Texti: Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman
Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Sandra útskrifaðist með B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði úr Háskóla Íslands árið 2010, bætti svo við sig meistaragráðu í lýðheilsuvísindum við sama háskóla þegar námsþorstinn gerði aftur vart við sig tæpum áratug síðar. Hún kynntist fyrst vinnu með einstaklingum með átraskanir í verknámi í geðhjúkrun.
„Þá var átröskunarteymið til húsa á jarðhæð geðdeildarbyggingarinnar á Hringbraut. Ég fékk líka að fara aðeins á Hvítabandið þar sem DAM-meðferðin var veitt á þeim tíma og einhverja daga var ég á bráðaþjónustu geðsviðs. Við nemarnir fengum nánast ekkert að gera, fengum ekki að vera með í viðtölum og gátum þannig ekki kynnst starfi hjúkrunarfræðinga neitt að ráði. Ég man að verknámið kveikti alls engan áhuga hjá mér að starfa á geðsviði. Ég veit að síðan ég var í mínu grunnnámi hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag vil ég trúa því að nemarnir sem koma til okkar í göngudeildarteymin fái margir hverjir áhuga á geðhjúkrun,“ segir hún einlæg.
Þegar Sandra var á lokaárinu í hjúkrun fór hún samhliða námi að starfa á smitsjúkdóma- og meltingardeild en þangað kom gjarnan fólk með vímuefnavanda:
„Þar fékk ég smjörþefinn af geðinu og áttaði mig á að það væri kannski ekki svo galið að skoða geðhjúkrun sem mögulegan starfsvettvang.“ Í mars á útskriftarárinu eignaðist Sandra sitt fyrsta barn og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur þremur mánuðum síðar.
Hún segir þetta tímabil vera í hálfgerðri móðu. „Einhvern veginn tókst mér þetta en ég get ekki sagt að ég muni mikið eftir vormánuðunum þetta ár 2010,“ segir hún og hlær.
Frá heila- og taugadeild á sérhæfða endurhæfingargeðdeild
Nýbakaða móðirin sneri svo aftur til vinnu, í þetta sinn á heila- og taugadeild Landspítala þar sem hún starfaði næstu sjö árin og undi hag sínum prýðilega þar til hún rak, einn góðan veðurdag, augun í starfsauglýsingu frá sérhæfðri endurhæfingargeðdeild (SEG) á Kleppi sem þjónustaði ungt fólk með geðrofssjúkdóma og vímuefnavanda:
„Ég man eftir að hafa hugsað með mér að þetta hlyti að vera spennandi starf og ákvað að sækja um. Þar var ég í tvö ár þar til önnur auglýsing um starf í átröskunarteyminu greip mig og það kveikti virkilega í mér. Þetta var sumarið 2020 og hér er ég enn.“
Málefni tengd vímuefnavanda eru Söndru hugleikin en hún gerði meistararannsókn sína í lýðheilsuvísindum um tengsl áfalla í æsku við vímuefnavanda meðal kvenna á Íslandi. Rannsókn Söndru var til 60 eininga og hún nýtti gögn úr áfallasögu kvenna, stóru rannsókninni sem Dr. Unnur Valdimarsdóttir prófessor hefur leitt.
Mikil skörun milli áfalla og geðrænna áskorana
Sandra segist í gegnum starf sitt sjá mikla skörun milli áfalla og geðrænna áskorana.
„Fólkið sem við þjónustum í átröskunarteyminu er oft með einkenni sem geta átt rót sína í áföllum og vímuefnavandi er líka algengur. Ég væri alveg til í að læra áfallameðferð. Tilfinningalegur óstöðugleiki er líka til staðar hjá mjög mörgum og þá kemur sér vel að við erum í farsælli sambúð í risinu á Kleppi með DAM-teyminu, þar sem sérhæfð meðferð er veitt við alvarlegum tilfinningavanda. Mikil samvinna er milli teymanna og við gerum okkar besta til að finna lausnir sem henta fólkinu okkar. Það er svo mikilvægt að kerfið hafi ákveðinn sveigjanleika í stað þess að við ætlumst til þess að skjólstæðingar okkar, sem eru í mikilli þjáningu, eltist við duttlunga þess. Þarna finnst mér styrkleiki geðhjúkrunar koma ótrúlega skýrt fram – að geta farið út úr boxinu og hafa kjark til þess. Við eigum að geta lagað meðferð að þörfum viðkvæmra skjólstæðinga í stað þess að vera algjörlega föst í kössum prótókolla.“
Átröskunarteymið hafði verið án hjúkrunarfræðings í heilt ár
Átröskunarteymið er þverfaglegt göngudeildarteymi innan meðferðareiningar lyndisraskana. Teymið er þverfaglegt en innan þess starfa auk Söndru annar hjúkrunarfræðingur, sálfræðingar, atferlisfræðingur, næringarfræðingur, geðlæknir og ráðgjafi.
