Félag færeyskra hjúkrunarfræðinga, Felagið Føroyskir Sjúkrarøktarfrøðingar, hóf verkfallsaðgerðir 2. október síðastliðinn. Fulltrúar þeirra hafa átt í viðræðum við fjármálaráðuneyti Færeyja síðustu mánuði án árangurs. Hefur það verið skýr vilji af hálfu þeirra að reyna að forðast verkfall en þar sem stjórnvöld hafa ekki viljað gefa neitt eftir var verkfall eina sem var eftir í stöðunni. Á meðan á verkfallsaðgerðum hefur staðið hefur lágmarksþjónustu verið sinnt en því miður hafa lítil sem engin viðbrögð enn borist frá stjórnvöldum.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hefur sent eftirfarandi bréf til Felagið Føroyskir Sjúkrarøktarfrøðingar fyrir hönd Fíh:
Kæru hjúkrunarfræðingar í Færeyjum.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) stendur með ykkur. Við sýnum ykkur fulla samstöðu í þessari erfiðu baráttu. Ykkar barátta er okkar barátta.
Það er alþjóðlegt vandamál að hjúkrunarfræðingar fá ekki laun í samræmi við álag og ábyrgð. Betri kjör og viðunandi starfsaðstæður í heilbrigðiskerfinu eru nauðsynlegar fyrir hjúkrunarfræðinga og gæði heilbrigðisþjónustunnar.
Fíh hvetur færeysk stjórnvöld til að semja án tafar.