Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Sigurður Ýmir Sigurjónsson

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Sigurður Ýmir Sigurjónsson, teymisstjóri Geðheilsuteymis ADHD hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og ráðgefandi hjúkrunarfræðingur hjá Samtökunum ’78.

Í þættinum er rætt við Sigurð Ými um starf hans í Geðheilsuteymi ADHD, störf hans fyrir Samtökin ’78, fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk um málefni hinsegin fólks og bakslagið í garð réttindabaráttu hinsegin fólks síðustu misseri.

Sigurður Ýmir fylgdist með málefnum hinsegin fólks á meðan hann var í námi og hvernig birtingarmynd þeirra var í náminu sjálfu. „Það kom í ljós að þar var sjúkdómsmiðuð nálgun. Það var talað um samkynhneigða í tengslum við HIV, trans í tengslum við aðgerðir, intersex í tengslum við aðgerðir o.s.f.v. Þegar ég útskrifast þá ákvað ég að tala við Samtökin ’78 og spyrju hvort þau vilji ekki hafa hjúkrunarfræðing hjá sér sem væri hinseginvænn þar sem ég er sjálfur hinsegin. Þau tóku vel í það og kipptu mér strax inn í ráðgjafahópinn hér sér og buðu upp á að einstaklingar gætu nálgast mig varðandi heilbrigðisfræðslu,“ segir hann.

Sigurður Ýmir sá um ýmiskonar fræðslu en svo fór heilbrigðisstarfsfólk að spyrja hann út í sína nálgun varðandi hinsegin einstaklinga þar sem margir upplifðu óöryggi. „Ég sá það gegnum skínandi í gegnum námið hjá mér að það er engin fræðsla innan heilbrigðisvísinda um hinsegin einstaklinga sem gerir það að verkum að þegar við útskrifumst sem hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraþjálfarar eða hvað sem er það, þá höfum við bara með í farteskinu það sem við lærðum í grunnskóla eða það sem við sjáum í fréttamiðlunum eða í umræðunni í samfélaginu. Ef við fáum ekki fræðslu þá erum við fáfróð og af fáfræði koma fordómar.“

Vegferðin við að fræða heilbrigðisstarfsfólk um málefni hinsegin fólks hófst á Jafnréttisdögum og í kjölfarið hélt hann fyrirlestur fyrir nemendur í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Hefur hann nú náð til fjölmargra hjúkrunarfræðinga, lækna og sjúkraliða.

Auðvelt er að hafa samband við Sigurð Ými til að fá fræðslu um málefni hinsegin fólks.

„Ef þetta er einstaklingsfræðsla þá er best að nálgast mig inn á samtokin78.is, þá er fylltur út spurningaseðill sem er áframsendur til mín,“ segir hann. „Ef þetta er fræðsla til deildar eða stofnunar þá er best að senda mér póst á sigurdur@samtokin78.is.“