf og eftirtíðahvörf. Breytingaskeið er tímabil frá fyrstu einkennum að tíðahvörfum sem getur hafist allt að 10 árum áður en tíðahvörf eiga sér stað. Á þessu skeiði getur konan upplifað ýmis líkamleg og andleg einkenni. Tíðahvörf eru greind þegar tólf mánuðir eru liðnir frá síðustu blæðingum (Verdonk o.fl., 2022). Skeiðið eftirtíðahvörf tekur síðan við sem er skilgreint sem „allt æviskeið konunnar eftir að tíðahvörf eru að fullu komin fram“ ( CEMCOR, ed.). Meðalaldur kvenna sem fara í tíðahvörf er 51 ár. Þegar kona er í kringum 45 ára þá lækka kvenhormón í líkama hennar og þessi lækkun getur leitt til aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta getur leitt til þess að helmingur kvenna þrói með sér háþrýsting en einnig aukast líkur á hækkun á kólesteróli, aukningu á líkamsþyngd og þróunar á sykursýki tegund 2 (Verdonk o.fl., 2022).

Tíðahvörf kvenna marka varanleg lok tíðablæðinga og einkenni geta jafnvel aukist. En einkennin eru t.d. hitakóf, liðverkir, skapsveiflur, svefntruflanir, minnistap, þurrkur í leggöngum, rýrnun í slímhúð legganga og þyngdaraukning (Jayasena o.fl., 2019; Samarasiri o.fl., 2017; Vaccaro o.fl., 2021). Talið er að 60-80% kvenna í Bandaríkjunum upplifi hitaog svitakóf á breytingaskeiði eða tíðahvörfum og finna 32-46% kvenna fyrir miðlungs eða alvarlegum einkennum. Miðgildið í árum hjá konum sem upplifa hita- og svitakóf er 7,4 ár (Shiozawa, 2023). Í rannsókn Yisma et al. (2017) þar sem tíðni ýmissa tíðahvarfaeinkenna voru skoðum meðal kvenna á aldrinum 30-49 ára kom fram að algengustu einkenni tíðahvarfaeinkenna voru; hitakóf (65,9%), erfiðleikar við að sofna (46,6%), þunglyndiseinkenni (46,0%) pirringur (45,1%) og kvíði (39,8%).

Á eftirtíðahvörfum stuðlar lækkandi magn hormóna að aukinni hættu á vöðvarýrnun, þunglyndi, beinþynningu, aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og illkynja sjúkdómum (La Rosa o.fl., 2019). Eftir tíðahvörf kvenna aukast líkur á mjaðmagrindarbroti og þvagleka. Sumar konur upplifa einnig minnkaða kynhvöt og minni tíðni kynferðislegra hugsana á breytingaskeiðinu og eftir tíðahvörf (Jayasena o.fl., 2019). Þessi einkenni geta haft mikil áhrif á daglegt líf kvenna og geta leitt að lokum til verri lífsgæða (Samarasiri o.fl., 2017). Lífslíkur kvenna hafa aukist talsvert síðustu áratugi og í dag má búast við að 50% kvenna muni ná 90 ára aldri árið 2030 (Lambrinoudaki o.fl., 2022). Niðurstöður Moser og félaga (2020) sýndu að konur sem eru með einkenni breytingaskeiðs eru marktækt líklegri til þess að upplifa þunglyndi, kvíða og svefnleysi.

Mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi um breytingaskeiðið og tíðahvörf og engar tölulegar upplýsingar eru fáanlegar um tíðni einkenna eða hormónauppbótarmeðferðar meðal kvenna. Í rannsókn Ásthildar Björnsdóttur (2017) á reynslu kvenna á breytingaskeiði, kom fram að þær fundu fyrir breytingum á líkamlegri og andlegri líðan. Einnig fundu þær minni kynlöngun og sögðu að stuðningur maka skipti miklu máli fyrir þær meðan þær gengu í gegnum breytingaskeið. Þau bjargráð sem þær nýttu sér til að takast á við breytingaskeiðið var aukin hreyfing, hollara mataræði ásamt náttúru- eða hormónalyfjum. Niðurstöður í rannsókninni sýndu einnig að þær töldu að fræðslu væri ábótavant bæði til heilbrigðisstarfsmanna og til kvenna sjálfra. Konur eru oft illa undirbúnar undir breytingaskeiðið og kom það fram í rannsókn Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020). Upplifun kvenna í rannsókn hennar var einnig svefnleysi, skortur á kynlöngun og þurrkur í leggöngum sem skerti lífsgæði þeirra. Snemmkomið breytingaskeið hefur lítið verið til umfjöllunar hér á landi og í rannsókn Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018) kom fram að erfitt var fyrir konur að ganga í gegnum snemmkomið breytingaskeið og hefðu þær viljað fá meiri hlustun og skilning meðal fagfólks. Ekki eru til nýlegar rannsóknir um reynslu kvenna af hormónauppbótarmeðferð og sýndi rannsókn Herdísar Sveinsdóttur (2005) að konur höfðu jákvætt viðhorf til hormóna á breytingaskeiði og þær sem fengu upplýsingar frá læknum voru jákvæðari en þær sem fengu upplýsingar frá vinum og ættingjum. Jákvæð viðhorf til hormóna tengdust auknum aldri, tíma frá síðustu tíðablæðingum og núverandi notkun á hormónauppbótarmeðferð.

