Fara á efnissvæði
Frétt

Starfsþróunarsetur Fíh tekur til starfa

Starfsþróunarsetur Fíh tekur til starfa 12. maí 2025, á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga. Styrkupphæðin hækkar í 600 þúsund krónur.

Starfsþróunarsetrið tekur við af starfsmenntunarsjóði og við breytingarnar mun styrkfjárhæðin hækka úr 350.000 kr. í 600.000 kr. á 24 mánaða tímabili, auk þess sem atvinnurekendur hjúkrunarfræðinga geta sótt um í sjóðinn. Hjúkrunarfræðingar geta nú sótt um í Starfsþróunarsetrið í gegnum Mínar síður.

Umsóknir sem berast eftir 1. maí 2025 falla undir nýjar reglur Starfsþróunarsetursins og verða til afgreiðslu í júní. Úthlutunarreglur Starfsþróunarsetursins munu ekki breytast mikið frá núgildandi reglum starfsmenntunarsjóðs þegar kemur að hjúkrunarfræðingum. Áfram munu kvittanir gilda í allt að 12 mánuði, auk þess sem færa þarf rökstuðning fyrir því hvernig verkefni nýtast umsækjanda í starfi.

Um Starfsþróunarsetur Fíh

Í síðustu miðlægu kjarasamningum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var samið um stofnun Starfsþróunarseturs fyrir hjúkrunarfræðinga. Að Starfsþróunarsetrinu standa, auk Fíh, ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Starfsþróunarsetrið mun taka yfir starfsemi Starfsmenntunarsjóðs Fíh og áætlað er að það taki til starfa þann 1. maí næstkomandi. Með stofnun Starfsþróunarsetursins hækkar framlag launagreiðenda til sí- og endurmenntunar upp í 0,92% frá 1. apríl 2027.

Sí- og endurmenntun skiptir hjúkrunarfræðinga gífurlega miklu máli þar sem þróunin í heilbrigðisþjónustunni er mjög ör og því sífellt aukin krafa um frekari þekkingu, hæfni og nýsköpun í hjúkrun. Því skapast hér aukin tækifæri til að styrkja hjúkrunarfræðinga til frekari menntunar, starfsþróunar, nýsköpunar og rannsókna í hjúkrun. Jafnframt munu stofnanir sem hjúkrunarfræðingar starfa hjá, geta sótt um styrk til frekari sí- og endurmenntunar sem miðar að því að auka faglega hæfni og þróun hjúkrunar. Dæmi um slíkt sem færist yfir til stofnana eru kynnisferðir hjúkrunarfræðinga.

Með tilkomu Starfsþróunarseturs Fíh skapast nú nýir möguleikar fyrir hjúkrunarfræðinga til að efla þekkingu sína og hæfni, sem er lykilatriði í því að tryggja öfluga og örugga heilbrigðisþjónustu. Með markvissum stuðningi við starfsþróun mun Starfsþróunarsetrið gegna mikilvægu hlutverki í að bæta starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga og styðja við faglega framþróun greinarinnar til framtíðar.