Fara á efnissvæði
Frétt

Nýir áfangastaðir í sumar

Það eru spennandi tímar fram undan í orlofsmálum hjúkrunarfræðinga. Ný orlofshús, nýr orlofsvefur og spennandi áfangastaðir. Forgangsopnun orlofsvefs fyrir sumarið hefst 19. mars.

Núna á vordögum lauk smíði á tveimur nýjum orlofshúsum fyrir hjúkrunarfræðinga í Hyrnulandi 10 og 12 í Hlíðarfjalli fyrir ofan Akureyri. Húsin tvö eru bæði 109 fermetrar með rúmstæði fyrir sex, heitum potti og fallegu útsýni.

Hyrnuland 10 á byggingarstigi.

Hlíðarfjall hefur verið vinsæll áfangastaður allt árið og því mikil ánægja að gefa fleirum tækifæri á að heimsækja Norðurland, hvort sem það er til að fara á skíði yfir vetrartímann, fjallahjól yfir sumartímann eða bara til að hlaða batteríin. Fleiri spennandi áfangastaðir verða í boði í sumar, þar á meðal í Vestmannaeyjum og á Spáni.

Forgangsopnun orlofsvefs fyrir sumarið 2024

Orlofsvefurinn verður stilltur þannig að einungis þeir sem eiga tilskilinn fjölda orlofspunkta og hafa ekki leigt síðastliðinn 2 ár í júní, júlí og ágúst geta bókað á eftirfarandi dögum;

Frá 19.mars kl.10:00- 112 punkta og fleiri og hafa ekki leigt s.l. 2 ár, geta bókað og greitt

Frá 20.mars kl.10:00 - 82 punkta og fleiri og hafa ekki leigt s.l. 2 ár, geta bókað og greitt

Frá 21.mars kl.10:00 - 15 punkta og fleiri og hafa ekki leigt s.l. 2 ár, geta bókað og greitt

Athugið að flökkuíbúðir eru utan við þessa opnun því þær fylgja áfram opnun 1. og 15. hvers mánaðar fyrir þá félagsmenn sem eiga lögheimili utan þess sveitarfélags sem við á. Íbúðirnar eru Furulundur á Akureyri, Sóltún og Klapparstígur í Reykjavík.

Nýr orlofsvefur

Í byrjun marsmánaðar verður tekinn í notkun nýr orlofsvefur með uppfærðu viðmóti og útliti. Vefurinn er hannaður af Austurneti sem sá einnig um fyrri útgáfu af vefnum. Viðmótið er svipað og áður nema með notendavænni möguleikum sem einfaldar sjóðsfélögum og sjóðnum að ganga frá pöntunum og afpöntunum.

Heiða Björk Gunnlaugsdóttir og Inga Valborg Ólafsdóttir í stjórn orlofssjóðs í Hyrnulandi.

Orlofssjóður hefur keypt mikið magn gjafabréfa sem eru til sölu á orlofsvefnum, þar á meðal miðum á KEA-hótelum, Hótel Siglunesi, Menningarkort Reykjavíkur ásamt fleiri kortum og Hey Iceland kóðum sem gilda bæði í utanlandsferðir Bændaferða og gistingu og afþreyingu innanlands.

Áfram munu sjóðsfélagar geta keypt hin vinsælu gjafabréf Icelandair með afslætti, til að gefa fleirum kost á að kaupa, tók stjórn sjóðsins ákvörðun um að leyfa einungis kaup á tveimur bréfum í stað þriggja þetta árið.

Njótið sumarsins!

Heiða Björk Gunnlaugsdóttir, formaður orlofssjóðs