Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur er verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis. Guðrún er einn höfunda greinarinnar hér undan; Sjálfsvíg meðal eldra fólks: Hlustum, horfum, metum, bregðumst við, finnum lausnir og fylgjum eftir. Þetta er málefni sem snertir okkur flest, ef ekki öll með einhverjum hætti einhvern tíma á lífsleiðinni. Til að kafa dýpra, vita meira og hafa bjargráð til að bregðast við ef sjálfsvíg verður fékk ég Guðrúnu í spjall í Sigríðarstofu á haustlegum mánudagsmorgni.
Guðrún Jóna fór fyrst að vinna að sjálfsvígsforvörnum hjá embætti landlæknis árið 2021. Hún var til að byrja með ráðin tímabundið í verkefnið því staðan var þá fjármögnuð tímabundið. „Það var ekki fyrr en árið 2023 sem þáverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, ákvað að setja fast fjármagn í sjálfsvígsforvarnir og Lífsbrú – miðstöð sjálfsvígsforvarna, var stofnuð. Miðstöðin er nokkurs konar hattur yfir sjálfsvígsforvarnir hjá embætti landlæknis og tilgangurinn með Lífsbrú er að sjálfsvígsforvarnir verði sýnilegri almenningi,“ útskýrir hún og nefnir dæmi í því samhengi: „Verkefnastjórnun verkefnisins Gulur september, sem mörg þekkja, er til að mynda hjá Lífsbrú. Vitundarvakningin á að vekja athygli á geðrækt og sjálfsvígsforvörnum og stendur frá 1. sept. til 10. október. Þannig falla tveir alþjóðlegir dagar tengdir málefninu inn í tímabilið; alþjóða geðheilbrigðisdagurinn sem er 10. október og alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga sem er 10. september. Átakið hefur vaxið með hverju árinu, ný vefsíða varð til á árinu (gulurseptember.is) með dagatali, verslun og efni um geðrækt og sjálfsvígsforvarnir. Fjöldi viðburða tengdir geðrækt og sjálfsvígsforvönum eru einnig haldnir til að ýta undir vitundarvakningu um þessi mál í samfélaginu,“ segir hún og það er óhætt að segja að verkefnið hafi vakið athygli á mikilvægi geðræktar og sjálfsvígforvörnum.
Jákvæð umfjöllun getur dregið úr tíðni sjálfsvígshegðunar
Guðrún vill meina að fordómar fari minnkandi og segir aðspurð að umræðan um sjálfsvíg sé ekki eins mikið tabú í dag og fyrir bara áratug síðan. „Umræðan hefur opnast mikið síðustu ár en það skiptir miklu máli hvernig talað er um sjálfsvíg. Eitt sem við gerðum í ár var að gefa út, í samvinnu við fjölmiðlafólk og fleiri, ráðleggingar um hvernig á að fjalla um sjálfsvíg í fjölmiðlum. Þá varðandi orðræðuna, orðnotkun og fleira og þá er einnig lagt til að fjalla um stuðningsúrræði með umfjöllunum um sjálfsvíg,“ segir hún og sýnir ritstýrunni þessar ráðleggingar. Þar segir t.a.m:
Fjölmiðlar geta miðlað nýrri þekkingu í sjálfsvígsforvörnum og mögulega komið í veg fyrir sjálfsvíg með því að koma mikilvægum og hjálplegum upplýsingum til skila.
Með aukinni þekkingu hafa leiðbeiningar til fjölmiðla verið gefnar út víðs vegar um heiminn og hafa sumar rannsóknir sýnt fram á að dregið hafi úr sjálfsvígstíðni í kjölfar útgáfu þeirra. Undanfarin ár hafa fleiri rannsóknir skoðað jákvæð áhrif umfjöllunar í fjölmiðlum og gefa þær til kynna að birtar frásagnir af einstaklingum sem fundu leið úr sínum erfiðleikum og sjálfsvígshugsunum, geti dregið úr tíðni sjálfsvígshegðunar.
