Fara á efnissvæði
Frétt

Samstaða með hjúkrunarfræðingum í Bandaríkjunum

Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga (ICN), Evrópusamtök hjúkrunarfræðinga (EFN) og Bandalag hjúkrunarfræðifélaga á Norðurlöndum (NNF) lýsa yfir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á bandarískum lögum um lánareglum til framhaldsnáms þar í landi og hvaða áhrif þær munu hafa á framhaldsnám í hjúkrunarfræði og framtíð hjúkrunarfræðinnar.

Ljóst er að ef breytingar á lánareglunum munu ná fram að ganga í Bandaríkjunum muni það hafa víðtæk áhrif á heilbrigðiskerfið á heimsvísu. Hjúkrunarfræði er fag sem byggir á akademískri þekkingu, klínískri sérhæfingu og siðfræðilegum grunni. Um allan heim standa heilbrigðiskerfi frammi fyrir sögulegum skorti á hjúkrunarfræðingum og auknum kröfum um þjónustu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) hefur ítrekað bent á að starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga er stöðugt flóknara og að fjárfesta þurfi í menntun, starfsþróun og stuðningi við hjúkrunarfræðinga og þá hafi COVID-19 afhjúpað þörf fyrir viðtækari menntun og hæfni hjúkrunarfræðinga.

Í yfirlýsingum ICN, EFN og NNF er lögð áhersla á að framhaldsnám í hjúkrunarfræði sé lykilforsenda fyrir öflugu heilbrigðiskerfi, stuðningi við næstu kynslóð hjúkrunarfræðinga og bættri heilsu sjúklinga.

ICN hvetur til samstöðu með hjúkrunarfræðingum í Bandaríkjunum og varar við því að þessar breytingar muni hafa neikvæð áhrif bæði á hjúkrunarfræðinga og sjúklinga. Einnig bendir ráðið á að ákvörðun af þessu tagi í stórveldi eins og Bandaríkjunum geti haft áhrif langt út fyrir landamæri þess. Í yfirlýsingu EFN kemur fram að á meðan Evrópa vinnur markvisst að því að styrkja menntun hjúkrunarfræðinga, virðist Bandaríkin ætla að ganga í öfuga átt og veikja menntun stéttarinnar.

Bandalag hjúkrunarfræðifélaga á Norðurlöndum (NNF) hefur sent bréf til bandaríska menntamálaráðuneytisins þar sem það hvetur stjórnvöld til að falla frá fyrirhuguðum lagabreytingum sem gætu haft víðtæk og neikvæð áhrif á hjúkrunarfræði. NNF lýsir jafnframt yfir samstöðu með hjúkrunarfræðingum í Bandaríkjunum og hvetur norræn stjórnvöld til að nýta pólitískan og diplómatískan vettvang sína til að styðja við áframhaldandi viðurkenningu á hjúkrunarfræði sem faggrein á heimsvísu.