Í dag er hormónauppbótarmeðferð í tengslum við breytingaskeið árangursríkasti meðferðarmöguleikinn til meðhöndlunar við líkamlegri og andlegri vanlíðan (Flores o.fl., 51 2021; Lambrinoudaki o.fl., 2022). Þegar velja á hormónauppbótarmeðferð við einkennum breytingaskeiðs þá er mikilvægt að skoða ýmsa þætti, til dæmis aldur, hvenær tíðahvörf hófust og tegund hormónauppbótarmeðferðar, skammta og lyfjaform. Hormónauppbótarmeðferð er talin vera örugg og árangursrík meðferð gagnvart einkennum breytingaskeiðs hjá heilbrigðum konum sem eru yngri en 60 ára eða styttra en tíu ár liðin frá greiningu tíðahvarfa. Rannsóknir benda til að hormónauppbótarmeðferð hafi jákvæð áhrif á beinþéttni, hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki tegund 2 (Flores o.fl., 2021). Vaccaro og félagar (2021) framkvæmdu rannsókn sem fjallaði um hvernig ítalskar konur upplifðu breytingaskeiðið og kom þar fram að 51,9% þátttakenda þekktu hormónauppbótarmeðferð og jókst þekking hjá þátttakendum sem voru með lengri skólagöngu og með auknum aldri. Meðal þeirra kvenna sem voru komnar í eftirtíðahvörf sögðust 7,6% nota hormónauppbótarmeðferð en 6,5% sögðust nota smáskammtalyf og/eða plöntuhormón. Af þeim sem voru á meðferð þá var meirihlutinn á náttúrulyfjum. Meirihluti kvenna (um 70%) greindi frá líkamlegum og andlegum ávinningi við einhvers konar meðferð á breytingaskeiði en 68% töldu hins vegar ekki nauðsynlegt að nota lyf því þeirra skoðun var að tíðahvörf væru lífeðlisfræðilegt ástand.

Kynhormón kvenna eru estrógen, prógesterón og testósterón og á breytingaskeiði minnkar framleiðsla þessara hormóna (La Rosa o.fl., 2019). Skortur á estrógeni hjá konum getur valdið náms- og minnisskerðingu, svefn- og geðröskunum, hitakófum og aukið hættu á hjarta- og æðasjúkdómum (Moran o.fl., 2021). Meta þarf hættu á krabbameini, hjarta- og æðasjúkdómum og blóðtappa áður en hormónauppbótarmeðferð er hafin (Gosset o.fl., 2021). Estrógen um húð er talið vera öruggasta lyfjaformið í hormónauppbótarmeðferð á breytingaskeiði með engri hættu á blóðtappamyndun (Donohoe o.fl., 2022; LaVasseur o.fl., 2022). Því ætti hormónauppbótarmeðferð um húð með estrógeni að vera æskileg fyrir konur eftir tíðahvörf sem eru með áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma eða sem lifa með offitu. Til að meðhöndla vandamál í kyn- og þvagfærum kvenna eftir tíðahvörf, eins og þurrk í leggöngum og tíðar þvagfærasýkingar, hafa rannsóknir sýnt að estrógen sem gefið er staðbundið í leggöng sé áhrifaríkasta meðferðin (Flores o.fl., 2021).

