Fara á efnissvæði
Skýrsla

Skýrsla WHO um geðheilbrigði hjúkrunarfræðinga og lækna í ESB, Íslandi og Noregi

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur gefið út skýrslu sem byggir á könnun sem var gerð meðal hjúkrunarfræðinga og lækna í 27 löndum Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs.

Evrópa stendur frammi fyrir stórum vanda þegar kemur að geðheilbrigði hjúkrunarfræðinga og lækna. Skýrslan tekur til margra þátta á borð við þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsana auk almenns geðheilbrigðis. Könnunin var gerð frá október 2024 til apríl 2025, alls byggir skýrslan á yfir 90 þúsund svörum, hæsta svarhlutfallið var í Ungverjalandi, Íslandi og Lettlandi. Lægsta svarhlutfallið var í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi. Alls er þetta stærsta rannsókn sinnar tegundar í Evrópu.

Einn af hverjum þremur hafa einkenni þunglyndis eða kvíða. Einn af hverjum þremur hafa orðið fyrir áreiti eða hótunum um ofbeldi á vinnustað síðasta árið, þá segjast 10% hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi eða kynferðislegri áreitni. Rúm 10% hafa hugsað um veita sér skaða eða binda endi á líf sitt.

Þegar kemur að Íslandi er hlutfall þunglyndis 16%, meðaltalið er 28%. Kvíði mælist 13% á Íslandi, meðaltalið er 22%. Hlutfall þeirra sem finna fyrir fíkn í áfengi er 5% hér á landi, meðaltalið er 3%. Hlutfall þeirra sem verða fyrir einhverskonar ofbeldi á vinnustað er 57% á Íslandi, meðaltalið er 77,6%.

Bæta þarf starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga

Það er aldrei ásættanleg staða að hjúkrunarfræðingar finni fyrir kvíða, þunglyndi eða sjálfvígshugsunum vegna starfs síns. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vinnur því markvisst að því að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.

Fram kemur í kjarasamningi Fíh við ríkið sem undirritaður var í fyrra að mikilvægt sé að heilbrigðisstofnanir hafi úrræði sem feli bæði í sér forvarnir og stuðning við hjúkrunarfræðinga. Þannig verði hjúkrunarfræðingum tryggð tækifæri til faglegs stuðnings, handleiðslu og úrvinnslu óvæntra atvika og í forvarnarskyni enda leiði það til aukins árangurs í starfi, bættrar líðan, aukins öryggis á vinnustöðum og minni starfsmannaveltu. Á þeim stofnunum sem hjúkrunarfræðingar starfa skal meta þörf fyrir faglegan stuðning, handleiðslu og úrvinnslu óvæntra atvika. Til að tryggja faglegan stuðning við hjúkrunarfræðinga skal hver stofnun skilgreina úrræði eða verklagsreglur sem taka til þessara þátta og standa hjúkrunarfræðingum til boða.

Einnig er unnið, í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld, að því að setja á mönnunarviðmið sem tryggja að hjúkrunarfræðingar geti sinnt starfi sínu í samræmi við faglega þekkingu sína, með öryggi og gæði þjónustunnar að leiðarljósi.