Fara á efnissvæði
Frétt

Mönnunarviðmið hjúkrunarfræðinga komið á í þremur ríkjum

Það sem af er ári hafa þrjú ríki í Bandaríkjunum sett á mönnunarviðmið hjúkrunarfræðinga, víða eru þó áhyggjur af áhrifum slíkra viðmiða og hafa frumvörp þess efnis verið felld þrátt fyrir góða reynslu.

Þrjú ríki í Bandaríkjunum hafa samþykkt lög um mönnunarviðmið hjúkrunarfræðinga frá því um áramótin, eru nú alls 16 ríki af 50 í Bandaríkjunum með reglur sem kveða á um mönnun hjúkrunarfræðinga. Á þessu ári hafa alls verið lögð fram 18 slík frumvörp á ríkisþingum Bandaríkjanna sem og á alríkisþinginu. Lagafrumvörpin hafa mætt harðri andstöðu af hálfu samtaka sjúkrahúsa sem telja að slík lög hamli umönnun sjúklinga.

Lögbundin mönnunarviðmið hjúkrunarfræðinga snúast um að mönnun sé í takti við þjónustuþörf, rannsóknir hafa sýnt fram á að þar sem mönnun er nægjanleg eru hjúkrunarfræðingar líklegri til að vilja starfa áfram og slík lög því lykilatriði í að bæta starfsaðstæður. Fram kemur í niðurstöðum síðustu kjarakönnunar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) að meira en helmingur hjúkrunarfræðinga hér á landi hefur oft mætt til vinnu þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga. Fíh hefur margsinnis ályktað um nauðsyn þess að koma á mönnunarviðmiðum hér á landi. Í dag eru engin viðurkennd mönnunarviðmið en heilbrigðisráðherra hefur skipað verkefnahóp sem ætlað er að leggja fram mönnunarviðmið í hjúkrun á legudeildum Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala, niðurstöðurnar eiga að vera kynntar næsta vor.

Mikil starfsmannavelta

Lög um mönnunarviðmið voru samþykkt í Vestur-Virginíu, Oregon og Washington-ríki. Frumvörpum um mönnunarviðmið voru felld á ríkisþingum Nýju-Mexíkó, Missouri, Montana og Minnesota. Þau eru enn til umfjöllunar á alríkisþinginu og ríkisþingum Connecticut, Maine, New York, Pennsylvaníu, Michigan, Illinois, Indiana, Ohio, New Jersey, Massachusetts og Georgíu.

Starfsmannavelta hjúkrunarfræðinga í Bandaríkjunum var mjög há í fyrra, tæp 23% á ársgrundvelli. Frá árinu 2020 hefur skortur á hjúkrunarfræðingum í Bandaríkjunum valdið sívaxandi flöskuhálsum í heilbrigðiskerfum ríkjanna ásamt því að auka togstreitu á milli stjórnenda og starfsfólks. Mary Turner, formaður Félags hjúkrunarfræðinga í Minnesota, hefur bent á að kannanir í hennar ríki sýni að 80% hjúkrunarfræðinga sem hafi snúið sér að öðrum störfum muni snúa aftur ef mönnunin lagist.

Mary Turner, formaður Félags hjúkrunarfræðinga í Minnesota.

Í umfjöllun Healthcare Dive er rætt við Söndru Feist, þingmann Demókrata á ríkisþingi Minnesota, en hún lagði fram mönnunarviðmiðsfrumvarp sem var fellt. Hún lagði fram frumvarpið eftir fjölmörg samtöl við hjúkrunarfræðinga í ríkinu sem sögðu að mönnun væri ein helsta ástæða þess að þeir væru að snúa sér að öðrum störfum.

Telja mönnunarviðmið ekki leysa vandann

Frumvarp Feist var komið í gegnum bæði fulltrúadeild og öldungadeild ríkisþings Minnesota þegar Mayo Clinic, stærsti einstaki vinnuveitandinn í ríkinu, hótaði að færa fjárfestingar sínar annað nema lögin yrðu felld.

Rök Mayo Clinic sneru að því að mönnunarviðmið væru best höfð í höndum einstakra sjúkrahúsa en ekki í lögum. Robyn Begley, hjúkrunarforstjóri Samtaka bandarískra sjúkrahúsa, berst gegn því að mönnunarviðmiðum verði komið á, afstaða samtakanna er að mönnunarviðmið leysi ekki vandann sem sé skortur á hjúkrunarfræðingum. Slík lög taki heldur ekki mið af mögulegum tækniframförum og teymisvinnu. Formenn hjúkrunarfræðinga víða um Bandaríkin hafna röksemdum sjúkrahúsanna og segja að eini skorturinn sé á hjúkrunarfræðingum sem vilji starfa við óöruggar aðstæður.

Sneru aftur til starfa í Kaliforníu

Rannsóknir sýna fram á að reglur sem skylda heilbrigðisstofnanir til að fullmanna vaktir hafi þau áhrif að fleiri vilji vinna þar. Linda Aiken, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann í Pennsylvaníu, hefur rannsakað mönnunarviðmið í hjúkrun síðustu þrjá áratugi. Fyrstu lögin um mönnunarviðmið í Bandaríkjunum voru sett í Kaliforníu árið 2004, Aiken rifjar upp að þegar þau lög voru á frumvarpsstigi voru uppi miklar áhyggjur af áhrifum þeirra á heilbrigðiskerfið.

Linda Aiken, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann í Pennsylvaníu.

„Nánast samstundis voru skráðar fleiri vinnustundir á hjúkrunarfræðinga, það þýðir að hjúkrunarfræðingar sneru aftur til starfa,“ segir Aiken við Healthcare Dive. Ekkert sjúkrahús hafi þurft að loka, þvert á móti hafi umönnun sjúklinga batnað til muna. „Í dag fá sjúklingar í Kaliforníu rúmlega þremur klukkustundum meiri umönnun en sjúklingar í öðrum ríkjum, það er einungis vegna þessarar lagasetningar.“