Flestar hormónauppbótarmeðferðir á breytingaskeiði fela í sér estrógen og prógesterón. Þær konur sem hafa farið í legnám geta verið eingöngu á estrógeni. Prógesterón meðferð er aðallega notuð hjá konum sem eru á estrógeni til að draga úr hættu á legslímukrabbameini því estrógen meðferð þykkir legslímhúðina (LaVasseur o.fl., 2022; Mehta o.fl., 2021). Ef þörf er á prógesterón þá eru rannsóknir sem benda til að míkrómalað prógesterón valdi minni aukaverkunum þegar kemur að hættu á bláæðablóðtappa en eldri gerðir prógesteróns (Donohoe o.fl., 2022). Prógesterón getur haft róandi áhrif og bætir svefn (Mehta o.fl., 2021; Minkin, 2019). Konur hafa notað testósterón í yfir 80 ár til meðhöndlunar á breytingaskeiði og eftir tíðahvörfin (Donovitz, 2022). Hjá konum er lífeðlisfræðilegri virkni testósteróns talin fela í sér stjórnun á kynhvöt og kynferðislegri örvun (Glaser, 2011). Til skamms tíma er meðferð með testósteróni almennt vel þolanleg (Jayasena o.fl., 2019). Vísbendingar gefa til kynna að testósterón geti verið verndandi þáttur gegn brjóstakrabbameini og beinþéttni konunnar (Donovitz, 2022). Í rannsókn Glaser o.fl. (2019) kom fram eftir að konum hafði verið fylgt eftir í tíu ár að meðferð með testósteróni tengdist 39% lægri tíðni brjóstakrabbameins en spáð var af Surveillance Epidemiologic End Result sem er stofnun sem heldur utan um fjölda tilfella af krabbameini í Bandaríkjunum (Healthy People 2030, ed). Tilviljanakenndar samanburðarrannsóknir sem bera saman testósterón meðferð hjá konum við lyfleysu hafa ekki sýnt fram á marktækan mun á tilviki tíðni fyrir hvers kyns afleiðingar hjarta- og æðasjúkdóma, þar með talið bláæðablóðtappa (Jayasena o.fl., 2019). Aukinn áhugi er á hlutverki testósteróns meðferðar á kyndeyfð kvenna eftir tíðahvörf. Í samanburðarrannsókn Islam og félaga (2019) kom í ljós marktækur munur á notkun testósteróns varðandi fjölda ánægjustunda í kynlífi, á kynlöngun, kynörvun, fullnægingu, ánægju og bætta sjálfsmynd þegar borið var saman við töku lyfleysu. Bandaríska matvælalyfjaeftirlitið FDA hefur ekki samþykkt að nota testósterón vegna minnkaðrar kynlöngunar hjá konum þó að rannsóknir hafi sýnt fram á jákvæð áhrif (Uloko o.fl, 2022). En þess ber að geta að verulegur skortur er á langtímarannsóknum sem meta áhrif hormónauppbótarmeðferðar á heilsu og líðan kvenna í heiminum.

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á reynslu kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði. Í rannsókn Dotlic og félaga (2020) kom fram að konur sem höfðu nýtt sér hormónauppbótarmeðferð í 44 mánuði fundu fyrir betri lífsgæðum, bæði líkamlegum og andlegum. Einnig sýndi rannsókn Wium-Andersen og félaga (2022) fram á ef hormónauppbótarmeðferð var hafin fyrir 50 ára aldur var tvöfalt meiri hætta á greiningu þunglyndis en líkurnar minnkuðu ef hormónauppbótarmeðferð var hafin eftir 54 ára aldur. Staðbundin hormónauppbótarmeðferð tengdist ekki aukinni áhættu á þunglyndi óháð aldri.

Markmið þessarar rannsóknar var að afla aukinnar þekkingar á reynslu kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði. Rannsóknarspurningin er: Hver er reynsla kvenna af notkun hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði.

Aðferð

Til að svara rannsóknarspurningunni var valin eigindleg rannsóknaraðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði þar sem horft var á upplifun einstaklingsins af reynslu hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði. Hugmyndafræði fyrirbærafræði sem rannsóknaraðferð felst í að skilja einstaklinginn, reynslu hans og sjá lífið eins og hann sér það. Rannsóknarferlið í Vancouver-skólanum er ákveðið ferli sem byggist á sjö meginþáttum (Sjá mynd 1) (Sigríður Halldórsdóttir, 2021).

Mynd 1. Vitrænn vinnuferill Vancouver-skólans í fyrirbærafræði.

Þátttakendur

Notast var við tilgangsúrtak við val á þátttakendum og er helsti kostur þessarar úrtaksaðferðar að hún er einföld í notkun en ókostur er að ekki er hægt að segja hvort úrtakið sé dæmigert fyrir hópinn og því erfitt að yfirfæra niðurstöður yfir á allt þýðið (Hjördís Sigursteinsdóttir, 2021). Auglýst var eftir þátttakendum á Facebook-hóp sem kallast Breytingaskeiðið. Tuttugu og fimm þátttakendur buðu sig fram og fyrstu 12 sem höfðu samband og uppfylltu skilyrði fyrir þátttöku voru valdir í úrtakið. Skilyrði fyrir þátttöku var að konur væru komnar á breytingaskeiðið og hefðu verið á hormónum í 3-24 mánuði. Þátttakendur urðu að vera á aldrinum 45-55 ára.

Gagnasöfnun og greining gagna

Gagnasöfnun og gagnagreining fór fram samhliða en það var gert samkvæmt Vancouver-skóla aðferðinni. Rannsóknargögnum var safnað með því að nota hálfstaðlaðan viðtalsramma og í viðtölunum var reynt að ná ákveðinni dýpt í samræður um viðfangsefnið. Viðtalsramminn samanstóð af átta opnum spurningum. Upphafsspurning viðtalsins var; fannst þú fyrir einhverjum líkamlegum einkennum sem þú upplifðir í tengslum við breytingaskeiðið áður en þú byrjaðir að taka hormón og getur þú sagt mér frá þeim einkennum? Síðar var spurt um hvort konurnar hefðu fundið fyrir, annars vegar breytingu á líkamlegri líðan og hins vegar á andlegri líðan eftir að þær hófu inntöku hormóna. Einn höfundur tók öll viðtölin, en allir höfundar komu að gagnagreiningu. Virkri hlustun var beitt í viðtölum sem þýðir að reynt var að skilja bæði tilfinningar og það sem viðmælandinn segir. Borin var virðing fyrir hverjum og einum þátttakanda og reynt að mynda gott traust milli viðmælenda og rannsakanda. Rannsakandi sýndi heiðarleika og einlægni sem er mikilvægur þáttur í viðtölum eigindlegra rannsókna (Helga Jónsdóttir, 2021).

