Fara á efnissvæði
Frétt

Ráðstefna ICN 2025 fer fram í Helsinki

Ráðstefnan verður haldin dagana 9.-13. júní 2025. Opið er fyrir ágrip og veggspjaldakynningar frá 2. ágúst til 30. september 2024.

Ráðstefna Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) árið 2025 verður haldin í Helsinki í Finnlandi. Ráðstefnan verður haldin dagana 9.-13. júní 2025, þetta er í fyrsta sinn frá 2001 sem ICN heldur ráðstefnu á Norðurlöndunum, hvetur Fíh því hjúkrunarfræðinga til að missa ekki af tækifærinu og gera ráð fyrir ráðstefnunni í ráðstefnudagatali næsta árs. Ráðstefnan er styrkhæf í starfsemnntunarsjóð Fíh.

Þema ráðstefnunnar 2025 er „Kraftur hjúkrunarfræðinga til að breyta heiminum“ (e. The Power of Nurses to Change the World) sem sýnir fram á hið nauðsynlega hlutverk sem hjúkrunarfræðingar gegna í heilbrigðisþjónustu á öllum sviðum.

Líkt og á fyrri ráðstefnum ICN gefst hjúkrunarfræðingum kostur á að víkka tengslanet sitt, læra af hvor öðrum og kynnast leiðtogum frá öllum heimshornum. Boðið verður upp á fróðleik frá framúrskarandi leiðtogum í hjúkrun.

„Það er sönn ánægja að starfa með Félagi finnskra hjúkrunarfræðinga að ráðstefnunni í Helsinki á næsta ári. Ráðstefnan er vettvangur fyrir hjúkrunarfræðinga til að leggja sitt af mörkum og þróa áfram okkar öfluga og áhrifamikla fag,“ segir Pamela Cipriano, forseti ICN, í tilkynningu.

„Markmið alþjóðasamfélagsins um heilbrigðisþjónustu fyrir alla verður aðeins náð með gríðarlegum fjárfestingum í hjúkrun. Ráðstefnan er vettvangurinn til að sýna hvers hjúkrunarfræðingar eru megnugir ef við fáum tækifæri til þess. Ég hvet alla til að mæta og kynnast hjúkrunarfræðingum frá öllum heimshornum í sameiginlegri vegferð til bjartari framtíðar.“

Árið 2025 fagnar Félag finnskra hjúkrunarfræðinga aldarafmæli sínu, þá verða einnig liðin 100 ár frá því ráðstefna ICN fór síðast fram í Finnlandi. Heljä Lundgrén-Laine, formaður félagsins, hlakkar til að fá hjúkrunarfræðinga í heimsókn. „Það er mikill heiður fyrir okkur að halda ráðstefnu ICN. Menntun og fagmennska hjúkrunarfræðinga í Finnlandi er í hæsta gæðaflokki, einnig hefur fræðasamfélagið okkar lagt mikið af mörkum á sviði hjúkrunar á alþjóðavísu,“ segir hún.

„Í júní 2025 fá hjúkrunarfræðingar frá öllum heiminum að læra af hvor öðrum og kynnast norrænu heilbrigðiskerfi. Fyrir hundrað árum hittust hjúkrunarfræðingar í Helsinki, í dag er mun auðveldara að ferðast. Við bjóðum alla hjúkrunarfræðinga velkomna. Saman hafa hjúkrunarfræðingar kraftinn til að breyta heiminum.“

Opið er fyrir ágrip og veggspjaldakynningar frá 2. ágúst til 30. september 2024.