Fara á efnissvæði
Frétt

Samstaða með aðgerðum hjúkrunarfræðinga í Svíþjóð

Hjúkrunarfræðingar í Svíþjóð munu á næstunni taka þátt í aðgerðum til að knýja á um bætt kjör.

Fíh lýsir yfir fullum stuðningi við aðgerðirnar sem fela í sér yfirvinnubann rúmlega 63 þúsund félagsfólks um allt landið ásamt ráðningastöðvun. Vårdförbundet, heildarsamtök heilbrigðisstétta í Svíþjóð, hefur sent Fíh bréf þar sem óskað er eftir stuðningi og þess óskað að hjúkrunarfræðingar frá Íslandi fari ekki til starfa í Svíþjóð á meðan aðgerðunum stendur.

Aðgerðirnar hefjast fimmtudaginn 25. apríl næstkomandi kl. 16:00 á sænskum tíma.

Sineva Ribeiro, hjúkrunarfræðingur og formaður Vårdförbundet samtakanna, segir í tilkynningu að aðgerðirnar séu nauðsynlegar. „Við höfum ítrekað á fundum okkar, sett fram kröfur um sjálfbær kjör í fullu starfi og nýtt starfsmat. Tilboðið sem við höfum fengið frá samningsaðilum okkar dugar ekki til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í sænsku heilbrigðiskerfi. Fólk deyr á meðan það bíður eftir þjónustu og starf okkar er sífellt erfiðara,“ segir hún.

Þegar aðgerðirnar hefjast má félagsfólk ekki vinna yfirvinnu og ekki má ráða inn félagsfólk úr Vårdförbundet samtökunum. „Okkar félagsfólk vann í fyrra samtals 3 milljónir yfirvinnustundir, einn þriðji af okkar félagsfólki vinnur reglulega yfirvinnu, það segir okkur að kerfið er ekki í lagi,“ segir Sineva. Ekki var fallist á endurnýjun kjarasamnings í desember síðastliðnum. „Við viljum einfaldlega að launin verði hækkuð í samræmi við aðra, við viljum fá sjálfbærar vaktatöflur og fjórar samfelldar vikur í sumarorlof.“

Mælist Fíh til þess að íslenskir hjúkrunarfræðingar ráði sig ekki í vinnu á þeim stöðum sem aðgerðirnar ná til, svo ekki verði grafið undan aðgerðunum.