Gagnagreining var gerð samkvæmt tólf þrepum Vancouver-skólans (Tafla 1). Í byrjun var tekið eitt einstaklingsviðtal við hvern þátttakanda, samtals 12 viðtöl. Viðtölin voru tekin á tveggja mánaða tímabili. Hvert viðtal tók 34–68 mínútur. Viðtölin voru skrifuð upp orðrétt og þess gætt að ekki væri hægt að persónugreina þau og var nöfnum þátttakenda breytt ásamt ýmsum staðháttum. Þátttakendur fengu að ráða hvar viðtöl færu fram. Þrír þátttakendur völdu stað sem rannsakandinn bauð upp á, þrjú viðtöl fóru fram á heimilum þátttakenda og sjö viðtöl voru tekin með myndsamtali. Viðtöl með aðstoð tölvutækninnar hafa notið vaxandi vinsælda undanfarið. Kostir tölvustuddra viðtala er að rannsakandinn og þátttakandinn geta verið í gagnvirkum samskiptum óháð staðsetningu, þarf af leiðandi getur þátttakandinn búið hvar sem er á landinu eða í öðru landi. Rannsakandinn getur einnig greint svipbrigði þátttakandans í gegnum myndsamtalið (Helga Jónsdóttir, 2021). Til viðbótar var tekið eitt viðtal símleiðis við ellefu þátttakendur þar sem meginþemu og undirþemu viðtals voru útskýrð og heildargreiningarlíkan borið undir þátttakendur.

Réttmæti og áreiðanleiki

Til að auka trúverðugleika rannsóknar var öllum þrepum Vancouver-skólans fylgt eftir. Rannsakandi hélt rannsóknardagbók og ígrundaði hvert viðtal. Rannsóknargögn voru aftur lesin eftir mótun heildargreiningarlíkans og var haft samband við ellefu þátttakendur til staðfestingar á réttri túlkun rannsakanda. Í niðurstöðum var vitnað beint í þátttakendur til að auka innra réttmæti rannsóknar.

Rannsóknarsiðfræði

Vísindasiðanefnd staðfesti símleiðis að ekki þyrfti leyfi hennar fyrir rannsókninni. Þátttakendur tilheyra ekki viðkvæmum hópi og taldi rannsakandi ekki líkur á að þessi rannsókn myndi valda þátttakendum vanlíðan og engin áhætta var fólgin í þátttöku. Rannsakandi tryggði siðferðilega hagsmuni þátttakenda með því að afhenda þátttakendum kynningarbréf með kynningu á rannsóknarefni, tilgangi rannsóknar og hvernig niðurstöður yrðu birtar. Þátttakendur skrifuðu einnig undir upplýst samþykki.

Niðurstöður

Þátttakendur voru samtals tólf konur á aldrinum 45-53 ára sem höfðu verið á hormónauppbótarmeðferð í 3-24 mánuði. Yfirþema rannsóknarinnar Mér fannst ég verða aftur ég sjálf lýsir reynslu þátttakenda af þeim breytingum sem urðu á líðan þeirra eftir að þær byrjuðu að taka inn hormóna. Þátttakendur í rannsókn áttu það sameiginlegt að upplifa, að eftir að þær byrjuðu á hormónauppbótarmeðferð endurheimtu þær það líf sem þær áttu áður. Bára sagði til dæmis: „Ég bara finn það að ég er búin að endurheimta gömlu mig … Ég er orðin ég sjálf aftur. Manneskja sem þú veist að gat gert alveg fullt af hlutum.“

Alls voru greind sex meginþemu: Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann; Það kviknaði aftur á mér; Félagslegu tengslin byggð upp; Eftirsjá að tímanum sem ég missti; Virk hlustun og samskipti og Þetta þroskar mann. Að lokum voru greind nokkur undirþemu undir hverju meginþema, mynd 2.

Mynd 2. Heildargreiningarlíkan.

Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann

Fyrsta meginþemað nefnist Líkaminn varð aftur eins og ég þekkti hann og eru greind fjögur undirþemu: Liða- og vöðvaverkir hurfu, Hvíldist loksins á næturnar, Dásamlegt að stunda kynlíf aftur og Hafði loksins orku í lífið.

