Fara á efnissvæði
Frétt

Þorsteinn hlaut hvatningarstyrk

Þorsteinn Jónsson er sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun, kennslustjóri hermináms á menntadeild Landspítala og aðjúnkt við Háskóla Íslands í bráða- og gjörgæsluhjúkrun. Hann er meðal þeirra sem hlaut hvatningarstyrk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í ár.

Þorsteinn Jónsson er sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun, kennslustjóri hermináms á menntadeild Landspítala og aðjúnkt við Háskóla Íslands í bráða- og gjörgæsluhjúkrun. Utan virkra stjórnunarstarfa á Landspítala og í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild hefur hann setið í stjórn Endurmenntunar HÍ, stjórn Endurlífgunarráðs Íslands og verið formaður Skyndihjálpar Íslands. Þorsteinn er óumdeildur leiðtogi í uppbyggingu hermináms á Íslandi. Hann, ásamt samstarfsfólki, hefur byggt upp herminám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og við Landspítala. Með sína miklu reynslu og djúpu þekkingu er hann lykilmaður í vinnuhópi um byggingu nýs heilbrigðisvíssindahúss, þar sem sérþekking hans á sérhönnuðum færni- og hermisetrum er ómetanleg. Með framtíðarsýn sinni og natni við uppbyggingu hermináms á Íslandi hefur hann lagt grunn að auknu öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks, að fjölgun nemenda í klínísku námi og þar með aukinni sjálfbærni hjúkrunarfræði og hjúkrunarfræðinga.

Fimm hjúkrunarfræðingar, þar á meðal Þorsteinn, hlutu hvatningarstyrk á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2023 sem haldinn var í Hörpu.

Frá afhendingu hvatningarstyrkja Fíh í Hörpu.

Markmið hvatningarstyrkja er að styðja við hjúkrunarfræðinga sem hafa á einhvern hátt skarað fram úr á sínu sviði. Viðurkenningin byggir á gildum Fíh, ábyrgð, áræðni, árangur og horft skal til þátta sem lúta að klínískri færni, stjórnun, kennslu, rannsóknum og nýsköpun í hjúkrun.

Styrknum er ætlað að styðja hjúkrunarfræðinga til að afla sér frekari þekkingar og/eða þjálfunar sem nýtist þeim til að þróa enn frekar sín verkefni sem tengjast hjúkrun og þeir eru í forsvari fyrir eða leiða. Þessir hvatningarstyrkir eru veittir einstaklingum en ekki fyrir verkefni eða rannsóknir sem eru fjármagnaðar að fullu eða hluta annarstaðar.