Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar drögum að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið. Drögin eru vel unnin og fjalla um alla helstu þætti sem eru mikilvægir í heilbrigðisþjónustu aldraðra.

Efni: Umsögn um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, mál 141/2021.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar drögum að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið. Drögin eru vel unnin og fjalla um alla helstu þætti sem eru mikilvægir í heilbrigðisþjónustu aldraðra.

Í nýrri stefnu í hjúkrunar- og heilbrigðismálum Fíh til ársins 2030 kemur fram að hjúkrun er og verður lykilþáttur öldrunarþjónustu. Því er nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingar séu í forsvari og fararbroddi þegar kemur að hjúkrun aldraðra. Þeim ber að tryggja að aldraðir fái þá hjúkrun og endurhæfingu sem þeir þarfnast, hvort heldur er í heimahúsum, heilsugæslu, á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum. Þetta er í samræmi við heimsmarkmið 3 frá Sameinuðu þjóðunum um heilsu og vellíðan.

Fíh vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við drögin að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldaða:

  • Öflugar hjúkrunarmóttökur eru til staðar innan heilbrigðiskerfisins sem sinna 1. og 2. stigs heilbrigðisþjónustu.
    Þetta er hægt að gera til dæmis með því að styrkja heilsueflandi móttökur fyrir aldraða, sem og heilsueflandi heimsóknir. Fíh leggur áherslu á að sérfræðingar í öldrunarhjúkrun sinna beinni þjónustu við aldraða einstaklinga og fjölskyldur þeirra, veita stuðning, fræðslu og leiðsögn til annarra fagaðila á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar, m.a. með HÖR (Heimahjúkrunar Öldrunar Ráðgjöf). Einnig hafa BÖR (Bráða Öldrunar Ráðgjöf) hjúkrunarfræðingar á Bráðamóttöku Landspítala verið í lykilstöðu sem ráðgefandi hjúkrunarfræðingar fyrir aldraða og reynt að tryggja þannig öruggari útskriftir af bráðamóttökunni, koma í veg fyrir endurinnlagnir og gera öldruðum kleift að dvelja heima sem lengst.

  • Samþætting þjónustu.
    Mikilvægt er að samþætta kerfi á borð við heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu með það að markmiði að auka gæði þjónustu og stuðla að samfelldari og betri þjónustu fyrir aldraða.

  • Skilgreint hlutverk öldrunarhjúkrunafræðinga á heilsugæslunni.
    Til að tryggja að aldraðir fái þjónustu á réttu þjónustustigi telur Fíh mikilvægt að öldrunarhjúkrunarfræðingar í heilsugæslunni fái skilgreint hlutverk til dæmis sem málastjórar skjólstæðinga í heimahjúkrun sem hafa yfirumsjón með teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra sem annast skjólstæðinginn.

  • InterRAI-mælitækið.
    Fíh leggur ríka áherslu á að InterRAI mælitækið verði notað í öllum þjónustukerfum fyrir aldraða til að mæta þjónustuþörf með sem réttmætustum hætti. Til að gefa góðar vísbendingar um heilsufar, hjúkrunarþarfir og þjónustuþörf skjólstæðinga heimahjúkrunar er nauðsynlegt að nota kvarða, viðfangsefni og gæðavísa interRai-HC mælitækisins.

  • Auka framboð á sérhæfðri endurhæfingu í dagþjálfun og skammtíma endurhæfingarplássum á öllum þjónustustigum.
    Mikilvægt er að huga að fjölbreyttari þjónustumöguleikum til að auka möguleika aldraðra á að dvelja heima. Sérfræðingar í endurhæfingarhjúkrun gegna lykilhlutverki sem virkir meðferðaraðilar í eflingu öldrunarendurhæfingarúrræða og að veitt sé fjölbreyttari þjónusta heima hjá öldruðum svo þeir geti haft sem lengsta búsetu á eigin heimili.

  • Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu.
    Í drögunum er fjallað um nýsköpun í öldrunarþjónustu og er fjarheilbrigðisþjónusta gott dæmi um það. Fjarheilbrigðisþjónusta tryggir betri þjónustu til þeirra sem eru búsettir á landsbyggðinni og er tímasparandi fyrir aldraða og aðstandendur þeirra. Fíh telur mikilvægt að fjarheilbrigðisþjónusta og rafrænar lausnir verða virkir þættir í forvörnum, meðferð, endurhæfingu og eftirfylgd hjúkrunarfræðinga við skjólstæðinga sína.

  • Rannsóknir í öldrunarfræðum.
    Í dag er starfrækt Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarmálum (RHLÖ). Hún hefur sannað gildi sitt og nauðsynlegt að víkka út starfssvið hennar við samstarfsaðila á landsvísu. Þessi nýja miðstöð rannsókna þarf að vera þverfagleg og þverstofnanaleg og vera leiðandi í miðlun upplýsinga og nýrrar þekkingar.

  • Heildræn öldrunarþjónusta í þjónustukjörnum er hjúkrunarstýrð.
    Fíh telur mikilvægt að þjónustukjarnar öldrunarþjónustu bjóði upp á fjölbreytta þjónustu með það að leiðarljósi að auka möguleika á lengri búsetu heima.

  • Sérfræðimenntun geðhjúkrunarfræðinga og fjölgun sérfræðinga í geðhjúkrun.
    Með auknu fjármagni þarf að veita til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri til að byggja upp frekari sérfræðimenntun geðhjúkrunarfræðinga og fjölga sérfræðingum í geðhjúkrun. Öryggi notenda og gæði þjónustunnar er undirstaða að góðri heilsu og vellíðan almennings og eykst með aukinni menntun hjúkrunarfræðinga. Ráða þarf fleiri geðhjúkrunarfræðinga og sérfræðinga í geðhjúkrun til starfa í fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu. Mun það geta styrkt öflug þverfagleg geðteymi sem skortur er á í heilsugæslunni, sem og á heilbrigðisstofnunum og öðrum starfsstofum. Einnig þarf að hafa í huga að hækkandi aldur þjóðarinnar eykur þörfina fyrir sértæka geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða m.a. í gegnum heimahjúkrun.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari vinnu við nýja stefnu í stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraðra, þegar farið verður í það verkefni að setja markmið og mælanlegar leiðir til að ná þeim.