Flestir í þjónustu teymisins mæta í meðferðarviðtöl á göngudeild en ákveðinn hluti skjólstæðinga þarf meiri þjónustu og mætir á dagdeild. Á dagdeild eru máltíðir og máltíðarstuðningur mikilvægur þáttur þjónustunnar en einnig gefst þá möguleiki til þéttari viðtala og aðkomu fleiri fagaðila.
Stundum er þörf á innlögnum vegna átröskunarvanda og þá vinnur teymið með innlagnardeildum á geðdeildinni á Hringbraut eða geðendurhæfingardeild á Kleppi. Þegar Sandra kom til starfa í teyminu hafði það verið án hjúkrunarfræðings í um það bil ár á undan.
Sandra segir það hafa verið áskorun: „Í raun vissi ég lítið um hvernig ég átti að vera eða hvað ég átti að gera. Ég þurfti tíma til að finna mitt hlutverk innan teymisins. Það reyndi mest á að finna hver sérstaða hjúkrunar átti að vera innan teymisins, hvernig hlutverk hjúkrunarfræðings til dæmis var ólíkt hlutverki sálfræðings. Það var oft mikil áskorun fyrir mig að koma inn í mál þar sem geðrænn vandi var margþættur og kannski nauðsynlegt að fara í flóknar mismunargreiningar. Því hafði ég enga þjálfun í. Á hinn bóginn voru mínir styrkleikar greinilegir þegar kom að líkamlegum vanda skjólstæðinga. Það voru mál sem höfðu dálítið týnst í teyminu á tímanum sem enginn hjúkrunarfræðingur var til staðar. Blóðþrýstingsmælirinn hafði til dæmis týnst löngu áður en ég mætti á svæðið,“ útskýrir hún.
Tímabært að hjúkrunarfræðingar í geðþjónustu hafi aðgang að klínískri handleiðslu
Sandra segist mögulega hafa haft helst til mikinn metnað þegar hún hóf störf í teyminu: „Ég var ákveðin í að taka hvern einasta skjólstæðing í teyminu í vandlegt heilsufarsmat, en komst fljótt að því að það væri alls ekki raunhæft.“
Júlíana Guðrún Þórðardóttir sem í dag hefur tekið við hlutverki annars forstöðuhjúkrunarfræðings geðþjónustu var á þeim tíma deildarstjóri á göngudeild lyndisraskana og reyndist Söndru vel: „Það var ótrúlega mikilvægt fyrir mig að hafa hana og líka ómetanlegt að njóta handleiðslu Bjargar Guðmundsdóttur geðhjúkrunarfræðings. Ég gat tekið upp mál og alls kyns klínísk úrlausnarefni og borið undir hana. Mér finnst löngu tímabært að hjúkrunarfræðingar í geðþjónustu hafi aðgang að klínískri handleiðslu frá þeim sem reyndari eru og fagna því sannarlega að nýju forstöðuhjúkrunarfræðingarnir okkar ætli að gera skurk í þeim málum.“
Meðferðin sem veitt er í átröskunarteymi byggist á HAM en upphafsmaður hennar, Glenn Waller, hefur einmitt handleitt teymið undanfarin misseri:
„Ég fékk þjálfun í meðferðinni og var fljótlega farin að taka skjólstæðinga í tíu tíma HAM-meðferð við átröskun. Smám saman hefur hæfni mín aukist og ég er þannig farin að taka að mér flóknari mál líka. Reynsla mín af SEG og sú þjálfun sem ég hafði fengið þar í samtalstækni var mjög mikilvæg. Það var líka mjög hjálplegt að hafa bakgrunn af legudeildum spítalans, þekkja boðleiðir, umhverfið og ólíka þjónustu. Geðkerfið er svo alveg sér á báti og mjög mikilvægt að fagfólk í göngudeildarþjónustu þekki það vel. Fólk þarf oft að sækja sér þjónustu á ólíkum stöðum í kerfinu, til dæmis í geðheilsuteymum, á heilsugæslu eða hjá mismunandi meðferðaraðilum á stofum. Því betur sem við þekkjum króka og kima kerfisins, því betur gengur okkur að tryggja samfellu í þjónustu fyrir okkar skjólstæðinga. Það er ekkert gaman að upplifa sig týndan í óskiljanlegu kerfi þegar líðanin er slæm og við getum sannarlega dregið úr þjáningu með því að leggja okkur fram.“
