Umsjón og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Hulda Birgisdóttir hefur í áratug starfað sem hjúkrunarfræðingur í fangelsi, hún byrjaði í afleysingum í fangelsinu á Skólavörðustíg og kvennafangelsinu sumarið 2013 á meðan hún var enn í námi. Hulda fékk fasta stöðu við fangelsið á Hólmsheiði árið 2017 og er núna í 50% starfi þar og 50% starfi á sjúkrahúsinu Vogi. Samhliða tekur hún líka vaktir bráðamóttökunni í Fossvogi.
Ég á morgunvakt á Hólmsheiði, dagurinn hefst á góðum kaffibolla og síðan hefst baráttan við að vekja unglingana og koma þeim í skólann, það getur aldeilis tekið á taugarnar en hefst alltaf að lokum. Ég hlusta á Heimsgluggann með Boga Ágústssyni í bílnum á leiðinni í vinnuna. Í fangelsinu á Hólmsheiði bíða mín ótalmörg og fjölbreytt verkefni. Vaktin byrjar á innliti á varðstofu, þar er staðan tekin, fengið smá rapport frá varðstjóra og farið yfir lista yfir þá sem eru í húsi og þá sem hafa pantað viðtal við lækni eða hjúkrunarfræðing. Því næst eru lyf fanga sem eru geymd inn á varðstofu milli vakta sótt þar sem fangaverðir gefa lyfin og farið með þau inn á móttökuherbergi sem kallað er læknaherbergi.
Morgunmóttakan er undirbúin áður en læknir sem er á vakt mætir í hús, lyf eru tekin til fyrir 42 fanga í lyfjabox. Þegar læknirinn mætir upp úr kl. 9 fær hann rapport um þau erindi sem hafa borist í vaktsíma hjúkrunarfræðings. Vaktsíminn er í raun sá sími sem varðstjóri og fangaverðir geta hringt í með ýmis erindi sem ekki geta beðið þar til læknir eða hjúkrunarfræðingur kemur í hús. Til að mynda kom nýr skjólstæðingur daginn áður sem þurfti á fráhvarfslyfjameðferð að halda og gátu fangaverðir hafið hana með mínu leyfi þar sem við höfum alltaf tilbúin lyfjabox með fráhvarfslyfjum. Móttakan hefst um klukkan níu, oftar en ekki skiptum við hjúkrunarfræðingarnir með okkur verkum þar sem önnur okkar fer í móttöku með lækni á meðan hin heldur áfram lyfjatiltekt sem oft og tíðum getur verið ansi umfangsmikil. Þennan daginn fer ég í móttökuna með lækninum. Við byrjum á gæsluvarðhaldföngunum og þessu er best lýst sem nokkurs konar stofugangi. Heilsufarsviðtal er tekið við skjólstæðinga, skoðun og lífsmarkamælingar fara fram og þeir upplýsa um almenna heilsu, sjúkdóma og venjur, ásamt lyfjasögu.
Gæsluvarðhaldið er þungt í dag, þar eru fimm einstaklingar, þar af eru fjórir erlendir. Einn af erlendu gæsluvarðhaldsföngunum er hælisleitandi sem er í hungurverkfalli. Hungurverkfall fanga er það sem við sjáum í sívaxandi mæli en engin gæðaskjöl eru til fyrir heilbrigðisstarfsfólk hér á Íslandi til að fara eftir ef skjólstæðingar okkar eru í hungurverkfalli. Eftirlit með slíkum föngum þarf að vera daglegt en vegna takmarkaðs fjármagns hefur ekki verið unnt að auka stöðugildi hjúkrunarfræðinga eða lækna við fangelsið. Mikill tími fer í túlkun við erlenda fanga, oftast notum við túlkaapp, þar sem ekki er hlaupið að því að fá túlk í fangelsið. Það gengur oftast vel að nota appið en það tekur töluvert lengri tíma að sinna erlendum föngum sem einungis tala sitt móðurmál.