„Það hefur lengi verið mýta að það að fjalla um sjálfsvíg geti aukið tíðni þeirra. Í dag vitum við betur. Ef umfjöllunin er til dæmis á þá leið að hún fjallar um bata eða úrræði fyrir fólk í vanlíðan þá getur hún haft öfug áhrif. Aðilar sem voru á erfiðum stað gátu þá frekar reynt sömu úrræði með von um betri líðan. Þannig getur umfjöllun mögulega fækkað sjálfsvígum, það styðja rannsóknir. Við viljum líka tala um sjálfsvíg á yfirvegaðan hátt, ekki í æsifréttastíl og ekki þannig að lesandinn upplifi að sjálfsvíg sé raunhæf leið út úr vanlíðan eða lausn á vandamáli.“
Hún segir að tölurnar sýni að sjálfsvígum sé ekki að fjölga hér á landi. „Það voru 48 sjálfsvíg árið 2024 eða 12,4 á hverja 100.000 íbúa. Meðaltalið sl. fimm ár (2020-2024) er 42,8 sjálfsvíg á ári eða 11,5 á hverja 100.000 íbúa. Við missum of marga, það er sorgleg staðreynd, en í samanburði við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum erum við á svipuðu róli og Norðmenn og Svíar. Finnar hafa verið fyrir ofan okkur með fleiri sjálfsvíg og Danir eru fyrir neðan okkur með færri.“

Skömmin enn til staðar
Guðrún Jóna hefur sjálf upplifað að missa nákominn í sjálfsvígi því fyrir 15 árum, í janúar árið 2010 missti hún son sinn Orra Ómarsson sem þá var aðeins 16 ára.
Finnst þér umræðan vera öðruvísi og opnari í dag en þegar þú varðst fyrir þessu mikla áfalli?
„Já, hún er opnari en það er samt sem áður enn þá ákveðin skömm yfir sjálfsvígum og ástæðan er líklega söguleg; kirkjan bannaði sjálfsvíg á miðöldum og eigur fólks sem lést í sjálfsvígi voru gerðar upptækar og fólk jafnvel grafið utan kirkjugarða. Þetta átti að vera leið til að fækka sjálfsvígum,“ útskýrir hún og í dag þætti þetta galin forvarnarleið sem segir okkur að umræðan sé í rétta átt. „Skömmin kemur þaðan og þótt mörg lönd séu að sinna sjálfsvígsforvörnum þá er staðreyndin samt sú að sjálfsvíg er talið vera glæpur í yfir 20 löndum í heiminum. Og svo er það sektarkenndin, sem bæði fagaðilar og nákomnir ganga í gegnum þegar sjálfsvíg verður, þegar fólk fer að efast um að hafa gert nóg. Það hefði mögulega getað komið í veg fyrir þennan harmleik. Það er flókið.
Þegar ég missti minn son vorum við heppin með stuðning í kjölfarið. Ég fékk viðtal við hjúkrunarfræðing, Rudolf Adolfsson, sem hjálpaði mér að vinna með myndina af því ég kom að syni mínum látnum. Svo vorum við með frábæran prest, séra Braga Ingibergsson sem veitti okkur sálgæslu, hann var eins og grár köttur heima hjá okkur. Ég fór svo í stuðningshóp hjá Sorgarmiðstöð sem hét þá Ný dögun. Að hitta aðra sem eru að fara í gegnum missi er svo mikilvægt í þessu sorgarferli. Hópnum var stýrt af prestunum Vigfúsi Bjarna Albertssyni og Halldóri Reynissyni sem eru snillingar og unnu dýrmætt starf. Þetta var í boði þegar sonur okkur lést og við hjónin vorum heppin að mér var bent á að þarna væri hægt að fá aðstoð í þessum erfiðum sporum.