Verkefni hjúkrunarfræðinga í átröskunarteymi eru fjölbreytt:
Meðferðarviðtöl
Heilsufarsviðtöl og heilsufarsmat (allir skjólstæðingar á dagdeild)
Fræðsla fyrir aðstandendur
Stuðningur í máltíðum og eftir máltíðir
Sjúklingafræðsla
Samvinna við innlagnadeild
Fræðsla og kennsla (t.d. íþróttaþjálfarar, hjúkrunarnemar, geðsjúkraliðanemar)
Umbótaverkefni (t.d. gerð fræðsluefnis, þróun verklags, þróun apps sem skjólstæðingar nota til að skrá matarinntekt)
Stuðningur við önnur sérhæfð teymi innan geðþjónustu
Innlagnir skjólstæðinga átröskunarteymis er hjúkrunarleitt umbótaverkefni sem felst í samvinnu teymisins við geðendurhæfingardeildina á Kleppi. Eitt pláss á deildinni er þannig merkt átröskunarteyminu og notað fyrir einstaklinga sem eru í mikilli þörf fyrir aukinn stuðning til að geta sinnt meðferð vegna átröskunarvanda. Þétt samvinna milli teymisins og legudeildarinnar hefur verið lykilatriði í þeim árangri sem verkefnið hefur skilað. Teymið stýrir meðferð þeirra sem nýta sér innlagnir og sér einnig um kennslu og stuðning við starfsfólk deildarinnar.
Dæmigerður dagur hjá hjúkrunarfræðingi í átröskunarteymi:
Stöðumatsfundur teymis – farið yfir daginn, hverjir eru að koma á dagdeild, hvaða fundir eru á dagskrá o.fl.
Máltíðastuðningur í morgunmat, hádegismat og síðdegisbita – stuðningur við skjólstæðinga bæði í máltíðum og eftir þær.
Viðtöl – heilsufarsviðtöl, meðferðarviðtöl, fjölskylduviðtöl
Eftirfylgd með niðurstöðum rannsókna – blóðprufur, hjartalínurit o.fl. og samráð við lækni teymis.
Samskipti við innlagnardeildir ef einhver í þjónustu teymis liggur inni.
Framtíðarsýn og umbótatækifæri:
Þróun á innihaldi dagdeildar – erum að vinna í samskiptum við erlenda tengiliði.
Bætt þjónusta við aðstandendur – erum nýlega byrjuð aftur með fasta aðstandendafræðslu tvisvar á önn.
Áframhaldandi þróun rafrænna lausna – búið er að gera matardagbók rafræna, verið að vinna í rafrænum spurningalistum sem auðveldar fjarmeðferð.
Skerpa verklag í tengslum við reglulegt heilsufarsmat.
Algeng mýta varðandi átröskunarsjúkdóma er að allir sem eru með átröskun séu í undirþyngd. Raunin er hins vegar sú að flestir sem greinast með átröskun eru í eða yfir kjörþyngd. Þetta segja bæði innlendar og erlendar tölur. Þetta gerir það að verkum að fólki finnst það oft ekki nógu veikt til að leita sér aðstoðar.
Helstu átraskanir sem unnið er með hjá átröskunarteymi Landspítala:
- Lystarstol (e. anorexia nervosa) - Lotugræðgi (e. bulimia nervosa)
- Lotuofát/átkastaröskun (e. binge eating disorder)
- Átröskun ótilgreind (e. other specified feeding or eating disorder)
- ARFID sem stendur fyrir Avoidant, restrictive food intake disorder en heitið hefur ekki enn þá verið íslenskað.