Fyrsta undirþemað Liða- og vöðvaverkir hurfu lýsir þeirri breytingu sem þátttakendur upplifðu að hafa endurheimt sinn líkama. Þátttakendur héldu að þeir væru komnir með gigt og áttu erfitt með standa upp úr stól eða sófa. Hanna lýsti líkamlegri líðan fyrir töku hormóna: „Ég var með rosalega liðaverki og stirðleika. Einkenni sem ég hafði aldrei verið með. En eftir inntöku hormóna þá hættu þessi einkenni.“

Annað undirþema ber yfirskriftina Hvíldist loksins á næturnar. Flestir þátttakendur áttu það sameiginlegt að leita sér aðstoðar hjá heimilislækni eða kvensjúkdómalækni vegna svefnvandamála. Þær áttu það sameiginlegt að vakna upp á nóttunni eða vöknuðu of snemma og gátu ekki sofnað aftur. Eftir hormónatöku þá breyttist svefninn til hins betra hjá þeim öllum. Ingunn sagði: „Það var bara strax þvílíkur munur. Þegar ég var búin að taka þetta í tvo daga þá fór bara svefninn að skána um leið.“

Þriðja undirþema nefnist Dásamlegt að stunda kynlíf aftur. Í viðtölum kom fram hjá næstum öllum þátttakendum að þær upplifðu skerta kynlöngun fyrir töku hormóna. Þátttakendur töluðu um tíðar þvagfærasýkingar, sveppasýkingar, þurrk og sprungur í leggöngum fyrir töku hormóna. Helga lýsti vel hvernig kynlífslöngun hjá henni var fyrir töku hormóna: „Svo bara engin kynlöngun. Hefði verið til í að gera margt annað heldur en að stunda kynlíf. Bara fara út og grafa skurð.“ Aðrar ræddu um að skortur á kynlöngun leiddi til að makinn tók því sem höfnun sem leiddi til samviskubits konunnar. Þátttakendur töluðu um mikilvægi þess að hafa opna umræðu um breytingaskeið og kynlíf í sambandinu því það leiði til aukins skilnings maka. En eftir töku hormóna þegar vandamál tengt kynfærum var ekki lengur til staðar og þeim fór að líða betur líkamlega og andlega þá jókst kynlöngun. Hanna sagði: „Ég fór að fá meiri kynhvöt þegar ég byrjaði á estrógelinu.“

Hafði loksins orku í lífið nefnist fjórða undirþema. Í þessu þema er lýst hvernig þátttakendur höfðu loksins aukna orku og fundu fyrir þörf að hreyfa sig og gera það sem þeim þótti skemmtilegt.

„Mér finnst þessir hormónar gefa mér svolítið kraftaverk. Þetta er svo mikil bylting á lífsgæðum og líðan. … og eftir að ég byrjaði á hormónum var ég farin að kannast við sjálfan mig. Bara með rosa orku. Ánægja af því sem ég var að gera.“

- Bára

Það kviknaði aftur á mér

Annað meginþema nefnist Það kviknaði aftur á mér og skiptist það niður í fjögur undirþemu sem eru: Meiri innri ró, Aukin nenna, Heilaþokan fór og Aukið sjálfsöryggi. Margar töluðu um að fyrir hormóna þá hafi það verið sófinn sem var þeirra besti vinur og þær áttu mjög erfitt að standa upp úr honum og upplifðu aukna andlega deyfð. Hugrún sagði að fyrir hormóna hafi hún upplifað sig sem litla mús og var farin að fela sig. En eftir að hún byrjaði á hormónum lýsti hún: „Ég varð ég sjálf. Létt og kát, hress, hnyttin, dugleg, vinnusöm og svona sterkur karakter eins og ég er.“

Fyrsta undirþemað er Meiri innri ró. Í viðtölum kom fram að allir þátttakendur fundu fyrir andlegri vanlíðan fyrir töku hormóna. Ingunn hélt að breytingaskeiðið snerist nær eingöngu um hitakóf og kom það henni mjög á óvart: „Ég fékk rosa mikla depurð. Ég er alltaf í góðu skapi og brosandi og það var mjög ólíkt mér. En eftir töku hormóna fór mér að líða miklu betur andlega. Ég varð aftur eins og ég á mér að vera.“

Annað undirþemað ber yfirskriftina Aukin nenna. Konurnar upplifðu orkuleysi, áhugaleysi og nenntu engu áður en þær voru settar á hormóna.

„Ég gerði ekki neitt. Keypti mér jogginggalla og var bara í honum. Ég fór upp í sófa. Fór og náði mér í prjónana. Mér fannst geggjað að sitja og horfa á sjónvarpið á kvöldin. Mér fannst drævið fara. Maður var flatur og leiðinlegur. Þú nennir ekki í líkamsrækt. Ég fann bara strax mun á og estrógeni og utrogestan. Þetta hafði mjög mikil áhrif á allt þetta sjálfstraust og drive og maður fór bara allt í einu að plana sumarfrí og svona til í hlutina.“

- Kristín

Heilaþokan fór er þriðja undirþemað. Allar áttu það sameiginlegt að hafa upplifað heilaþoku. Algengt var að konurnar upplifðu að þær væru komnar með skemmd í heila, áttu erfitt með tal og fóru jafnvel í sneiðmynd af heila til að útiloka sjúkdóma. Ef heilabilun/ Alzheimer-sjúkdómur var í fjölskyldunni þá jók það áhyggjur þátttakenda í rannsókn. Ingunn sagði: „Mér fannst ég bara rosalega gleymin. Sem að var mjög nýtt fyrir mér bæði í vinnu og heima. Dóttir mín sagði kannski; mamma ég var að segja þér þetta í gær. Það jafnaði sig síðan.“

