Fara á efnissvæði
Frétt

Til hamingju með daginn hjúkrunarfræðingar!

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh, á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga 2024.

Í dag, sunnudaginn 12. maí fagna hjúkrunarfræðingar saman um allan heim alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga. Á þessum degi gefst okkur tækifæri til að vekja athygli á framlagi þeirra til samfélagsins og og því lykilhlutverki sem hjúkrunarfræðingar gegna á öllum stigum heilbrigðiskerfisins.

Að þessu sinni er yfirskrift dagsins frá Alþjóðaráði hjúkrunarfræðinga, ICN, Hjúkrunarfræðingar nú og í framtíð – efnahagsleg auðlind.

Enn og aftur er Alþjóðaráðið að benda stjórnvöldum landa heimsins, þ.á.m. Íslands, að fjárfesta betur í hjúkrun. Það er grundvallaratriði svo hægt sé að mæta vaxandi þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og að takast á við þær áskoranir sem framundan eru hjá okkur næstu ár og áratugi.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur bent á að háskólamenntuðum hjúkrunarfræðingum megi ekki fækka frekar enda ógni það öryggi sjúklinga og auki dánarlíkur þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Þetta skiptir miklu máli í umræðunni um framtíð íslensks heilbrigðiskerfis en íslensk yfirvöld hafa þegar sett fram í heilbrigðisstefnu sinni til 2030 að gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar eiga að vera í fyrirrúmi. Því tel ég að ef þau ætla að fara eftir eigin stefnu, þurfi þau að fylgja fyrirliggjandi ráðleggingum Alþjóðaráðsins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Fjölþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að næg mönnun hjúkrunarfræðinga eykur öryggi sjúklinga, tryggir gæði þjónustu á heilbrigðisstofnunum og er samfélagslega hagkvæm. Einhverjir telja lausn liggja í því að fá annað starfsfólk til starfa sem annað hvort er með minni menntun eða ófaglært en rannsóknir sýna fram á að slíkt sé verri nýting á fjármagni og líkurnar á dánartíðni sjúklinga hækka til muna. Því er nauðsynlegt að missa ekki sjónar af markmiðinu sem er velferð okkar skjólstæðinga og að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar. Það þýðir að við þurfum að fá hjúkrunarfræðinga til starfa, sem þegar hafa leitað í önnur störf og halda hinum í starfi með ásættanlegum kjörum og starfsumhverfi. Jafnframt þarf að nýta betur hjúkrunarfræðinga og sérfræðinga í hjúkrun í starfi enda verið sýnt fram á að frekari efling stéttarinnar hvetur til góðra umbóta í heilbrigðiskerfinu, er efnahagslega hagkvæmari og stuðlar að betri samfélagslegri velferð.

Hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta heilbrigðisstéttin á landinu og oftar en ekki þekkja því flestir einhverja hjúkrunarfræðinga. Ég skora því á alla landsmenn að sýna þakklætið í verki með því að óska hjúkrunarfræðingum til hamingju með daginn.

Til hamingju með daginn kæru hjúkrunarfræðingar!