Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Elín Birna Skarphéðinsdóttir

Gestur Rapportsins er Elín Birna Skarphéðinsdóttir, hjúkrunarfræðingur í framhaldsskóla og á Heilsugæslunni Kirkjusandi. Elín Birna er einnig með meistaragráðu (MLM) í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun.

Heilsubrú er miðlæg þjónustueining hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og tók nýverið við teymi hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólum. „Þetta er fyrsta árið sem þetta er keyrt með þessum hætti. Með þessu verður samfellan betri, við hjúkrunarfræðingarnir í framhaldsskólum erum í góðu samstarfi, það er grundvöllur fyrir því að þróa þetta áfram. Þetta er nýsköpun að koma heilsugæslu inn í framhaldsskólana,“ segir Elín Birna. „Draumurinn er að þessi verði til langsframa og við munum sjá hjúkrunarfræðinga í öllum framhaldsskólum landsins.“

Í skólanum geta nemendur bæði bókað tíma og komið við. „Þetta er frábært umhverfi að vinna í. Þetta eru svo stór mótunarár. Þau eru að fara frá því að vera börn í lagalegum skilningi yfir í að vera fullorðinn einstaklingur. Maður finnur það alveg þegar maður mætir á morgnanna og eitthvað er framundan, þá nær maður því alveg í fyrstu sekúndunum. Það er svo mikil spenna, gleði og fölskvalaus eftirvænting. Það er ofsalega gaman að upplifa það þó maður sé ekki beint þátttakandi.“