Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að í frumvarpinu sé lögð áhersla á að skýra betur skyldu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til að byggja ákvarðanatöku á gagnreyndri meðferð og faglegu og hagrænu mati.

Umsögn: Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að í frumvarpinu sé lögð áhersla á að skýra betur skyldu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til að byggja ákvarðanatöku á gagnreyndri meðferð og faglegu og hagrænu mati.

Af reynslu félagsins hefur ferlið við gerð rammasamninga og forsendur þeirra verið óljós og skort hefur á samræmi í veitingu slíkra samninga milli heilbrigðisstétta. Fíh vonast til að með fyrirliggjandi lagabreytingum verði ferlið skýrara og gagnsærra.

Sem dæmi má nefna að ljósmæður með IBCLC réttindi hafa fengið rammasamning við SÍ vegna brjóstagjafaráðgjafar, en hjúkrunarfræðingar með sömu sérmenntun og vottun hafa ekki fengið slíkan samning. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hefur félagið ekki fengið skýringar á ástæðum þessa misræmis. Slíkt misræmi undirstrikar þörfina á gagnsæju ferli og jafnræði við gerð rammasamninga. Að auki má nefna að í gegnum tíðina hafa hjúkrunarfræðingar sent fyrirspurnir um möguleika á rammasamningum vegna nauðsynlegra hjúkrunarmeðferða, án þess að fá rökstudd svör við fyrirspurnum sínum. Þar má meðal annars nefna hjúkrunarþjónustu á sviði geðheilbrigðis og við svefnvanda barna.

Í stefnumiðum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til ársins 2030 er lögð áhersla á að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra hjúkrunarmeðferða sem sérfræðingar í hjúkrun veita en slík sérhæfð þjónustukaup af sérfræðingum í hjúkrun geta verið mikilvægur liður í að stuðla að gæðum, jöfnu aðgengi og bættri heilsu íbúa um allt land með öruggum og hagkvæmum hætti.

Fíh væntir þess að tryggt verði að hjúkrunarfræðingar, líkt og aðrar heilbrigðisstéttir, eigi kost á samningi við Sjúkratryggingar Íslands vegna sérfræðiþekkingar og þjónustu. Mikilvægt er að ákvarðanir um gerð samninga séu gagnsæjar og byggðar á faglegum og rökstuddum forsendum.

Félagið er reiðubúið til frekara samráðs ef þess er óskað.