Þorgerður settist fyrst í ritnefnd Tímarits Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, tímarit sem kom út frá 1984 til 1992. Í aðdraganda sameiningar Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og Hjúkrunarfélags Íslands voru tímarit félaganna sameinuð í Tímarit hjúkrunarfræðinga og var Þorgerður ráðin fyrsti ritstjóri sameinaða tímaritsins.
„Það átti að breyta um takt. Þá voru sameiningarviðræður í gangi og það átti að byrja á þessu. Ritstjórnin lagði upp með að efla enn frekar tímaritið sem fag- og vísindatímarit meira en félagstímarit. Með það lagði ég upp,“ segir hún. „Það voru allt aðrir tímar þá en nú. Það voru fáir sem flögguðu doktorstitli þá og fáir í rauninni að skrifa vísindagreinar.“
Fyrsta tölublaðið, sem kom út árið 1993, var fremur tilraunakennt. Smelltu hér til að lesa það. „Umbrotið á því var líka tilraunakennt, ég var að reyna að vinna þetta í fjarvinnu í gegnum faxtæki með hönnuði úti í Hollandi. Þetta var mjög framúrstefnulegt,“ segir hún. „Mér þykir alltaf mjög vænt um forsíðuna á því, þar er fyrsta síðan á fyrsta eintaki upphaflega tímaritsins. Ég veit að fleirum finnst það fallegt.“