Umsögn um: Drög að aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks 2026-2029
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) er fag- og stéttarfélag. Tilgangur félagsins er að vinna að framgangi hjúkrunar, faglegri þróun og kjörum hjúkrunarfræðinga meðal annars með því að taka þátt í stefnumótun um heilbrigðisþjónustu með samfélagslega ábyrgð og hagsmuni almennings í fyrirrúmi.
Hjúkrunarfræðingar eru oft fyrstir til að mæta einstaklingum og fjölskyldum í heilbrigðiskerfinu. Með fagþekkingu sinni tengja þeir saman hjúkrun og lýðheilsu og veita fræðslu, stuðning og ráðgjöf sem styrkir bæði einstaklinga og samfélagið í heild. Fíh fagnar gerð aðgerðaráætlunar í málefnum hinsegin fólks 2026-2029 og þakkar fyrir að hafa fengið boð um að koma með umsögn um hana. Fíh hefur kynnt sér aðgerðaráætlunina og hefur engar athugasemdir um innihald hennar. Félagið er með tvær ábendingar undir eftirfarandi liðum:
1. Aðgerð 15 um hinsegin þolendur heimilisofbeldis
Fíh telur brýnt að Heilbrigðisráðuneytið komi einnig að þeirri vinnu. Ráðuneytið hefur þegar haft forgöngu um umfangsmikla vinnu við að samræma verklag heilbrigðisþjónustunnar við móttöku þolenda heimilisofbeldis og þær tillögur sem þar komu fram verið meðal annars innleiddar á Landspítala. Í fyrstu tillögu í skýrslu Heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að ,,taka þurfi sérstakt tillit til einstaklinga sem koma vegna ofbeldis af hálfu maka af sama kyni“og í tengslum við það að sá hópur þyrfti sérsniðna þjónustu. Þó að flestar tillögurskýrslunnar megi heimfæra á flesta þá er mikilvægt að fylgja því eftir hvort e-ð af því verklagi sem nú er í gildi þurfi að sérsníða að hinsegin þolendum heimilisofbeldis.
2. Ódæmigerð kyneinkenni og kynstaðfestandi ferli
Fíh telur mikilvægt að tryggð sé þekking á landsbyggðinni, svo sem áfjórðungssjúkrahúsunum og/eða heilsugæslum, þó að sérhæfð þjónusta og sérþekking sé á Landspítalanum. Mikilvægt er að einstaklingar geti leitað eftir stuðningi og ráðgjöf í sínu nær samfélagi.
Það er von Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga að með innleiðingu aðgerðaráætlunarinnar í málefnum hinsegin fólks megi tryggja enn betur hagsmuni og réttindi þessa hóps.





