Nýr stofnanasamningur við SÁÁ er mikilvægur þar sem fjárfest er í hjúkrunarfræðingum á skynsaman hátt.
Markmið samningsins er að styðja við og efla hlutverk hjúkrunarfræðinga í meðferð við fíknsjúkdómi hjá SÁÁ, bæði fráhvarfsmeðferð og í áframhaldandi bataferli. Unnið er eftir líf-sál-félagslegu módeli þar sem hjúkrun gegnir lykilhlutverki við að tryggja öryggi, fylgjast með líkamlegu og andlegu ástandi og styðja við einstaklingsmiðaða umönnun.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur allt frá undirritun síðustu kjarasamninga lagt mikla áherslu á að ljúka við endurnýjun stofnanasamninga við alla viðsemjendur. Er nú búið að undirrita stofnanasamninga fyrir stærstan hlut hjúkrunarfræðinga í landinu. Með nýjum stofnanasamningum er innleitt starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga sem er mikið hagsbótamál fyrir alla hluteigandi þar sem sí- og endurmenntun er stór og mikilvægur þáttur í starfi hjúkrunarfræðinga.