Það var ekkert lesefni, enginn bæklingur um sjálfsvíg eða sorg eftir sjálfsvíg, engin heimasíða eða neitt slíkt til að afla sér upplýsinga. Við pöntuðum bækur og eigum hillumetrana heima af bókum um sjálfsvíg og sorg eftir sjálfsvíg. Ég las allt sem ég komst í um sjálfsvíg, það var mitt bjargráð og mín leið til að reyna að komast í gegnum þetta áfall og miklu sorg. Ég labbaði líka rosalega mikið, upp um fjöll og firnindi, útiveran hjálpaði mikið. Við hjónin fórum svo að ferðast erlendis og þannig náðum við að dreifa huganum og hafa eitthvað að hlakka til,“ segir hún einlæg en bætir við að það skipti líka miklu máli að tala saman um líðan og tilfinningar við makann og sína nánustu þegar svona áfall verður.
Ný aðgerðaáætlun til að fækka sálfsvígum
Guðrún Jóna fór í framhaldinu að vinna fyrir sorgarsamtökin Ný dögun og þau hjónin stofnuðu minningarsjóð í nafni sonar síns, orriomars.is en tilgangur sjóðsins er að styðja við aðstandendur því þeim fannst vanta slíkan stuðning. „Þekkingin á mikilvægi stuðnings eftir sjálfsvíg er nýleg en er í dag orðin viðurkenndur hluti sjálfsvígsforvarna af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).“
Erum við að gera nóg í sjálfsvígsforvörnum á Íslandi?
„Við erum að vinna eftir nýrri aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum. Við erum með áætlun til ársins 2030 sem við hjá Lífsbrú fylgjum eftir. Sjálfsvígsforvarnir eru flóknar í eðli sínu en það hefur tekist að sýna fram á gagnsemi sumra forvarna umfram annarra og við erum að vinna að því að innleiða þær.“
Guðrún leggur áherslu á ráðleggingar sem Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hefur gefið út varðandi sjálfsvígsforvarnir. Þar er áherslan lögð á fjögur mikilvæg atriði sem eigi að vera partur af sjálfsvígsforvarnaáætlunum:
- Áhersla á að efla seiglu og tilfinningafærni barna og ungmenna og í því samhengi þyrftum við að koma geðrækt inn í skóla og helst leikskóla. Kenna börnum að efla sína seiglu með því að leysa ekki vandamálin fyrir þau og leyfa þeim að spreyta sig og reka sig á, takast á við lífið. Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur að innleiða.
- Takmarka aðgengi að hættulegum svæðum, aðstæðum og efnum. Til dæmis að takmarka aðgengi að háum byggingum og brúm, passa brautarpalla í þeim löndum þar sem þeir eru og hafa lög um geymslu skotvopna og lyfja. Miðlægi gagnagrunnurinn sem við höfum hér á landi er okkar tól til að hafa yfirsýn yfir lyfjaávísanir og lyfjanotkun. Á Indlandi varð til að mynda mikil fækkun á sjálfsvígum þegar aðgengi að skordýraeitri þar í landi var takmarkað. Allt þetta skiptir miklu máli og það er alltaf hægt að gera betur í þessum málum.
- Vinna með fjölmiðlum að ábyrgri umfjöllun um sjálfsvíg. Mikilvægt fyrir okkur í þessu samhengi er að átta okkur á að við erum ritstjórar á okkar eigin samfélagsmiðlum og getum því öll haft áhrif. Fræðsla til almennings er hér mikilvægt atriði.
