Forseti Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN), José Luis Cobos Serrano, ítrekar samstöðu með öllum sem þjást af völdum ofbeldisins sem á sér stað á Gaza og leggur áherslu á mikilvægi þess að friðarviðræður hafi verið endurnýjaðar. Í bréfi sem hann sendi frá sér í dag hvetur hann stríðandi fylkingar til að nýta tækifærið til að binda varanlegan endi á ofbeldið og byggja upp framtíð sem byggir á réttlæti og virðingu.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, líkt og ICN, ítrekar fordæmingu sína á árásum á heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og almenna borgara. Koma þarf á friði án tafar, friður er grunnforsenda heilsu og öryggis fólks.
ICN setti af stað stuðningsátakið #NursesforPeace árið 2022 í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Í dag safnar #NursesforPeace fé fyrir hjúkrunarfræðinga á átaka- og hamfarasvæðum um allan heim, beitir sér fyrir vernd þeirra og vekur athygli á hættum sem steðja að heilbrigðiskerfum. ICN hefur gegnum #NursesforPeace stutt við hjúkrunarfræðinga á átaka- og hamfarsvæðum í Palestínu, Ísrael, Líbanon, Úkraínu, Myanmar og Súdan.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur ákveðið að leggja til framlag til #NursesforPeace í gegnum Bandalag hjúkrunarfélaga á Norðurlöndunum, eins og félagið hefur áður gert.
Fíh hvetur einnig einstaklinga til að leggja málefninu lið með framlögum til #NursesforPeace.