Aukið sjálfsöryggi nefnist fjórða undirþemað. Það var mat margra þátttakenda að þau upplifðu aukið sjálfsöryggi eftir töku hormóna. Þátttakendur voru einnig farnir að huga meira að heilsunni. Hreyfðu sig meira, borðuðu hollari mat og fengu betri svefn sem gerði það að verkum að þeim leið betur og virtist það hafa góð áhrif á sjálfsöryggi þeirra. Þátttakendur töluðu um mikilvægi þess að hlusta á líkamann og aðlöguðu hormónaskammt eftir því. Kristín upplifði gríðarlega mikinn mun eftir að hún var sett á testósterón og sagði: Já núna þegar maður er á testósteróni, þá er maður hress og með þetta „confidence“ sem maður var með. Ég hefði aldrei trúað þessu. Það er svo lítið sem ég er að taka. Það er mest sjálfstraustið og gleði. Að vera frjáls og fíflast. Ég myndi segja að testóið sé lífsgleðin, sjálfstraustið og kjarkur.“

Félagslegu tengslin byggð upp

Þriðja meginþemað nefnist Félagslegu tengslin byggð upp. Sumar kvennanna höfðu misst sitt tengslanet því þær höfðu dregið sig inn í skel. Þannig að eftir að þær byrjuðu á hormónum og fóru að fá aukna orku þá fóru þær að endurvekja vinskap og endurheimta tengslanetið. Aðrar endurheimtu ánægjuna af því að vera í tengslum við sitt fólk.

Fyrra undirþemað er nefnt Endurheimti tengslanetið sem lýsir hvernig þátttakendur fóru að endurvekja vinskap sem þær höfðu vanrækt í nokkur ár vegna vanlíðanar og hversu erfitt það gat verið að endurheimta tengslanetið. Anna lýsti á eftirfarandi hátt: „Maður hefur ekki haldið við vinskap við vinkonur. Og svo þótt manni líði betur og langi þá er það óyfirstíganlegt þegar maður hefur ekki látið heyra í sér í tvö til fjögur ár. Er eiginlega með símakvíða. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að byrja samskipti aftur og það er held ég afleiðing af því að ég er búin að draga mig í hlé.“ Í dag líður Önnu betur og er að reyna að vera virkari‚ „... ég er svona að reyna að vera jákvæð að fara út. En svo er ég að reyna að finna leiðir hvernig maður ræktar eða vekur upp samskipti. Ég allavega byrjaði að hringja til þriggja vinkvenna í staðinn fyrir að senda þeim Facebook afmæliskveðjur.“

Seinna undirþemað ber yfirskriftina Endurheimti ánægjuna að vera í tengslum við fólkið mitt. Þátttakendur sögðust hafa gert allt sem var ætlast til af þeim og mættu í fjölskylduboð en upplifðu ef til vill ekki ánægjuna af því að hitta fólk. En eftir hormónatöku fundu þátttakendur fyrir aukinni ánægju af að hitta sitt fólk og fjölskylduna. Kristín lýsti þessu svona: „Langa að klæða mig upp og fara út. Hlakka til að fara eitthvað. Ég finn aldrei núna að ég nenni ekki af því ég er þreytt. En ég er mjög peppuð í huganum.“

Eftirsjá að tímanum sem ég missti

Fjórða meginþemað er nefnt Eftirsjá að tímanum sem ég missti. Þetta þema lýsir hvernig margar konurnar voru búnar að vera með einkenni í nokkur ár áður en þær fengu hormóna og upplifðu missi af þeim tíma sem þeim hefði getað liðið betur.

Fyrra undirþemað Margir mánuðir sem fara til spillis lýsir því hvernig þátttakendur upplifðu að þær hefðu misst af nokkrum góðum árum vegna þess að hafa ekki byrjað fyrr á hormónum. Þátttakendur upplifðu að ekki var tekið mark á þeirra einkennum og þær ekki rétt greindar þegar þær leituðu fyrst til læknis. Þyrí sagði: „Ég sé svo eftir þessum fimm árum sem ég hefði getað verið í fullri virkni og gert eitthvað alls konar.“

Fagfólkið seint að grípa inn í er seinna undirþemað. Þetta þema lýsir vonbrigðum þátttakenda að fá ekki meðferð sem hentar þeim. Þátttakendur höfðu leitað til læknis vegna einkenna um heilaþoku, depurðar og svefntruflunar og fengið ávísun á svefnlyf og þunglyndislyf.

„Þá var ég komin með alls konar einkenni. Svefntruflanir, heilaþoku og hækkaðan blóðþrýsting og ég var komin á lyf við því. Þarna leitaði ég til heilsugæslunnar og hitti lækni sem er karlmaður á sextugsaldri og hann setur mig á kvíðalyf og svefnlyf.“

- María

Virk hlustun og samskipti

Virk hlustun og samskipti er fimmta meginþemað. Öllum þátttakendum fannst mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hefði þekkingu á breytingaskeiðinu og viðurkenndu vanda skjólstæðinga. Ásamt því fannst öllum mikilvægt að auka þurfi fræðslu til almennings.