- Að fólk viti af og það séu til lágþröskulda úrræði fyrir fólk í vanlíðan. Þar má nefna úrræði sem eru opin allan sólarhringinn eins og hjálparsími Rauða krossins, Píeta síminn og sími Upplýsingamiðstöðvar heilsugæslunnar. Bergið er lágþröskuldaúrræði sem er sérstaklega ætlað fólki upp að 25 ára, Píeta samtökin eru fyrir 18 ára og eldri sem glíma við sjálfsvígshugsanir og svo er Sorgarmiðstöð fyrir syrgjendur. Forgangsaðgerðir eru líka fræðsla til fagaðila um samræmt sjálfsvígshættumati og þessi grein smellpassar inn í þá vinnu. Fleiri aðgerðir eru í forgangi sem snúa að samræmdu verklagi eftir sjálfsvígstilraun og í kjölfar sjálfsvígs.
Aðstandendur þurfa stuðning til að geta verið til staðar
Hvernig getur samfélagið verið meðvitað um mikilvægi þess að veita stuðning í erfiðum aðstæðum eins og þegar sjálfsvíg verður og hvernig á að opna á umræðuna því mörgum finnst erfitt að ræða dauðann og þá ekki síst þegar um sjálfsvíg er að ræða?
„Við erum vanmáttug gagnvart áföllum eins og sjálfsvígi og vitum fæst hvað við eigum að gera eða segja. Erum mögulega hrædd um að segja eða gera eitthvað rangt og gera þannig illt verra. Þetta er skiljanlegt en aðalmálið er að vera til staðar,“ svarar hún og bætir við að mikilvægt sé að koma á samræmdum faglegum stuðningi eftir sjálfsvíg í þeim tilgangi að styrkja aðstandendur og aðra sem tengjast þeim nánustu til að vera til staðar þegar sjálfsvíg verður. Einnig er mikilvægt að styrkja og styðja þann sem missir þannig að viðkomandi treysti sér til að þiggja hjálp og fá stuðning.“

Embætti landlæknis hefur gefið út viðbragðsáætlun vegna skyndilegs andláts á vinnustað sem er stuttur leiðarvísir og grunnur að því að vinnustaður geti gert eigin viðbragsáætlun en þar er bent á úrræði og mögulegan stuðning. Hvaða leiðir farið þið til að kynna þessar viðbragðsáætlun fyrir þeim sem mögulega munu þurfa á henni að halda einn daginn? „Viðbragðsáætlunin var kynnt á ráðstefnu sem Sorgarmiðstöð hélt árið árið 2022 um skyndilegan missi og einnig var hún kynnt á viðburði hjá Mannauði sem er félag mannauðsfólks á Íslandi. Það þyrftu sem flestir að vita af henni, hún er á vefsíðu embættis landlæknis og best væri ef fyrirtæki, stofnanir, skólar og félög myndu vinna sína viðbragðsáætlun byggða á þessum grunni áður en áfall hittir vinnustaðinn en ekki öfugt,“ svarar hún.
Vitundarvakningin heldur áfram
Greinin um sjálfsvíg eldra fólks hér í blaðinu er athyglisverð, ætlið þið höfundar hennar að fylgja henni eftir? „Já, þessi grein verður til að mynda notuð í bóklegri kennslu í B.S.-námi í hjúkrunarfræði við H.Í. í námskeiði sem heitir geðhjúkrun og geðheilbrigði og Eydís, einn höfundur greinarinnar kennir. Einnig kynntum við hana á Vísindadegi geðhjúkrunar í byrjun nóvember,“ svarar hún og við ákveðum í sameiningu að segja þetta gott og hvetjum öll til að kynna sér sjálfsvígforvarnir og vera meðvituð um mikilvægi þess að geta veitt stuðning og verið til staðar fyrir nánustu aðstandendur ef sjálfsvíg verður í fjölskyldunni, vinahópnum eða á vinnustaðnum. Einnig að geta leitað sér hjálpar ef þessi flókna sorg sem sjálfsvíg hrindir af stað, kemur upp á ferðalagi lífsins.
Ritstýran þakkar Guðrúnu Jónu fyrir gott spjall og fer með henni niður í Grasagarð þar sem haustlitirnir skarta sínu fegursta til að taka myndir af henni fyrir viðtalið.





