Fara á efnissvæði
Frétt

Nýtt ár byrjar með krafti

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh.

Gleðilegt ár ágætu hjúkrunarfræðingar.

Árið byrjar með krafti og er starfsfólk Fíh nú rúmlega hálfnað með árlega hringferð félagsins um landið. Það er búið að vera svo frábært að hitta svo mikinn fjölda hjúkrunarfræðinga eins og raun ber vitni og eiga gagnlegar og hreinskiptar umræður, m.a. um komandi kjaraviðræður. Samtalið er hvað mikilvægast okkar á milli og þannig förum við vel nestuð inn í komandi kjarasamninga. Samningar okkar við ríkið, Reykjavíkurborg, sveitafélög og SFV renna út á miðnætti 31. mars næstkomandi. Við fylgjumst núna grannt með framvindunni á almenna markaðnum og getur sú niðurstaða haft áhrif á alla samninga sem á eftir koma. Við erum þó vel undirbúin fyrir samtalið við okkar viðsemjendur en það hefst við ríkið í næstu viku.

Við höfum niðurstöður viðhorfskönnunarinnar sem gerð var síðasta haust, niðurstöðu kjararáðstefnunnar með trúnaðarmönnum í nóvember, erum nú að funda með hjúkrunarfræðingum um allt land og endum á góðum vinnudegi með trúnaðarmönnum 8. febrúar næstkomandi.

Það er mjög brýnt að yfirvöld átti sig á því að það þarf fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa, samhliða sívaxandi fjölda íslendinga. Þjóðin er að eldast og ef reisa á ný hjúkrunarheimili þarf hjúkrunarfræðinga til að starfa þar. Fjöldi ferðamanna á Íslandi fer ekki minnkandi og þurfa þeir einnig á heilbrigðisþjónustu að halda. Ofan á það birtust nýlega niðurstöður Gallupkönnunar sem sýna að heilsa Íslendinga fer hrakandi milli ára. Hér þarf því að hugsa til langtíma og manna heilbrigðiskerfið í tíma, svo hægt sé að tryggja þá þjónustu sem talað er um í heilbrigðisstefnu yfirvalda til 2030.

Nýtt húsnæði

Fíh hefur verið til húsa á Suðurlandsbraut 22 í 37 ár. Þegar flutt var inn voru vonir bundnar við að húsnæðið myndi duga hjúkrunarfræðingum inn í 21. öldina og hefur það heldur betur tekist. Við nýlega úttekt á húsnæðinu fundust merki um myglu, sem gerir það að verkum að félagið þarf að flytja tímabundið í nýtt húsnæði.

Ný skrifstofa verður til húsa að Engjateig 9. Er það í sama húsi og Verkfræðingafélag Íslands og við hliðina á Sendiráði Bandaríkjanna. Skrifstofa Fíh verður á jarðhæð og því mun aðgengilegri en áður. Félagið mun hafa afnot stórum sal í kjallaranum þar sem hægt er að nýta fyrir námskeið og stærri fundi. Námskeið sem eru þegar bókuð í salinn á Suðurlandsbraut 22 flytjast því yfir í salinn á Engjateig 9.

Þjónusta félagsins við okkar félagsfólk helst óbreytt og verður gaman að taka á móti hjúkrunarfræðingum á nýjum vettvangi.

Ég vonast til að sjá sem flesta hjúkrunarfræðinga á fundunum sem eftir eru og hlakka mikið til að ræða við ykkur og hlusta á mismunandi sjónarmið. Hér má sjá dagskrá fundanna.