Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Sigríður Indriðadóttir

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Sigríður Indriðadóttir hjá Saga Competence.

Sigríður Indriðadóttir hjá Saga Competence hefur lengi starfað við mannauðsmál og hefur haldið mörg námskeið um meðvirkni á vinnustöðum.

„Það sem við þurfum að æfa okkur í er að setja heilbrigð mörk í kringum okkur,“ segir Sigríður.

„Ég veit að það eru margar flóknar ástæður og það er flókið samspil sem býr þetta til, fjármagn er eitt, stjórnun er annað, það er ýmislegt fyrirkomulag eða verklag sem getur haft áhrif. Það eina sem við getum gert ein og sér er að huga að okkur, hvar liggja mín mörk? Án gríns, ef það er endalaust verið að láta höfða til samviskunnar okkar, erum endalaust að mæta umfram það sem við höfum raunverulega orku til að gera, bæði líkamlega og andlega, þá erum við að ganga á okkar eigin forða og auka líkurnar á því að við sjálf verðum skjólstæðingar heilbrigðiskerfisins.“

Hefur hún gott ráð fyrir hjúkrunarfræðinga, sem og aðra, til að koma sterkari til baka úr sumarfríi. Sigríður mælir með að fara á stefnumót með sér sjálfum. „Það er rosalega gaman að fara á kaffihús niðri í bæ, eða úti í sveit, eða hvar sem maður er staddur, og fara á deit með sjálfum sér. Taka með bók, blað, iPad eða tölvu, og skoða leiðir til að koma sterkari til baka,“ segir hún. „Hvaða topphegðun kemur mér raunverulega í mark? Og hvaða botnhegðun, andstaðan við topphegðun, hamlar því að ég komi sterkari til baka?“

Nefnir hún dæmi um það sem hægt er að ákveða á stefnumótinu. „Vel ég mér að næra mig vel? Hreyfa mig? Vel ég að æfa mig í því að setja heilbrigð mörk í kringum mig?“