Þegar stofugangi er lokið fáum við inn á stofu til okkar nýja fanga sem ekki sæta gæsluvarðhaldseinangrun. Farið er yfir sömu upplýsingar og hjá skjólstæðingum í gæsluvarðhaldi. Fangar sem hafa hitt okkur áður stendur til boða að setja sig á viðtalslista og þar eru ýmis erindi sem koma upp og þarf að leysa og ráðleggja með. Í dag þurfum við að senda einn fanga í myndrannsókn, þá þarf að útbúa flutningsbeiðni fyrir viðkomandi og afhenda varðstjóra svo hann geti pantað tíma og undirbúið flutning í rannsóknina í fylgd fangavarða. Undirbúa þarf einnig flutning fanga milli fangelsa og þennan daginn er fyrirhugað að flytja þrjá fanga á Litla-Hraun. Lyf og lyfjafyrirmæli þurfa að fylgja þeim. Ég tek eftir því að lyfjablað eins fangans er óskýrt og geri því nýtt og læt fylgja með fráhvarfsskema þar sem viðkomandi er á fráhvarfsmeðferð. Mitt starf felst að miklu leyti í því að hafa yfirumsjón með allri starfsemi sem snýr að heilbrigðisþjónustu þannig að allt gangi sem best fyrir okkar skjólstæðinga.
Að lokinni móttöku með lækni hefst hjúkrunarmóttaka þar sem m.a. forðalyf eru gefin og önnur erindi leyst sem ekki þurfa aðkomu læknis. Einn fangi þarf forðalyf í dag sem gefið er við geðklofa. Tveir aðrir fangar eru kallaðir inn í blóðþrýstingseftirlit og svo eru nokkrir á lista fyrir blóðprufur. Ég upplifi sjaldan að ég sé í hættu þegar ég er að sinna föngum eða að þeir sé eitthvað hættulegri en annað fólk. Engu að síður finnst mér mikilvægt að tveir heilbrigðisstarfsmenn séu saman í hjúkrunarmóttöku og svo eru fangaverðirnir aldrei langt undan.
Hjúkrunarfræðingarnir í fangelsinu sjá um lyfjapantanir frá apóteki og að panta önnur aðföng sem á þarf að halda til að reka litla heilsugæslu eins og þessa á Hólmsheiði. Eftir hjúkrunarvaktina þarf að hafa samband við aðra fagaðila sem tengjast okkar vinnu í fangelsinu, til að mynda hjúkrunarfræðinga á Litla-Hrauni, göngudeild smitsjúkdóma, Vog, geðheilsuteymi fanga og ýmis önnur teymi. Oftast er það í höndum hjúkrunarfræðinga á vakt og eins að hafa umsjón með rannsóknum sem framkvæmdar eru í samráði við lækni og fylgja þeim eftir. Því miður er veruleikinn sá að meirihluti fanga á við vímuefnavanda að stríða. Hluti af starfinu er þar af leiðandi að gera áætlanir um fráhvarfsmeðferðir og tengja þá sem þurfa á viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn að halda, við geðheilsuteymi fanga. Það var stofnað árið 2020 og að mínu mati var mikil þörf á því teymi þar sem margir af okkar skjólstæðingum eiga við fíkni- og/ eða geðsjúkdóma að stríða. Mér finnst mjög mikilvægt í þessu starfi og alveg sama hvar maður starfar innan heilbrigðiskerfisins að mæta öllum skjólstæðingum af virðingu á þeim stað sem þeir eru. Að sía burtu alla fordóma og mæta skjólstæðingum af fullkomnu fordómaleysi.
Nú styttist í að vaktinni minni ljúki. Ég klára síðustu verkin áður en ég keyri heim og legg mig því ég er að fara á næturvakt á Vogi. Vakt í fangelsinu lýkur þó í raun aldrei alveg því vaktsíminn er ekki langt undan og það eru ófá símtölin sem berast í hann frá fangelsinu. Oft eru það mál sem liggja þungt á mér þar til næsta móttaka fer fram. Því fylgir mikil ábyrgð og skynsemi að bera á sér vaktsíma. Oft leiða þessi símtöl útköll af sér því sum mál geta einfaldlega ekki beðið til næsta móttökudags. Þá er mikilvægt að hugsa í lausnum og vera útsjónarsöm til að allt gangi sem best upp.