Gestur Rapportsins að þessu sinni er Steinunn Helga Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur sem lauk nýverið meistaranámi í mannauðsstjórnun. Steinunn hefur starfað á krabbameinsdeild Landspítala frá því hún var í námi. Nú í sumar kláraði hún lokaverkefni við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands sem skoðar birtingarmyndir fordóma og mismununar í garð kvenna í yfirþyngd á vinnumarkaði, verkefnið heitir „Ekki borða eins og úlfur í afmæli“: Birtingarmynd fordóma og mismununar gegn konum í yfirþyngd á íslenskum vinnumarkaði.
Rannsókn hennar, sem er eigindleg, hefur vakið mikla athygli. Steinunn tók viðtöl við sjö konur í ólíkum störfum á opinberum og almennum vinnumarkaði.
„Karlmenn virðast, samkvæmt öllum rannsóknum, ekki verða fyrir miklum fitufordómum fyrr en þeir eru orðnir virkilega feitir á meðan konur byrja margar að upplifa fordóma bara við það að vera komnar 15 til 20 kíló í yfirþyngd,“ segir hún.
Steinunn segir það stundum hafa verið átakanlegt að hlusta á frásagnirnar. Eina ástæðan fyrir því að þær urðu fyrir fordómum, sem oft var hægt að lýsa sem hörðu ofbeldi, var vegna þess að þær voru í yfirþyngd. „Það var ekki hægt að segja að þetta væri kannski út af einhverju öðru, yfirmennirnir voru stundum hreint og beint að segja; Nei, þú færð ekki þetta út af því að þú ert of feit. Það var bara sagt hreint út, það er ekki hægt að véfengja að það væri ástæðan.“
Sex af þeim voru búnar að grennast, ein þeirra var enn í aðstæðunum. „Ein meira að segja vann sig næstum því til dauða því að hún þurfti svo mikið að sanna sig að hún vann örugglega 300% vinnu, bara til að upplifa sig jafna á við hina. Svo fór hún í magaermi, grennist um rúm 60 kíló og hún segir að eftir það hafi hún loksins þorað að segja nei þegar hringt var í hana og hún beðin um að koma á vaktir. Án þess að hún væri minna metin af yfirmönnum.“
Erum ekki öll eins
Margt fólk í yfirþyngd heyrir reglulega athugasemdir sem settar eru fram í góðri trú, til dæmis hvatningar um að hreyfa sig eða breyta mataræði, slíkar athugasemdir verða þó yfirleitt til að brjóta viðkomandi niður. Almennt er óhollt að vera í yfirþyngd. „En það er til fólk sem er í yfirþyngd sem er mjög hraust, þú getur farið í ræktina á hverjum degi en samt verið í yfirþyngd. Svo getum við verið með mjög grannt fólk sem er kannski lágt á BMI en borðar mjög óhollan mat, tekið í vörina og lifað mjög óhollum lífstíl, en það fólk er ekki að fá stanslausar athugasemdir um útlitið,“ segir hún.
„Það má tala um þetta en þegar við tölum um þetta þá er það til að beina fólki á það að hvernig það á að laga þetta. Ekki til að viðurkenna það að við erum öll mismunandi. Það er meira til að segja fólki að það geti lagað þetta, geti farið í aðgerð eða geti tekið einhver sykursýkislyf. Það er aldrei meðtekið að við erum ekki öll eins, þá verður þetta svolítið tabú.“
Allir eiga skilið að láta koma fram við sig af virðingu
Steinunn fjallaði ekki um sérstaklega um langtímaáhrifin, konurnar sem hún ræddi við voru allar tiltölulega ungar og stutt síðan atvikin áttu sér stað. „Þær voru að vinna með kvíða, þunglyndi, áfallastreitu, mjög lágt sjálfsálit, mjög lágt sjálfstraust,“ segir hún. „Tvær höfðu upplifað mjög slæmt fæðingarþunglyndi sem þær gátu tengt beint við þetta. Á öðrum meðgöngum höfðu þær ekki upplifað fæðingarþunglyndi, þær höfðu orðið fyrir aðkasti tengt ofþyngd og meðgöngunni. Þetta er ekki bara þannig að þú lendir í einhverju í vinnunni og ferð svo bara heim og allt er í góðu, þetta brýtur fólk alveg kerfisbundið niður hvort sem það tekur langan eða stuttan tíma.“
Hún vonast til að rannsóknin leiði til góðs. „Vonandi kemur þetta umræðunni upp á yfirborðið vegna þess að það er alveg sama hvernig maður lítur út, hvað maður er þungur eða hvaða fatastærð maður notar, maður á alltaf skilið að láta koma fram við sig af virðingu.“
Er eitthvað sem hjúkrunarfræðingar gætu gert í sínum störfum?
„Hjúkrunarfræðingar, eins og allar aðrar stéttir, þurfa að vera meðvitaðir um að þetta er til staðar. Hjúkrunarfræðingar eru eins mismunandi og þeir eru margir. Vera móttækilegir fyrir því að það eru kannski einhverjir í yfirþyngd sem eru ekki skjólstæðingar eða samstarfsmenn, koma fram við alla eins og maður vill að það sé komið fram við sjálfan sig. Muna líka að dæma ekki fólk út frá útlitinu.“
Það er hægt að leiðbeina fólki. „Gera það í réttum aðstæðum og gera það á réttan hátt, þegar fólk er tilbúið að heyra það. Þegar það leitar til manns um hvernig það getur grennt sig. Velja sér stað og stund.“