Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið – Ragnheiður Haraldsdóttir

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Ragnheiður Haraldsdóttir, formaður Öldungadeildar Fíh. Í haust eru liðin 50 ár frá því nám í hjúkrunarfræði hófst á háskólastigi.

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Ragnheiður Haraldsdóttir, formaður Öldungadeildar Fíh. Í haust eru liðin 50 ár frá því nám í hjúkrunarfræði hófst á háskólastigi hér á landi, Ragnheiður var í fyrsta hópnum.

„Það var mikið ævintýri og undarlegt að hugsa til baka að það séu liðnir fimm áratugir,“ segir Ragnheiður. „Þetta var mikið afrek á sínum tíma að koma þessu námi inn í háskólann og mikil barátta að baki, barátta sem hélt áfram til að tryggja stöðu námsins innan háskólans.“

Ragnheiður og Vilborg Ingólfsdóttir, sem útskrifaðist með henni á sínum tíma, munu flytja erindi á ráðstefnunni Hjúkrun 2023 í lok september um stofnun námsbrautarinnar. Fyrir rúmum þrjátíu árum ræddu þær við einstaklingana sem komu að stofnun námsbrautarinnar og útbjuggu greinargerð sem kynnt var á sínum tíma. Nú hafa þær endurskoðað hana með tilliti til fleiri gagna sem þær hafa aflað.

Fagið gjörbreyttist á stuttum tíma

Það var fjórtán manna hópur sem hóf námið haustið 1973, Ragnheiður segir tímann hafa verið mjög lærdómsríkan. „Við þurftum að takast á við allskyns hugmyndir og ranghugmyndir, við þurftum að standa í fæturna og svara fyrir hjúkrunarfræði í háskóla, sem við vorum rétt að kynnast.“

Á þessum tíma var þjóðfélagsumræðan að breytast, jafnréttishugsjónin óx fiskur um hrygg og arfleið 68‘ kynslóðarinnar skila sér inn í háskóla, þannig sköpuðust réttar aðstæður. „Það var mikill skortur á hjúkrunarfræðingum og Íslendingar fengu ráðgjöf frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni um að þetta væri besta leiðin fyrir okkur,“ segir hún. „Það voru svona atriði sem gerði það kleift að opna þessa nýju námsbraut.“

Þegar litið er til baka hafði þessi breyting mikla þýðingu. „Það hafði í för með sér mikla breytingu á sýn hjúkrunarfræðinga á eigin starfsvettvang,“ segir Ragnheiður. „Ég tel að fagið hafi gjörbreyst á skömmum tíma. Þegar breytingar verða miklar og hraðar má gera ráð fyrir að það hafi í för með sér átök. Það urðu átök. Við horfumst í augu við það í dag þegar við hittumst að við lentum í ýmsu. Þegar upp er staðið þá held ég að mikill meirihluti, eða nær allir hjúkrunarfræðingar í dag, að þetta sé rétti staðurinn fyrir menntun hjúkrunarfræðinga. Ég held að flestir, eða nær allir, taki undir það að fagið hafi styrkts verulega, þó okkur finnist oft hjúkrunarfræðin vera sett skör lægra í almennri umræðu, þá er hún þó miklu sterkari en ella væri.“

Heilbrigðisþjónustan mikilvægust

Ragnheiður kom víða við í klínkinni, hún vann meðal annars í Vestmannaeyjum, gjörgæsludeild Landspítala og hjartadeild á Borgarspítalanum. Hún fór svo í framhaldsnám til Bandaríkjanna.

Snemma á tíunda áratugnum hóf hún störf í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. „Maður fær mikla yfirsýn, það er nauðsynlegt að fylgjast vel með og það voru ekki margir fréttatímar sem maður sleppti, heilbrigðismálin voru í brennidepli eins og alltaf. Það var ekki margt sem manni fannst óviðkomandi,“ segir hún. „Ég er hjartanlega sammála því mati íslensku þjóðarinnar sem birtist núna í skoðanakönnunum að það mikilvægasta er heilbrigðisþjónustan.“

Ragnheiður var forstjóri Krabbameinsfélagsins í sex ár. „Á þessum sex árum tók maður margan slaginn eins og gefur að skilja. Krabbameinsfélagið er sterkt, það er sterkt því málefnið er svo mikilvægt og gott. Það hefur verið haldið vel á spöðunum þar,“ segir hún. „Þeir sem greinast með krabbamein hér á landi eru gæfusamir að því leyti að hér er félag eins og Krabbameinsfélagið, staður eins og Ljósið, Göngum saman, Styrktarfélag krabbameinsveikra barna, það er vilji til þess af hálfu almennings í landinu að leggja af mörkum til þess að bæta hag þessa hóps. Mér fannst stórkostlegt að fá tækifæri til að vera hluti af þessu.“