Þekking heilbrigðisstarfsmanna nefnist fyrsta undirþema. Í viðtölum kom glöggt fram að þátttakendur upplifðu að heilbrigðisstarfsfólk trúði ekki að einkenni sem þátttakendur voru með væru hluti af breytingaskeiðinu. Ragnhildur sagði að heilsugæslan hafi ekki tengt við breytingaskeiðið: „Ekki fyrr en ég tala við kvensjúkdómalækni sjálf. Það hafði enginn minnst á að það gæti verið eitthvað af þessu breytingaskeið. Bara þunglyndislyf. Það er ekki fyrr en maður kveikir sjálfur á perunni að ekkert virkar.“

Annað undirþema er nefnt Að viðurkenna vanda skjólstæðings. Þátttakendum fannst mikilvægt að hlustað sé á skjólstæðinginn þegar hann leitar á heilsugæsluna og að heilbrigðisstarfsmaður íhugi hvort einstaklingurinn geti mögulega verið kominn á breytingaskeiðið. Ragnhildi fannst alveg stórmerkilegt að ekki hafi verið spáð í þetta þegar mikil breyting var á hennar andlegu líðan á stuttu tímabili. Anna lýsti miklum létti þegar hún loks hitti lækni sem hlustaði á hana: „Ég var bara svo ótrúlega glöð að hitta á þennan lækni. Ég mætti til hennar með listann minn. Hún tók hvert einkenni fyrir sig. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið þessa hjálp.“

Þriðja undirþema nefnist Þarf að auka fræðslu. Þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að auka fræðslu til almennings. Margar upplifðu þetta eins og að greinast með sjúkdóm og hefðu viljað fá afhentan bækling frá heilsugæslunni um einkenni og meðferðir breytingaskeiðsins. Aðrar töluðu um að auka þyrfti umfjöllun um breytingaskeiðið í samfélaginu. Bára gaf mjög góða lýsingu:

„Ég vissi bara nákvæmlega ekkert um þetta skeið. Og ég bara skildi það ekki hvernig maður gat verið sprengmenntuð manneskja á 21. öldinni og vera svona totally „ignorant“. Þetta kom svo ferlega mikið í bakið á mér.“

- Bára

Þetta þroskar mann

Síðasta meginþemað nefnist Þetta þroskar mann. Konurnar endurskoðuðu sitt líf og upplifðu ákveðinn þroska eftir að hafa gengið í gegnum þetta tímabil.

Fyrsta undirþemað er Lífið endurskoðað. Konurnar voru margar búnar að gera breytingar á sínu lífi og drógu úr streitu. Bára ákvað að skipta um starf innan síns fyrirtækis og „því ég hef alltaf verið orkumikil í vinnu og haldið hundrað boltum á lofti í einu og var markaðsfulltrúi í banka í 10 ár. Ég er enn í bankanum en skipti um vettvang þarna um mitt ár vorið 2022.“

Annað undirþemað nefnist Hugað að heilsunni. Allir þátttakendur voru farnir að huga meira að heilsunni, til dæmis hreyfðu sig reglulega og drógu úr streitu. Ásdís tók til í sínu lífi og sagði: „Ég er líka að passa að fara á skikkanlegum tíma að sofa. Ég dró úr áfengisneyslu. Ég er alltaf dugleg að hreyfa mig. Ekki bara að ég ætla að fara baða mig í einhverju estrógeli og halda að hlutirnir bara lagist.“

Vanda valið hvað ég set orkuna í er þriðja undirþemað. Í viðtölum við þátttakendur kom fram að konurnar eru orðnar óhræddari að hugsa hversu vel nærir þessi félagsskapur mig, hvert ætla ég að fara með orkuna mína og hvað nærir mig. Helga nefndi: „Maður er að velja í hvað maður setur orkuna og í hvern. Svo koma smá vitsmunir. Einhver extra dýpt þegar maður er á þessu skeiði.“

Fjórða og síðasta undirþemað lýsir Auknu þori að prófa nýja hluti. Með aukinni orku, bættu sjálfstrausti og betri líkamlegri líðan upplifðu þátttakendur aukið þor í að prófa nýja hluti eftir að hafa hafið hormónauppbótarmeðferð. Sumar skráðu sig á námskeið sem þær höfðu verið búnar að hugsa lengi um eða voru að íhuga til dæmis að bjóða sig fram í sjálfboðaliðastarf. Þyrí sagði: „Heyrðu ég skelli mér á gönguskíðanámskeið. Jú ég ætla að fara í ræktina.“

