Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Raul Andre Mar Nacaytuna

Gestur Rapportsins er Raul Andre Mar Nacaytuna, hjúkrunarfræðingur á hjartadeild Landspítala. Raul er frá Filippseyjum og hefur búið á Íslandi frá árinu 2018. Viðtalið er á bæði íslensku og ensku.

Raul segir algengt að ungt fólk í Filippseyjum stefni á að flytja frá landinu. Hann átti ættingja sem höfðu flutt til Bandaríkjanna og Bretlands til að starfa sem hjúkrunarfræðinga og sá fram á að nám í hjúkrunarfræði yrði góð leið til að ná markmiðinu að setjast að annars staðar. Í hjúkrunarfræðináminu hans í Filippseyjum hófu 450 nemendur, af þeim útskrifuðust 146 og af þeim eru aðeins um tíu sem starfa á Filippseyjum.

„Það er frekar eðlilegt hlutfall. Flestir fara úr landi. Með tilkomu samfélagsmiðla þá get ég séð myndir af þeim sem voru með mér í námi í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Ég er sá eini úr árgangnum á Íslandi,“ segir hann.

Eitt helsta markmið Rauls í lífinu er að ná að vera sáttur. „Ég er mjög glaður að finna fyrir ánægju í lífi og starfi. Ég er að uppfylla það sem ég þrái að gera. Með því að vera hjúkrunarfræðingur þá get ég hjálpað fólki og unnið við það,“ segir hann. „Að hjálpa öðrum er að sýna mannúð, það er mjög mikilvægt að sýna samkennd á þessum tímum sem við lifum.“

Þegar kemur að veðri segir Raul það frískandi að vera á Íslandi samanborið við Filippseyjar. „Það eina sem truflar mig er myrkrið á veturna. Ég kvarta ekki undan kuldanum, þetta snýst um að klæða sig eftir aðstæðum, hætta að kvarta undan veðrinu og gera eitthvað,“ segir hann. „Ég er með góða rútínu sem gerir það að verkum að ég er hættur að spá í veðinu. Það er svo margt hægt að gera, bara ef við tökum líkamsræktarstöðvar þá er hellingur af námskeiðum og tímum í boði. Líkamsræktarstöðvar á Íslandi eru mjög góðar og ódýrar miðað við annars staðar.“