Fagdeild öldrunarhjúkrunar hefur síðustu tvö ár staðið fyrir vinnudegi þar sem skoðaðar voru og settar fram hugmyndir um hvar tækifærin liggja í öldrunarþjónustu á Íslandi. Á vinnufundunum hefur verið leitast við að sameina krafta þverfaglegra hópa í að finna lausnir hvernig við fáum fleira fagfólk í stéttina einnig sem hvernig hægt er að bæta þjónustu eldra fólks.
Íris Dögg Guðjónsdóttir, formaður Fagdeildar öldrunarhjúkrunar og forstöðumaður hjúkrunar á Skjóli, segir að verið sé að vinna með niðurstöðurnar og skoða hvar hægt sé að koma þeim á framfæri. „Tækifærin eru á mörgum stöðum. Á fyrsta vinnudeginum árið 2024 fórum við yfir hvar styrkleikarnir og veikleikarnir liggja, hvernig við getum unnið með það og hvernig okkar framtíðarsýn er,“ segir hún.
Stór hópur tók þátt. „Það var fagráð öldrunar á Landspítala, fagráð Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Miðstöð í öldrunarfræðum, félagsliðar, iðjuþjálfar, kennarar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar og fleiri. Það var magnað að sjá allt þetta fólk koma saman og hvað hægt er að gera,“ segir Íris. „Það helsta sem kom var markaðssetning, forvarnir, heilsuefling, hvernig hægt er að bæta starfsumhverfið, menntun og fræðsla, svo tækni og upplýsingagjöf. Út frá þessu ætlum við að koma á framfæri ákalli til fagfólks, við erum með Facebook-síðu sem heitir Tækifæri í öldrunarþjónustu þar sem ýmsir hópar koma með hugmyndir og hjálpast að.“
Meðal hugmyndanna sem komið hafa fram er að efla samstarf hjúkrunarheimila og leikskóla. „Að leyfa ungu krökkunum að vera með á heimilunum og byrja strax að kynna öldrun, gera þetta eðlilegt. Það er eðlilegt að eldast. Eins kom fram að koma inn í framhaldsskólana einhverju fagi þar sem hægt er að fá einingar til að koma á hjúkrunarheimili eða í heimahjúkrun og kynnast starfinu. Við þurfum að sýna þetta meira.“
Umræðan um öldrunarþjónustu sé oft neikvæð eða á villigötum, þessu stendur til að snúa við. „Til dæmis er Eir endurhæfing að útskrifa 380 manns á ári, aftur heim til sín. Við heyrum alltaf minna um þetta góða og með því að koma þessum hóp saman þá erum við að hjálpast að við að tala öldrunarþjónustu upp, því við erum að gera frábæra hluti en erum ekki nógu dugleg að segja þá upphátt,“ segir Íris. „Við viljum líka gera það aðlaðandi fyrir fólk að koma í hjúkrun og öldrun, gerum þetta kúl.“





