Dr. Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og dósent við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, er gestur Rapportsins að þessu sinni.
Í Rapportinu ræðir Sigrún um áföll. „Það er ekki bara atburðurinn sem slíkur heldur hvaða áhrif það hefur á þig og hvernig afleiðingarnar koma fram,“ segir hún. Einnig áhrif sálrænna áfalla sem geta verið líkamleg eins og til að mynda stoðkerfisvandamál, langvinnir verkir, hjartasjúkdómar og öndunarfærasjúkdómar. Það á einnig við um geðræn vandamál eins og þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun, persónuleikaröskun og fíknivandi.
Sigrún ræðir einnig um persónulegu hliðina. „Ég er mjög andlega sinnuð. Ef ég hefði ekkert hugsað um að mennta mig, þá hefði ég líklega orðið spákona. Kíkja í bolla og tarotspil og svona, það er ég,“ segir hún.
Sigrún hafði lokið einu ári í hjúkrunarnámi þegar hún fékk sumarstarf í lögreglunni, þaðan lá leiðin í Lögregluskóla ríkisins og starfaði Sigrún í lögreglunni í sjö ár.
„Ég var ekki að hugsa mér að hætta í löggunni, mér fannst þetta mjög skemmtilegt starf.“ Í byrjun árs 1995 fór hún til Vestmannaeyja til að starfa í lögreglunni. „Svo gerist það á Páskadag, þá var ég á vaktinni, ég var í kaffi hjá vinkonu minni og fæ skilaboð um að fimm ára drengur væri týndur í bænum. Ég fer að leita og held að hann hafi skroppið eitthvað,“ segir hún.
„Svo kemur tilkynning um að föt hafi fundið á klöppinni við hafið, ég fer þangað.“ Björgunarbátur var kallaður út og margir fylgdust með leitinni. „Björgunarbáturinn stoppaði, kafari stökk út í og það sáu allir að þeir fundu eitthvað.“ Faðir drengsins var í hópnum sem fylgdist með.
„Ég hef mikinn áhuga í dag á annars stigs áföllum, sem viðbragðsaðilar verða oft fyrir í starfi og fatta ekki alltaf að þeir hafi orðið fyrir áfalli,“ segir hún. „Ég áttaði mig ekki á því að ég hafi orðið fyrir áfalli þarna.“ Þetta mál var ekki rætt frekar. Sigrún hætti í lögreglunni um haustið og fer aftur í hjúkrun. Það var ekki fyrr en seinna sem hún áttaði sig á því hversu mikið áfallið var.”
Áhugavert og einlægt spjall við Dr. Sigrúnu um áhrif sálrænna áfalla, úrræði og ACE – listann sem hún segir mikilvægt að koma sem víðast í heilbrigðiskerfið.