Umræður

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að konur upplifðu allajafna breytingu á andlegum-, líkamlegum- og félagslegum lífsgæðum við að fara á hormónauppbótarmeðferð. Yfirþema rannsóknar Mér fannst ég verða aftur ég sjálf lýsir reynslu allra þátttakenda í rannsókninni. Upplifun þeirra var að þær höfðu endurheimt sína fyrri heilsu og voru orðnar orkumeiri eins og þær voru fyrir breytingaskeið. Þetta samræmist niðurstöðum rannsóknar Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020) en þar voru þátttakendur sammála um að eftir töku hormóna voru þeir farnir að kannast við líkamann eins og hann var og upplifðu aukna orku og drifkraft. Þátttakendur upplifðu mikinn mun á líkamlegri og andlegri líðan eftir töku hormóna og er það er í samræmi við rannsókn Dotlic og félaga (2020) sem sýndi fram á að þær konur sem voru á hormónauppbótarmeðferð upplifðu betri andlega og líkamlega líðan og þær voru ekki að hugsa um að hætta meðferðinni. Þetta er hins vegar í andstöðu við niðurstöður Wium-Andersen og félaga (2022) sem sýndu fram á auknar líkur á þunglyndi á fyrsta ári hormónauppbótarmeðferðar, ef hormónameðferð var hafin fyrir 50 ára aldur en ef hún er hafin eftir 54 ára aldur sýndi rannsókn þeirra fram á minni hættu á þunglyndi. Í þessari rannsókn upplifðu þátttakendur skerta kynlöngun fyrir töku hormóna og hafði það áhrif á líðan þeirra og sambandið við makann. Eftir hormónatöku upplifðu allir þátttakendur aukna kynlöngun en mismikla. Sumar voru eingöngu á estrógeni og prógesteróni og fundu mun til batnaðar á kynlöngun og þær sem voru á testósteróni sögðu sumar að það gerði kraftaverk fyrir sig. Það er þó ekki í samræmi við rannsókn Ásthildar Björnsdóttur (2017) því þar kom fram að eftir að konurnar hættu á hormónameðferð þá jókst kynlöngunin. Hins vegar sýndi rannsókn Islam og félaga (2019) að notkun testósteróns hafði góð áhrif á kynlöngun og bætti sjálfsmynd kvenna. Í þessari rannsókn töluðu konurnar um það sem þær kölluðu heilaþoku, voru gleymnar, einbeitingalausar og ólíkar sjálfum sér hvað það varðaði. En eftir að þær byrjuðu á hormónauppbótarmeðferð fundu þær mikinn mun á minni og einbeitingu. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður Rasha og félaga (2023).

Í rannsóknum Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018) og Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020) kom fram að konum fannst oft skorta á skilning og hlustun þegar þær leituðu til læknis. Sambærilegar niðurstöður komu fram í þessari rannsókn og lýstu konurnar að þær hefðu verið settar á kvíða- og svefnlyf í stað hormónauppbótarmeðferðar sem sýndi svo síðar að þær þurftu á hormónum að halda en ekki geðlyfjum. Í þessari rannsókn kom fram eftirsjá að tímanum sem þær hefðu getað verið á fullum dampi ef þær hefðu verið meðhöndlaðar fyrr með hormónauppbótarmeðferð. Einnig kom fram að konurnar höfðu misst tengsl við vini vegna andlegrar vanlíðunar fyrir hormónauppbótarmeðferð og voru að reyna finna leiðir til að endurheimta tengslanetið eftir að meðferð var hafin. Þessar tvær niðurstöður hafa höfundar ekki séð áður í rannsóknum. Þessi rannsókn, rannsókn Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018), Steinunnar Kristbjargar Zophoníasdóttur (2020) og rannsókn Herdísar Sveinsdóttur (2005) sýna að konur hérlendis hefðu viljað fá meiri tíma með heilbrigðisstarfsmanni, betri hlustun og aukna fræðslu. Þessar niðurstöður sýna okkur að heilsugæslan þarf að vinna með breytingaskeiðið á markvissan hátt og veita fræðslu til almennings og heilbrigðisstarfsfólks þannig að konur séu upplýstari um þetta lífsskeið og þær meðferðir sem í boði eru. Í þessari rannsókn kom fram að hormónauppbótarmeðferð bætir líðan kvenna sem eru að ganga í gegnum breytingaskeið og tíðahvörf. Hægt er að líta á breytingaskeiðið sem nýtt lífsskeið konunnar og gengur hún í gegnum ákveðið þroskatímabil. Í þessari rannsókn voru konurnar búnar að breyta ýmsu í sínu lífi, farnar að hugsa betur um sína heilsu og drógu úr streitu, sem samræmist niðurstöðum rannsóknar Sólrúnar Ólínu Sigurðardóttur (2018).

Styrkleikar og takmarkanir rannsóknar

Þessi rannsókn veitir innsýn í reynslu kvenna af áhrifum hormónauppbótarmeðferðar á breytingaskeiði en það hefur ekki verið skoðað áður hér á Íslandi. Styrkleiki rannsóknarinnar felst í að farið var eftir ákveðinni rannsóknaraðferð Vancouver-skólans. Veikleiki rannsóknarinnar er takmarkaður fjöldi þátttakenda og hugsanlegt að þeir sem buðu sig fram til þátttöku hafi frekar haft jákvæða reynslu af notkun hormónauppbótarmeðferðar.