Arna vinnur nú að þróun og innleiðingu skimunartækis til notkunar í framhaldsskólum.
„Við erum á fjórða árinu okkar í þessu tilraunaverkefni, það kom inn peningur 2022 til að huga að geðheilbrigði unglinga. Það kom alveg samhliða mínu doktorsverkefni sem var heppilegt því við höfum myndað sterkan og flottan hóp hjúkrunarfræðinga sem eru að sinna þessu.“
Hjúkrunarfræðingar eru nú starfandi í öllum þrettán framhaldsskólunum á höfuðborgarsvæðinu og í nokkrum á landsbyggðinni.
Skimunartækið sem hún vinnur að heitir Heilung og byggir á seiglukenningunni. „Seiglukenningin gengur út frá því að það séu áhættuþættir í lífi unglinga og horfir á þetta ferli þar sem unglingurinn tekur einhverja verndandi þætti og lætur þá hjálpa sér að komast í gegnum áhrifin frá áhættuþáttum,“ segir Arna.
Skimunartækið tekur til þátta sem vitað að eru verndandi. „Það skoðar sjálfsmynd, ákveðna sjálfstrú, skólatengingu, tengingu við foreldra, vini og aðra fullorðna, heilsuhegðun. Svo erum við líka að spyrja erfiðari spurninga þar sem komið er inn á áhættuþættina, eins og sálræn líðan, ofbeldi, áhættuhegðun og almennt kynheilbrigði. Svo biðjum við þau um að leggja mat á heilsuna sína í heild,“ segir Arna.
„Það sem við erum að gera með þessu tæki er að fá heildarmynd af lífi unglingsins sem kemur til okkar og hvernig við ætlum að nýta þá þekkingu í meðferðinni eða þjónustunni sem við erum að veita. Ef við erum með einstakling sem er með lágt sjálfsmat þá erum við að vinna í því, ekki bara í erfiðleikum í vináttu sem tengist því. Unglingar eru oft með hnitmiðað vandamál sem kemur upp út af einhverju öðru, þetta hjálpar okkur og minnir okkur á, að það eru alltaf einhverjir verndandi þættir. Þau eiga alltaf eitthvað sem þau eru stolt af eða við getum hjálpað þeim að efla, sem getur hjálpað þeim í gegnum aðra hluti.“
Hún segir mikilvægt að nú á tímum samfélagsmiðla að sjúkdómsvæða ekki eðlilegar tilfinningar og tilfinningasveiflur. Þá hefur einmanaleiki meðal ungmenna aukist mikið. „Við héldum að þetta næði hámarki í Covid en þetta hefur haldið áfram. Þar held ég að samfélagsmiðlar séu vandinn, það eru allir í símanum sínum, það vantar oft að tala saman auglitis til auglitis. Krakkarnir sérstaklega, þau upplifa sig einmana innan um hóp af fólki,“ segir Arna. „Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða sem samfélag. Það er ekki þannig að unglingarnir okkar séu lélegri en við, samfélagið okkar er öðruvísi, það er hraðara og miklu meira áreiti og við þurfum að komast til móts við unglingana út af því.“